13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2551 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

167. mál, lögskráning sjómanna

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ekki er nú að spyrja að, þegar þessi hv. þm., sem var hér að ljúka máli sínu, er kominn í þann ham, sem síðustu orð hans bera vott um. En út af þessum orðum og hverjum væri maklegast að þegja hér í deildinni, þá vildi ég gjarnan, að hv. þdm. fengju að vita, hvar þær tryggingar eru komnar, sem eru frjálsar, 200 þús. kr. líftryggingar á meðal sjómanna. Það er einmitt í bréfi til heilbr.- og félmn., sem hér hefur verið mikið vitnað til, frá Sjómannasambandi Íslands, þær eru í Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavík, Akranesi og á Vestfjörðum, eða þar sem Sjómannasamband Íslands og Alþýðusamband Vestfjarða hafa samið fyrir sína félaga. Það er jafnframt yfir allt land hjá meðlimum Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og það er fyrir alla farmenn hér á landi, undirmenn á farskipum, sem Sjómannafélag Reykjavikur semur fyrir. Sem sagt, þar sem þetta vantar, Það er hjá þeim sjómönnum, sem hv. 4. landsk. og Alþýðusamband Íslands semja fyrir.

Ég vil líka geta þess út af þeim orðum, sem hann lét hér falla, þegar hann vitnaði til þess sem hins bezta, sem hægt er að hugsa sér í sambandi við líf- og slysatryggingar sjómanna, sem hér gilti áður en breytingin fór fram á tryggingalögunum 1960, að þá voru sjómenn tryggðir fyrir 87 100 kr. eða þar um bil, en aðrir landsmenn fyrir 19 100 kr., og í nál. frá nefnd, sem í áttu m.a. sæti Björgvin Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands, og Eðvarð Sigurðsson, núv. formaður Dagsbrúnar, er sagt orðrétt, með leyfi forseta: „Ekki verður komið auga á skynsamlegar ástæður fyrir því, að t.d. kona, sem missir mann sinn af slysförum við vegavinnu, fái aðeins 19 þús. kr. rúmar í dánarbætur, á sama tíma og kona, sem missir mann sinn, sem er sjómaður, fái 87 þús. kr.“ í þessu held ég að liggi meginmálið gagnvart þeim breytingum á almannatryggingalögunum, sem hv. 4. landsk. þm. hefur verið að tala um. Og þar fyrir utan voru þannig ákvæði í tryggingalögunum, eins og þau voru þá, að Það væru aðeins sjómenn, sem lögskráðir væru á skip, sem fengju þessa tryggingu. Lögskráð er ekki á önnur skip en þau, sem eru 12 rúmlestir og stærri. Þannig kom það fyrir norðanlands eitt sinn, þegar sjómenn fórust af 14 tonna vélbát, að ekkjur Þeirra fengu 87 þús. kr. Stuttu síðar fórst á öðrum stað hér við landið trillubátur, sem var undir 12 rúmlestum, 6 eða 7 tonn, en ekkjur þeirra sjómanna, sem þar misstu líf sitt, fengu aðeins rúmar 19 þús. kr.