13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2337)

167. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Út af þessum hugleiðingum hv. 4. landsk. um annað frv., sem liggur fyrir Alþingi, vil ég leyfa mér að minna hv. þdm. á þá skoðun, sem kom fram við 1. umr. þess máls, en hún var sú, að þegar við höfum stofnun, sem nefnd er og heitir almannatryggingar, þá hljóta þær tryggingar, sem þar fara fram, að gilda fyrir alla landsmenn og alla landsmenn jafnt. Ég fæ ekki skilið, hvernig forseti Alþýðusambandsins getur komið hér upp í ræðustól í Alþingi og haldið því fram t.d., jafnvel þótt það séu mínir félagar, sem eru á sjónum, að þeirra líf sé meira virði frá almannatryggingunum séð en t.d. Dagsbrúnarmannsins eða Hlífarmannsins. Ég hef kannske ekki ýtt á eftir því frv., sem kannske hefði verið mín skylda eftir Þessum skoðunum Hannibals Valdimarssonar, hv. 4. landsk., en það er einfaldlega staðreynd, hvar sem er í hinum frjálsa heimi, að frjálsar tryggingar gefa meiri tryggingar og betri tryggingar en þær, sem löggjafinn gefur. Við þurfum ekki annað en horfa á t.d. tryggingar þær, sem atvinnuflugmenn hafa skapað sér á s.l. árum, þær eru nú 6- eða 7-faldar á við það, sem löggjafinn hefur veitt hinum almenna borgara í landinu.

Svo að við ræðum þá aðeins frekar um það frv., sem hv. 4. landsk. vitnaði í, Þá vil ég minna hann á, að það er ekki enn þá leystur sá vandi með því frv. að tryggja alla þá sjómenn, sem sjó stunda við Ísland, fyrir þessar 200 þús. kr., sem 4. landsk. talaði um. Það hefur enn þá verið miðað við þá, sem lögskráðir eru. Ég er anzi hræddur um, að erfitt gæti orðið að fylgjast með hinum, sem eru á minni skipunum, á trillunum í kringum allt land, á litlu vélbátunum. Þetta eru alveg sömu sjómennirnir. Hvar á að gera skilin? En ég er hins vegar sannfærður um, ef við förum hina leiðina, að hafa frjálsar tryggingar á þessu sviði, þá geti hin einstöku verkalýðsfélög á þessum ákveðnu stöðum betur fylgzt með því en jafnvel hó að þær tryggingar færu fram í gegnum löggjafarvaldið.

En hvað um það, ég fagna því, að hv. 4. landsk. skuli fylgja þessu frv. Það er enginn vafi á því, að sá „tendens”, sem ríkt hefur í hugum sjómanna nú að undanförnu, beinist einmitt að því að ná fram frjálsum tryggingum. Það er ekkert lokatakmark fyrir sjómannafélögin í landinu að binda sig við 200 þús. kr. Ég tel, að það sé ekkert lokamark, ég álít, að það sé byrjunarmark fyrir íslenzka sjómenn að vera tryggðir fyrir 200 þús. kr. aukatryggingu fram yfir það, sem almennar tryggingar veita eða löggjafinn. Og ég fagna því, að þessi hv. þm. skuli styðja þetta frv. Ég er líka sannfærður um, að einmitt nú á þessu ári muni þetta verða enn ríkara en nú þegar er staðreynd. Það verða æ fleiri, sem taka upp þessar frjálsu tryggingar, og eins og ég segi, það er von mín, að það verði ekki þar við látið sitja, heldur verði haldið áfram á þeirri braut að hækka þessar tryggingar til þeirra manna, hvort sem það eru þessir eða aðrir í þjóðfélaginu, sem búa við og vinna hættulegri störf en hinn almenni borgari, að með frjálsum samningum megi takast að ná upp þeirra líf- og slysatryggingum í enn ríkari mæli en tekizt hefur.