17.04.1962
Efri deild: 94. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

227. mál, lán til þriggja skipasmíðastöðva

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Eftir tilmælum hæstv. forseta brá iðnn. mjög skjótt við og hélt fund um þetta mál, strax og það hafði verið afgreitt til hennar. En eftir að iðnn. lauk störfum, hefur komið fram beiðni frá einni vélsmiðju, vélsmiðju Olsens í Ytri-Njarðvík, um svipaða fyrirgreiðslu og þessar skipasmíðastöðvar, sem um getur, hafa farið fram á, og ég vildi leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt. og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, að við bætist d-liður: „Vélsmiðja Olsens, Ytri-Njarðvík, allt að 1,5 millj. kr. til að hefja stálskipasmíði, gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar.“ Mér er kunnugt um, að þessi vélsmiðja hefur haft þó nokkurn undirbúning til þess að hefja smíði stálbáta. Eigandi hennar hefur haft samband við fyrirtæki í Noregi og norskan skipaverkfræðing, sem hann gerir ráð fyrir að ráða til sín, þegar hann hefur smíðina, og hygg ég, að hann hafi haft svipaðan undirbúning við þetta og sumir af hinum, sem farið er fram á ábyrgð til á þessu þskj., og eigi svipaðan rétt og þeir. Hitt kann að vera, að undirbúningi hafi ekki verið eins snemma lokið og æskilegt hefði verið, og þetta kemur nokkuð seint fram, ég skal játa það, en svo er reyndar einnig um hinar tillögurnar, þar sem farið er fram á svipaða ábyrgð. Þær hefðu í raun og veru átt að koma við afgreiðslu fjárlaga, en framkvæmdir sem þessar þurfa mikinn undirbúning og nauðsynlegt, að til hans sé vandað, áður en lögð er fram ábyrgð.