22.03.1962
Neðri deild: 71. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

189. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Hæstv. forseti. Dóms- og kirkjumrn. hefur óskað eftir, að menntmn. deildarinnar flytti frv. þetta, og gerir nefndin það með venjulegum fyrirvara einstakra nefndarmanna um rétt til að flytja eða fylgja brtt. við afgreiðslu málsins.

Efni frv. er mjög einfalt og kemur fram í 1.gr. þess. Þar er lagt til, að kirkjustjórn verði heimilað að ákveða, að fengnum tillögum sóknarnefndar prestakalls og með ráði sóknarprests og héraðsprófasts, að flytja prestssetur á hentugri stað í prestakalli.

Í eldri lögum um skipun prestakalla voru prestssetur ekki lögákveðin, en ákvæði um það voru tekin upp í lög árið 1952. Á síðari árum hafa orðið ýmsar breytingar á búskaparháttum presta, og hafa þær leitt til þess, að oft hafa komið fram óskir um, að aðsetur sóknarpresta innan prestakalls yrði flutt til. Þykir því hentugt að hafa í lögum heimild til að flytja prestssetur, að uppfylltum tilskildum skilyrðum, eins og greint er í frv.