13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2544 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

167. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt þrem hv. þm. að bera fram frv. um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna. Frv. þetta felur í sér viðauka við 7. gr. laga um lögskráningu sjómanna, en sú grein fjallar um, hvaða gögn skipstjóri eigi að afhenda skráningarstjóra, þegar lögskráning fer fram í skiprúm. í gildandi lögum er sú upptalning á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: Það er í fyrsta lagi, að honum er skylt að sýna skipstjóraskírteini sitt, í öðru lagi mælingarbréf skipsins og haffærisskírteini, í þriðja lagi atvinnuskírteini þeirra manna, sem lögskráðir eru og skírteini þurfa að lögum til þess að mega gegna stöðu þeirri á skipinu, sem þeir eru ráðnir til, í fjórða lagi skipshafnarskrá og aukaskrá, ef hún hefur verið gerð, og í fimmta lagi viðskiptabækur og sjáferðabækur þeirra manna, er lögskráðir skulu. Ef frv. þetta nær fram að ganga og verður að lögum, verður skipstjóra jafnframt skylt að sýna við lögskráningu vottorð frá tryggingarfélagi þess efnis, að samningsbundnar líf- og slysatryggingar séu í gildi.

Nú á síðustu árum, sérstaklega tveim síðustu árum, hafa samtök sjómanna og útvegsmanna í æ ríkari mæli tekið upp í kaup- og kjarasamninga sína ákvæði um líf- og slysatryggingar til viðbótar þeim, sem lögboðnar eru. Það hefur hins vegar komið í ljós við hin hryllilegu sjóslys, sem orðið hafa nú að undanförnu á síðustu mánuðum, að til eru þeir forráðamenn útgerðar, sem vanrækt hafa að tryggja þá menn, sem þessarar tryggingar áttu að njóta og hafa haft samninga við útgerðarmannafélögin þar um. Við teljum, að með samþykkt þessa frv. verði aðstandendum þeirra sjómanna, sem samningsbundinna trygginga nytu, tryggt, ef um sjóslys eða skipstapa væri að ræða, að þeir fengju tryggingarféð greitt, hvað sem fjárhagslegri afkomu útgerðarinnar liði og án málarekstrar. Það hefur verið dregið í efa, hver væri skaðabótaréttur aðstandenda, ef slíkur atburður skeði, hvort þá væri um forgangskröfu að ræða til skaðabóta, eins og t.d. um vangoldin vinnulaun, eða ekki, en eins og ég hef tekið fram og tekið er fram í grg., þá teljum við, að með þessari smávægilegu breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna verði þessi agnúi burt felldur, og aðstandendur þyrftu, eins og ég sagði, ekki að standa í málarekstri, sem verið gæti vafasamur, ef um fjárhagslega veikt fyrirtæki væri að ræða.

Þar að auki má geta þess, að þetta gæti verið til hagsbóta fyrir útgerðirnar líka. Það getur staðið þannig á, ef um fleiri en einn eiganda er að ræða, þeir hafa falið einhverjum ákveðnum manni að sjá um útgerðarstjórn skipsins og hann síðan vanrækir að taka þessar tryggingar, að þeir bíði ekki aðeins mikið fjárhagslegt tjón, heldur og þann sársauka, sem þeir menn hljóta fyrir að verða, sem eiga þátt í því að vanrækja slíkt.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að óska þess, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.