24.10.1961
Efri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðh. gat um, eru það að sjálfsögðu svipuð rök, sem hníga til þessara breytinga eins og breytingar á sakadómaraembættinu, sem gerð var á s.l. þingi.

Það embætti, sem ég vildi aðeins lítillega gera að umræðuefni við 1. umr. Þessa máls, er embætti borgardómarans í Reykjavík. Í frv. segir, að borgardómarar skuli vera 5–7 eftir ákvörðun dómsmrh. Það er sami fjöldi og frv. gerir ráð fyrir með borgarfógeta, að þeir skuli einnig vera 5–7, og hæstv. ráðh. gat þess, að þessi fjöldi væri miðaður við fulltrúafjöldann, þannig að reiknað væri með, að flestir þessara fulltrúa yrðu þá borgardómarar eða borgarfógetar eftir því, hjá hvoru embættinu þeir hafa starfað. Nú tel ég, að þarna sé ekki um eðlileg hlutföll að ræða. Ég álít, að verkefni borgardómaraembættisins séu miklu meiri en verkefni borgarfógeta, enda hygg ég, að hjá borgardómaraembættinu starfi nú fleiri fulltrúar en hjá borgarfógeta, og ég mundi álíta, að að jafnaði þyrfti a.m.k. þremur fleiri fulltrúa hjá borgardómara en hjá borgarfógeta. Og það hefur líka orðið þannig í reynd, að það hefur verið óheyrilegur seinagangur á afgreiðslu dómsmála hjá borgardómaraembættinu. Það gengur þannig fyrir sig, að þegar gagnaöflun er lokið í málum og aðeins er beðið eftir því, að embættið eða viðkomandi fulltrúi embættisins eða dómari geti tekið málið fyrir til að dæma það, þá þarf iðulega að bíða eftir því í 6 mánuði og allt upp í heilt ár. Alveg sama er í raun og veru með aðra afgreiðslu hjá þessu embætti. T.d. þegar málflytjendur og aðrir, sem þurfa við þetta embætti að skipta, þurfa að fá endurrit dóma eða einhverra gagna, sem þar hafa verið lögð fram, þarf iðulega að bíða eftir því að fá þetta afgreitt frá skrifstofunni í 1–2 mánuði. Ég gæti bara rétt ímyndað mér það t.d., ef hv. alþm. þyrftu að fara hér á skrifstofu þingsins og láta vélrita eitthvað fyrir sig og þeim væri sagt, að þeir gætu spurt eftir þessu eftir mánuð, en þannig er afgreiðslan hjá þessu embætti. Nú vil ég skýrt taka það fram, að ég álít, að þessi seinagangur á afgreiðslu mála og annarra starfa hjá þessu embætti sé engan veginn borgardómaranum eða starfsfólki hans að kenna, heldur er ástæðan sú, að ríkisvaldið hefur skammtað þessu embætti starfskrafta. Og úr þessu þarf nauðsynlega að bæta. Að vísu mun það vera svo, að það á að bæta þarna við einum fulltrúa um næstu áramót, en það er allsendis ófullnægjandi. Það væri í raun og veru algert lágmark að mínum dómi, að það yrði bætt við tveimur fulltrúum og einni vélritunarstúlku. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að þegar svona gengur afgreiðsla hjá þessu embætti, þá vilja menn oft heldur þola óréttinn en leita til dómstólanna og fá þar mál sin afgreidd, þar sem þeir vita fyrir fram um, hversu óheyrilega langan tíma það muni taka. Það er líka rétt að taka það fram í þessu sambandi, að reglurnar um varnarþing leiða til þess, að það er mjög mikill málafjöldi einkamála rekinn hér í Reykjavík. Menn beina yfirleitt málunum til Reykjavíkur, ef það er heimilt. Þannig er borgardómaraembættið í Reykjavík í raun réttri að miklu leyti undirréttardómstóll fyrir allt landið. Og það er þess vegna, að þegar þetta embætti getur ekki innt skyldur sínar af hendi, þá bitnar það ekki eingöngu á Reykvíkingum og þeim, sem búa hér í nágrenninu, heldur í raun og veru getur það að meira eða minna leyti bitnað á mönnum úti um allt land.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessari staðreynd. Ég tel, að borgararnir eigi þarna rétt á að fá miklu betri þjónustu, þeir þurfi ekki að þola þann réttarskort, sem í þessu felst, að dómsmál séu ekki afgreidd með eðlilegum hraða, og mér fannst einmitt rétt að vekja athygli á þessu nú, þegar verið er að endurskipuleggja þetta embætti ásamt öðrum fleirum, að þá verði jafnframt hugsað til þess, að þetta embætti hafi yfir nægum starfskröftum að ráða, til þess að það geti innt skyldu sina af hendi.