04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2569 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

167. mál, lögskráning sjómanna

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Það er alveg sama, hve oft hv. 1. þm. Vestf. kemur hér í ræðustólinn til þess að afsaka það, að málið á þskj. 25 um 200 þús. kr. dánarbætur til allra íslenzkra sjómanna var fellt, þá kemur það fyrir ekki. Það var boðið upp á það í n. að gera hverjar þær breyt. á frv., sem meiri hl. setti að skilyrði fyrir því, að hann gæti fylgt meginefni frv., en það fékkst ekki. Það var meginefni frv., sem meiningarmunurinn var um, og um annað ekki. Það var eingöngu um 200 þús. kr. dánarbæturnar. Nú bætir hv. þm. því við, að ástæðan til þess, að ekki hafi fengizt samkomulag um málið, hafi verið það, að það hafi þurft meiri undirbúning til að lögfesta þá 200 þús. kr. tryggingu, sem samizt hafði um sums staðar, að hún gengi jafnt yfir og allir sjómenn yrðu hennar aðnjótandi.

Gafst nú enginn tími til undirbúnings góðviljuðum mönnum, sem höfðu áhuga á þessu og voru í valdaaðstöðu? Málið var borið fram í upphafi þings í fyrrahaust. (Gripið fram í: Í fyrravor.) Í fyrravor, já. Það lá og meltist allan þingtímann þá í n. hjá hv. 1. þm. Vestf. og fékk ekki afgreiðslu. Svo komu sjóslysin í haust. Annað stjórnarblaðið segir, að það verði að ætlast til þess af Alþingi,þegar það komi saman eftir örskamman tíma, að þetta misrétti, sem sjómannastéttin búi við, og þessar óviðunandi tryggingar verði lagaðar á næsta þingi. í forustugrein í Alþýðublaðinu er hamrað á þessu í einum tveimur, þremur leiðurum. Og þegar þingið kemur saman, er frv. borið fram, fer til 1. umr., í nefnd, sem hv. 1. þm. Vestf. átti sæti í og hafði forustu fyrir. Hvert sjóslysið kemur fyrir á fætur öðru. Jú, hið góða hjarta Íslendinga segir til sín. Það er sett í gang söfnun, þegar kemur í ljós við hvert slysið á eftir öðru, að menn eru ekki tryggðir og þeir falla aðeins með þær bætur, sem almannatryggingarnar veita. Og þegar bingóið var orðið tízka, þá er auglýst í blöðunum: Freistið hamingjunnar, miklir vinningar í boði — bingó — bingó — ágóðinn fer til þess að hjálpa afkomendum þeirra sjómanna, sem nú hafa farið í sjóinn. — Og á meðan sat Alþingi á þessu máli, sem átti að tryggja öllum sjómönnum þennan bótarétt, og drap málið rétt á eftir.

Þetta er sorgarsaga, og það er enginn mælskumaður sá til hér á Alþingi, að hann geti þvegið af sér þann blett að hafa tekið þátt í að drepa þetta mái, eins og sakirnar stóðu. Hins vegar er það góðra gjalda vert að vilja þó reyna til að tryggja samningsrétt þeirra sjómanna, sem hann hafa. En meira að segja það hefur ekki tekizt með þessu frv., sem hér er til umr. Og ég játa það, að ef það kæmi viðbót, lík að efni og hv. 1. þm. Vestf. gat hér um áðan, þá væri það nokkur bót. Það mundi sjálfsagt færa réttinn yfir á nokkra sjómenn í viðbót, ef það bættist við greinina. En það heyrist ekki stuna eða hósti frá þeirri n., sem hefur haft þessi mál til meðferðar, um það, hvort hún taki þessa ábendingu hv. 1. þm. Vestf. til greina. Það þyrfti að koma við hana þá, skilst mér, samkvæmt hans hugmynd viðbót eitthvað á þessa leið: Nú vanrækir útgerðarmaður að hafa slíka tryggingu í lagi, og skal hann þá vera ábyrgur fyrir tryggingabótum, og skulu bæturnar hafa forgangsrétt í eignum útgerðarinnar. — Er það ekki eitthvað á þessa leið, sem sú viðbót þyrfti að vera? Og ég spyr, eins og hv. 1. þm. Vestf. spurði áðan: Fæst ekki n. til þess að taka málið til athugunar aftur og ganga úr skugga um a.m.k., hvort hún vill gera þessa bragarbót á þessu annars allt of ófullkomna frv., sem hvorki nær til að tryggja sjómenn á bátum, sem eru smærri en 12 tonn, né þá, sem ekki verða skráðir fyrir vanrækslu sakir, né neinn af sjómönnunum á síldveiðiflotanum, sem mundu hafa þessa aukatryggingu, og það nær ekki nema til lítils hluta af íslenzkri sjómannastétt? Vill ekki n. reyna að gera þessa litlu bragarbót með því að setja viðbót við gr. eitthvað á þá leið, sem hv. 1. þm. Vestf. hefur bent á efnislega og ég held ég hafi nokkurn veginn mótað eins og sú setning þyrfti þá að vera til að ná til þeirra manna, sem þar með gætu hlotið nokkuð aukið öryggi.