04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2557 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

167. mál, lögskráning sjómanna

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Við umr. um frv. okkar hv. 4. landsk. þm. fyrir skömmu um lögfestingu 200 þús. kr. sérstakrar líftryggingar fyrir alla sjómenn var ýtarlega rakið, hvernig líf- og slysatryggingamálum sjómanna er komið. En það frv., sem hér er til umr., kemur inn á það sama svið. Frv. okkar um, að sjómönnum verði öllum tryggðar sómasamlegar dánar- og slysabætur, hafa núv. stjórnarflokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., fellt og þar með staðfest þann vilja sinn, að um ófyrirsjáanlegan tíma skuli ríkja núverandi ófremdarástand í þessum réttindamálum sjómannanna, enn skuli um óákveðið skeið ríkja það ástand, að aðstandendur sumra sjómanna, sem farast, fái aðeins 90 þús. kr. í dánarbætur, á sama tíma og aðrir aðstandendur fá þó allt að 290 þús. kr. í bætur, ef stéttarfélagi viðkomandi sjómanns hefur tekizt að knýja þær tryggingar fram með kjarasamningum.

Því frv., sem hér liggur fyrir, er ætlað að stuðla að því, að þær sérstöku tryggingar einstakra sjómanna verði ekki af þeim sviknar með þeim hætti, að útgerðarmenn láti undir höfuð leggjast að kaupa þá tryggingu, sem þeir hafa samið um við sjómenn. Er það vissulega þakkarvert, að þeir, sem hafa lagzt gegn því, að allir sjómenn verði nú þegar tryggðir mannsæmandi bótum, skuli þó fyrir sitt leyti vilja stuðla að því, að þeir sjómenn, sem hafa náð því marki með öðrum leiðum, verði ekki sviptir þeim umsömdu réttindum sínum, hvað sem þeim sjómönnum líður, sem enn eiga að láta sér nægja 90 þús. kr. trygginguna úr almannatryggingunum.

Ef frv. okkar hv. 4. landsk. þm. um lögfestingu dánar- og slysabóta sjómanna hefði verið samþykkt, þyrfti ekki samþykktar þessa frv. við. En eftir að ríkisstjórnarflokkarnir hafa fellt að bæta alla sjómenn mannsæmandi bótum, er Það vissulega tímabært að tryggja svo sem unnt er, að þeir sjómenn, sem þó njóta þeirra, verði ekki sviptir þeim vegna trassaskapar útgerðarmanna, eins og mun hafa átt sér stað. Þó er sá galli á, að svo langt getur trassaskapurinn gengið, að jafnvel samþykkt þessa frv. tryggi það ekki með öllu, að þeir sjómenn, sem hafa fengið fram 200 þús. kr. bætur í kjarasamningum, verði ekki sviptir þeim í reynd. Með frv. þessu er gert ráð fyrir, að ekki megi lögskrá á skip, nema sýnd séu skilríki fyrir því, að útgerðarmaðurinn hafi keypt þær líftryggingar, sem um er samið í kjarasamningum viðkomandi sjómanna. Þrátt fyrir það, að samþykkt þessa frv. geti í mörgum og vonandi flestum tilfellum tryggt, að kjarasamningar séu haldnir í þessu efni, þá eru þess jafnvel dæmi, að trassaskapurinn sé á svo háu stigi, að ekki farist aðeins fyrir að kaupa trygginguna, heldur einnig að lögskrá á skipin, og kemur þá samþykkt þessa frv. fyrir ekki. Slíkt framferði er þó meira en trassaskapur, heldur algert lagabrot, en ekki bætir það í neinu úr skák fyrir þá aðstandendur, sem gjalda þess. Mér er ekki kunnugt um, hversu strangt eftirlit yfirvöldin hafa með því, að lögskráð sé á öll skip, sem gerð eru út og ber að lögskrá á samkv. lögum. En ég hef ástæðu til að ætla, að um nokkurn misbrest hafi verið að ræða í þessu efni, og væri full ástæða í sambandi við afgreiðslu þessa frv. að gera kröfu til þess, að eftirlit í þessu efni verði hert frá því, sem nú er, svo að það komi alls ekki fyrir, að ekki sé lögskráð á öll þau skip, sem skylt er að skrá á, svo að þau ákvæði, sem felast í þessu frv., komi þó að því gagni, sem þeim er ætlað.

Þótt ég muni að sjálfsögðu styðja það frv., sem hér liggur fyrir, þá hefði ég vissulega miklu fremur kosið, að því réttindamáli sjómanna, sem afgreitt var í þessari hv. deild fyrir skömmu, hefðu ríkisstjórnarflokkarnir tekið á þann veg, að þetta frv. væri óþarft. En því er ekki að heilsa, og mun samþykkt þess verða látin nægja.

Þeirri till. var hreyft við 1. umr. þessa máls, að bætt yrði inn í frv. ákvæði þess efnis, að því aðeins verði heimilt að lögskrá á skip, að allir skipverjar hafi verið líftryggðir fyrir a.m.k. 200 þús. kr., hvað sem liði samningum á milli stéttarfélaga, útgerðarmanna og sjómanna um það efni, þ.e.a.s. að útgerðarmaóur, sem hefði ekki enn samið um slíka tryggingu, yrði með væntanlegum lögum skyldaður til þess að kaupa 200 þús. kr. líftryggingu fyrir sjómenn sína. Hv. Alþingi hefur fyrir skömmu fellt frv., sem hefði tryggt öllum sjómönnum þessar hámarksbætur. Vilji meiri hl. þm. í þessu efni liggur því þegar ótvírætt fyrir, eftir að málið hafði verið borið upp á eðlilegum vettvangi. Hins vegar má segja, að hæpnara væri að ná þessum réttindum sjómanna fram á þann hátt að koma ákvæði, sem dygði, inn í frv. til laga um lögskráningu sjómanna. Það yrði án efa talið, að farið væri aftan að hlutunum, enda tómt mál um að tala að ná þessu máli fram á einn eða annan hátt nú, þar sem fyrir liggur viljaleysi meiri hl. þingsins um, að nú þegar verði bætt úr líftryggingamálum sjómanna. Íslenzkir sjómenn verða því enn að sætta sig við það, að samþykkt þessa frv. sé sá skammtur, sem ríkisstjórnarflokkarnir ætla þeim um sinn a.m.k., jafnvei þótt einhverjir þeirra kynnu að hafa gert sér vonir um, að unnt væri að ná fram rétti þeirra með þeim aðferðum að lögbjóða 200 þús. kr. líf- og slysatryggingu með ákvæði í lögum um lögskráningu. Afgreiðsla Alþingis á málum sjómanna leiðir það af sér, að sjómönnum verður æ ljósara, að réttindi Þeirra, jafnt að því er varðar sómasamlega líftryggingu sem önnur mál, verða ekki á annan hátt tryggð en þann, að þeir leggi sig sjálfir fram um að tryggja það í næstu þingkosningum, að leystur verði af hólmi sá þingmeirihluti, sem að undanförnu hefur þjarmað að lífskjörum þeirra og lagzt gegn réttindamálum þeirra, nú síðast með því að vísa frá frv. um, að allir sjómenn skuli tryggðir mannsæmandi bótum.