13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2548 í B-deild Alþingistíðinda. (2338)

167. mál, lögskráning sjómanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Í þessu máli dugir ekkert snakk eða frómar óskir um það, hvað menn vonist til að verði í framtíðinni. Það gildir hér, að menn sýni það, hvort þeir vilji lögfesta 200 þús. kr. tryggingu fyrir sjómenn eða eru á móti því, og þessi vinnubrögð, að láta undir höfuð leggjast að skila nál. um mál, sem er búið að afgr. út úr n., eru óviðurkvæmileg og óþingleg í alla staði.

Hv. þm., sem hér talaði síðast, sagðist leggja þann skilning í málið, að það hlytu að gilda sams konar ákvæði fyrir alla landsmenn jafnt í almannatryggingalögum. Þetta er mikill misskilningur hans. Árum saman og allt þangað til nú fyrir nokkrum árum gilti það, að það voru tvenns konar ákvæði í almannatryggingalögunum, aðrar og hærri bætur fyrir þá, sem færust í sjó, og lægri almennar bætur fyrir þá, sem færust af slysförum af öðrum ástæðum, og það þótti, þegar tryggingalöggjöfin var sett á þann veg, ástæða til að tryggja sjómennina sérstaklega og meira vegna þeirrar miklu hættu, sem þeirra atvinnuvegi er samfara. Hins vegar er hægt að hafa tvenns konar viðhorf gagnvart þessu. En meginhluta þess tíma, sem almannatryggingalög hafa verið hér á landi, hafa dánarbætur sjómanna verið hærri en annarra manna, hvort sem hv. þm., sem seinast talaði, finnst það óviðkunnanlegt eða ekki.

En það stóð ekki á því, ég spurði meiri hl. hv. n. að því, hvort hann væri reiðubúinn til að fallast á, að 200 þús. kr. bæturnar yrðu lögfestar fyrir alla, og þeir kváðu nei við því. Þeir voru ekki tilbúnir til þess, en á mér stóð ekki um það að rýmka frv. þannig.

Hvar á að gera skilin á milli þeirra sjómanna, sem eru lögskráðir á skip, og hinna, sem eru á trillubátunum? spurði hv. þm. Þetta frv. segir skýrt og skorinort um, að það á að tryggja samkv. því alla sjómenn og ekki draga nein mörk þar á milli. Það þarf alveg eins að tryggja þá, sem farast á trillubát, eins og á 100 tonna skipi, og þar vil ég engin mörk draga á milli.

Ég endurtek það, að ég tel þetta frv. vera til bóta að því leyti, að það gerir samningsbundna réttinn, sem nokkrir sjómenn hafa öðlazt, tryggari en áður, því að stundum hefur hann ekki dugað til og menn fallið óbættir, þrátt fyrir það að þessar aukatryggingar hafi verið umsamdar. En ég tel ekkert annað fullnægjandi í þessu máli en að dánarbætur fyrir sjómenn, alla sjómenn, verði ákveðnar með löggjöf landsins, og læt enn í ljós furðu mína á því, að það sjálfsagða mál með sterkum meðmælum Vinnuveitendasambands sem Alþýðusambands skuli þvælast fyrir þinginu í tvö þing án þess að fá afgreiðslu og sæta þar að auki fjandsamlegri og óþinglegri meðferð.