04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

167. mál, lögskráning sjómanna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil út af ummælum hv. 7. landsk. þm. segja hér nokkur orð um þetta mál.

Það er fullkomlega rangt farið með, þar sem hann heldur því fram, að meiri hl. Alþingis hafi ekki viljað sinna því máli, sem flutt var í frv. af honum á þskj. 25. Þetta mál var rætt mjög ýtarlega í heilbr.- og félmn. og afgreitt þar, áður en ég fór til útlanda, þótt hins vegar nál. væri ekki gefið út fyrr en síðar, og meginástæðan fyrir því, að málinu var vísað frá með rökstuddri dagskrá, var sú, að hér var verið að skapa misræmi á milli Þeirra aðila, sem vinna á sjó og farast af sjóslysum, og hinna, sem farast í landi. Og það er það, sem meiri hl. Alþingis vildi ekki viðurkenna. En það vildu m.a. hv. flm. báðir láta nú lögfesta. (Gripið fram í) Þeir vildu láta lögfesta það, að kona, sem missir manninn sinn í sjóslysi frá börnum, fái miklu meiri bætur en kona, sem missir mann sinn af slysum í landi. Þó að fjárhagsástæður hennar væru miklu erfiðari.

Á það er bent m.a., að það hefði áður verið þannig í tryggingalöggjöfinni, að bætur fyrir sjóslys voru miklu hærri, en 1959 er skipuð nefnd til þess að athuga og endurskoða tryggingalöggjöfina, og í henni áttu m.a. sæti Eðvarð Sigurðsson, núv. formaður Dagsbrúnar, sem nú á sæti hér á Alþingi, og undirritar hann sjálfur þá og samþykkir, að þetta misræmi skuli lagað þannig, að greiða skuli sömu dánarbætur fyrir menn, hvort sem þeir farast á sjó eða landi. Og það er þetta, sem meiri hl. nefndarinnar hélt sig við, að vilja ekki raska þessu hlutfalli aftur, en alls ekki hitt, að þeir væru ekki því fylgjandi, að bæturnar sjálfar væru hækkaðar. En það hafði þá það í för með sér, að hækka yrði allar dánarbætur í landinu. Og afgreiðsla málsins hér er byggð á því, að það sé tekið til ýtarlegrar athugunar hjá þeirri nefnd, sem nú er að endurskoða tryggingalöggjöfina, eins og segir í hinni rökstuddu dagskrá: „Í trausti þess, að örorkubætur vegna slysa- og dánarbóta, sem almannatryggingarnar greiða, verði hækkaðar í framhaldi af þeirri endurskoðun, sem nú fer fram á almannatryggingalögunum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er algerlega ósæmandi af hv. flm. að flytja mál sitt þannig hér, að meiri hl. Alþingis hafi verið að niðast á sjómönnum í þessu máli, auk þess sem það var upplýst í nefndinni, að þetta væri komið inn í samninga hjá flestum útgerðarmönnum. (Gripið fram í: Alls ekki.) Það var víst upplýst í nefndinni, að þetta væri komið í flestalla samninga hjá útgerðarmönnum. (HV: Það eru ósannindi.) Hv. 4. landsk. lýsti því yfir í nefndinni, að hann mundi ekki aftur skipa sér í flokk þeirra hringlanda, sem vilja í dag gera mismun á þessum bótum og næst jafna þær aftur, og ef kæmi tillaga um það að hækka dánarbætur fyrir þá, sem í landi færust, þá skyldi hann greiða atkv. á móti því. Þessu lýsti hann yfir í nefndinni. (Gripið fram í: Þetta er ósatt.) Það eru allir nm. til vitnis um það. Nú vill hann ekki standa við þetta, því að hann sér, hversu mikið ranglæti þetta væri, að ætla aðrar dánarbætur fyrir menn, sem farast á sjó, heldur en hina, sem farast í landi. Okkur er það líka alveg ljóst, að útgerðarmenn hafa víðast hvar tryggt sérstaklega sína menn, hvort heldur er á sjó eða landi, fram yfir það, sem ákveðið er í tryggingalöggjöfinni. Það er algerlega ósæmandi bæði fyrir hv. 7. landsk. og hv. 4. landsk. að vera að koma nú hér og núa okkur því um nasir, að við styðjum ríkisstj., sem vilji ekki, að sjómenn séu tryggðir mannsæmandi bótum. (HV: Má ekki segja sannleikann um þetta?)

Þetta þótti mér rétt að láta koma fram hér út af þeim ummælum, sem hv. þm. lét falla f sambandi við þetta mál.