14.04.1962
Neðri deild: 92. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

227. mál, lán til þriggja skipasmíðastöðva

Fram. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Iðnn. hefur orðið sammála um að flytja brtt. á þskj. 770, þess efnis, að jafnframt Stálvík, Arnarvogi, verði tveim öðrum fyrirtækjum, er stunda skipasmíðar, veitt ríkisábyrgð til stækkunar og endurbóta, geti þau sett þær tryggingar fyrir ábyrgðinni, sem ríkisstj. metur gildar.

Stálsmiðjan h/f í Kópavogi fer fram á 4 millj. kr. ríkisábyrgð. Í erindi félagsins kemur eftirfarandi m.a. fram: Stálsmiðjan í Kópavogi er sett á stofn á s.l. hausti með það fyrir augum að hefja hið fyrsta stálskipasmíði. Kópavogskaupstaður lét fyrirtækinu í té landrými fyrir starfsemina á norðurodda Kársness. Undirbúningsframkvæmdir undir byggingu 400 fermetra smíðaskála hófust þegar á s.l. hausti og hefur verið haldið áfram eins og unnt hefur verið síðan. Smíði stálgrindar í skálann verður bráðlega lokið, og verður hafizt handa að reisa umrædda byggingu, og má áætla, að takast muni að ljúka því verki eigi síðar en í lok júnímánaðar n.k. Áætlað er, að í byrjunarhúsnæði verði hægt að smíða 2–3 skip á ári, sem væru allt að 180 brúttó-rúmlestum að stærð.

Þá fer Skipasmíðastöð Njarðvíkur h/f einnig fram á að fá ríkisábyrgð fyrir allt að 1200 þús. kr. láni. Hjá fyrirtækinu stendur fyrir dyrum að breyta dráttarvagni skipasmíðastöðvarinnar, sem nú getur tekið 150 rúmlesta skip, þannig, að hann beri 250 rúmlesta skip. Kostnaður er áætlaður 1200 þús. við sjálfan vagninn.