12.04.1962
Efri deild: 86. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2530 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

158. mál, skólakostnaður

Frsm. . (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. d. hefur rætt frv. það, sem hér liggur fyrir. í grg. með frv. er nánar skýrt efni þess. Frv. fjallar um það í stuttu máli, að rekstrarkostnað heimavistarbarnaskóla, sem fleiri en eitt sveitarfélag stendur að, skuli ríkissjóður greiða að sínum hluta fjórum sínnum á ári. Reglan er hins vegar sú, að ríkissjóður greiðir sinn hluta skólakostnaðar eftir á, þegar upp hafa verið gerðir reikningar ársins, og sveitarfélögin leggja kostnaðinn út í bili. En þegar svo stendur á sem hér er, að fleiri en eitt sveitarfélag standa að skólunum, hefur reynzt mjög erfitt að innheimta hjá hinum ýmsu sveitarfélögum kostnað þann, sem leggja þarf út í bili, og eins og segir í grg. með frv., hafa af þessu skapazt vandræði og jafnvel öngþveiti, sem örðugt hefur verið að leysa, og menn hafa verið ófúsir til að taka að sér reikningshald þessara stofnana.

Menntmn. leggur einróma til, að frv. verði samþ. óbreytt.