17.04.1962
Efri deild: 96. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (2313)

227. mál, lán til þriggja skipasmíðastöðva

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. 10. þm. Reykv. hélt hér fram, að skriflegar áætlanir og teikningar lágu engar fyrir, og þær upplýsingar, sem lágu fyrir um möguleika vélsmiðju Ó. Olsens til að hefja þessar framkvæmdir, voru aðeins munnlegar, fluttar af mér, en eigandi vélsmiðjunnar, Ó. Olsen, var hér á ferðinni og sagði mér þá, hvernig þessi mál stæðu, og frá því skýrði ég iðnn. En hitt er alveg rétt, að skriflegar teikningar og áætlanir liggja ekki fyrir og ekki heldur örugg vitneskja um möguleika hans til að fá það lánsfé eða leggja fram það fé, sem nauðsynlegt kann að vera, til þess að þetta komist í framkvæmd. Að vísu lágu ekki heldur slíkar upplýsingar fyrir iðnn. Ed. um hin málin, en við tókum trúanleg þau skilaboð, sem við fengum frá formanni um, að það hefði verið athugað í hv. Nd., og ég efast ekkert um það. Með tilliti til þessa, að ekki var tími til þess að fá þær upplýsingar í þessu máli, sem n. taldi nauðsynlegar, vil ég leyfa mér að taka tillöguna aftur.