16.03.1962
Neðri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2528 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

158. mál, skólakostnaður

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Hæstv. forseti. Frv. þetta er þess efnis, að þegar fleira en eitt sveitarfélag standa saman að heimavistarbarnaskóla, skuli ríkissjóður greiða jafnóðum ársfjórðungslega áætlað rekstrarframlag sitt.

Á síðustu árum hafa verið reistir fyrstu heimavistarbarnaskólar í landinu, þar sem margir hreppar sameinast um einn skóla, og eru allir sammála um, að í því felist mikil framför. Komið hafa í ljós í nokkrum slíkum skólum í Vesturlandskjördæmi erfiðleikar fyrir fjárhaldsmenn skólanna, vegna þess að þeir þurfa að sækja undir mörg sveitarfélög. Þar að auki er venjulega um að ræða litla hreppa, sem hafa þröng fjárráð og eiga erfitt með að leggja út kostnaðarhluta ríkisins af rekstri skólanna, en venjan er sú, að ríkið borgi sinn hluta af kostnaðinum eftir reikningi eftir á.

Samkvæmt óskum frá skólastjórum, sem við þessa erfiðleika hafa átt að stríða, og frá námsstjóra þeirra á Vesturlandi komu þm. Vesturl. saman á fund og buðu þangað fjármálaeftirlitsmanni skóla til að ræða þetta. Upp úr þeim fundi var frv. þetta samið og er flutt af 3 þm. úr þremur flokkum þessa kjördæmis, sem hér í deild eiga sæti.

Fjármálaeftirlitsmaður skóla hefur látið í ljós álit á málinu, enda þótt hann væri aðspurður fyrir fram og hefði verið í ráðum um samningu frv. í álitsgerðinni, sem hann hefur sent menntmn. í gær, mælir hann með því, að frv. verði samþ., og telur það nauðsynlegt, en segir í lok grg. sinnar:

„Ég tel sérstöðu þessara skóla nægilega afmarkaða með því, að hér er um að ræða heimavistarbarnaskóla, sem fleiri en eitt sveitarfélag stendur að:”

Hann leggur eðlilega áherzlu á, að hér sé ekki skapað almennt fordæmi. Ætti að taka upp þessa greiðsluaðferð við alla skóla í landinu, væri það mjög umfangsmikið og alvarlegt mál fyrir ríkissjóð. En hér er um fáa skóla að ræða, sem hafa algera sérstöðu og hafa lent í allmiklum erfiðleikum með rekstur sinn af þessum sökum.

Menntmn. hefur rætt þetta frv. og mælir einróma með samþykkt þess, eins og fram kemur á nál. á þskj. 350.