13.04.1962
Neðri deild: 91. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2537 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

227. mál, lán til þriggja skipasmíðastöðva

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Með bréfi, dags. 9. þ.m., fóru forráðamenn fyrirtækisins Stálvíkur h/f, Arnarvogi, þess á leit við hæstv. iðnmrh. að hlutast til um, að aflað yrði heimildar Alþ. til, að ríkissjóður mætti ábyrgjast allt að 5 millj. kr. lán fyrir félagið til að koma á fót framleiðslu á stálskipum til viðhalds og aukningar fiskiflota landsmanna. Félag Þetta var stofnað á s.l. ári með 1200 000 kr. hlutafé, en nú mun hafa verið ákveðið að auka það upp í 21/2 millj. kr.

Í erindi félagsins til iðnmrh. er eftirfarandi m.a. tekið fram:

„Stálvík h/f hefur að markmiði að smíða stálskip fyrir íslenzka fiskiflotann. Fyrsti áfangi framkvæmda miðast við smíði allt að 250 rúmlesta skipa. Afköst fyrstu tvö árin eru áætluð tvö skip á ári, en á þriðja ári er reiknað með aukningu í framleiðslu eins ört og kleift er. Vér höfum keypt land við Arnarvog, framkvæmt nauðsynlegar mælingar á landi, klöpp og útsiglingu. Staðhættir reynast þar ákjósanlegir. Senn er lokið við að grafa fyrir byggingum og sjósetningarbraut, fyrsta áfanga framkvæmdanna, og verið er að steypa burðarramma í fyrsta hús, er reisa skal á staðnum.”

Þá skýrir fyrirtækið frá því, að það hafi æfðum skipatæknifræðingum á að skipa, þegar starfsemin hefjist, en fyrst um sinn muni það fá æfðan verkstjóra erlendis frá, auk þess sem það hafi samráð við reynd erlend fyrirtæki á sviði skipasmíða til öryggis fyrir framkvæmdir og skipulag Þeirra.

Með erindi félagsins fylgir athugun á grundvelli fyrir rekstri stálskipasmíðastöðvar, sem Jón Sveinsson tæknifræðingur hefur samið. Er þetta hið fróðlegasta plagg. Þar segir m.a.:

„Leitað hefur verið álits margra útgerðarmanna á mismunandi stöðum á landinu um, hvort líkur séu fyrir því, að keyptir verði nýir stálbátar til útgerðarinnar á komandi árum. Um það hafa þeir flestir verið samdóma, og hafa margir þeirra til stuðnings því bent á, hve illa þurrafúi hefur farið með trébáta hér að undanförnu. Niðurstöður af þessari rannsókn um framleiðslugrundvöll fyrir stálbátasmíði hér á landi eru þær, að mögulegt sé með góðri skipulagningu fyrirtækisins og sérhæfingu starfsliðs að framleiða hér á landi stálbáta jafngóða og þeir útlendu stálbátar eru, sem inn hafa verið fluttir til þessa.“

Iðnn. hefur með samþykki hæstv. iðnmrh. orðið sammála um að flytja frv. Þetta á þskj. 751, en þar er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast allt að 5 millj. kr. innlent eða erlent lán fyrir Stálvík h/f til að reisa skipasmíðastöð fyrir stálskip í Arnarvogi, Gullbringusýslu, gegn tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. Sams konar fyrirgreiðsla og ábyrgðir hafa oft verið veittar áður til skipasmiðastöðva, en oftast á fjárlögum, Þ.e.a.s. 22. gr. fjárlaganna. Á fjárlögum yfirstandandi árs er t.d. heimild fyrir ríkisstj. að ábyrgjast fyrir Dráttarbraut Akraness allt að 31/2 millj. kr. lán vegna smíði nýrrar dráttarbrautar. Með frv. þessu er því ekki verið að fara inn á nýjar brautir. Þá er í frv. sett það sjálfsagða skilyrði, að ríkisábyrgðarþegi setji þær tryggingar fyrir ábyrgðinni, sem ríkisstj. metur gildar.

Ég mælist svo til þess, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umr., en eins og ég hef getið um, þá er málið flutt af nefnd.