10.04.1962
Neðri deild: 88. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2571 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

167. mál, lögskráning sjómanna

Hannibal Valdimarsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði fyrr við umr. þessa máls bent á það, að frv. í þessu formi um aðgerðir til að tryggja rétt sjómanna í sambandi við lögskráningu mundi í mjög mörgum tilfeltum ekki ná tilgangi sínum og væri þó gerandi tilraun til þess að fá inn í löggjöfina þá hugmynd, sem hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) hreyfði hér, og mótaði ég hana þá í tillöguform og hygg, að hún hafi verið nokkurn veginn eins og hv. 1. þm. Vestf. hafði hugsað sér breytingu á frv. í öryggisskyni, en hún var á þá lund, sem hv. frsm. n. las hér nú sem till. frá n., að því viðbættu, að enn fremur yrði sjómönnum tryggt lögveð í eignum útgerðarinnar, en það hefur ekki fengizt tekið með. Till., eins og ég hafði hugsað mér hana út frá hugmynd hv. 1. þm. Vestf., var svo hljóðandi:

Nú vanrækir útgerðarmaður að hafa líf- og slysatryggingu í lagi gagnvart skipverjum, og er útgerðin þá ábyrg fyrir öllum bótagreiðslum, og hafa þær lögveð í eignum útgerðarinnar.

Ég held, að með þeirri viðbót, sem nú er gerð og sett í tillöguform af hendi n., verði ekkert meira tryggt en það, sem samningar tryggja út af fyrir sig. Samningsákvæðin mundu vera grundvöllur fyrir kröfugerð á hendur útgerðinni, en hvort eignir hennar hrykkju svo til fyrir dánarbótum eða örorkubótum sjómannsins, það er allt í óvissu, nema viðbótin hefði fengizt, að þessar kröfur, bæturnar, ættu lögveð í eignum útgerðarinnar, en það hefur hv. n. því miður ekki treyst sér til að taka með. Það hefði bætt nokkuð úr.

Annars held ég, að það sé orðið ljóst, að frv., sem byggir á lögskráningunni sem forsendu, nær ákaflega skammt, þó að allt sé í lagi. Hún nær ekki til neinna sjómanna, sem eru á skipum undir 12 tonn. Hún nær, eins og samningar standa nú, ekki til neinna þeirra manna, sem stunda síldveiðar. Hún nær eingöngu til þeirra sjómanna sem eiga samningsákvæði tryggð um þessi atriði, og þó því aðeins, að þar sé þá ekki ólag á, eins og dæmin sýna okkur núna að undanförnu, að iðulega kemur fyrir. Það, sem hefði því verið hægt úr að bæta þarna að nokkru ráði á frv. í þessu formi, hefði verið það að tryggja sjómönnunum lögveðsrétt, en það hefur ekki fengizt.

Ég held, að það sé tilgangslítið að fara að reyna núna að betrumbæta þetta frv. með því að bera fram till. um það. Ég held, að það sé ekki púkkandi mikið upp á frv. í þessu formi, það muni lítinn rétt tryggja, og mun ég því láta við svo búið standa og að málið fari þá heldur sína Ieið nú í gegnum þingið í þessu formi og sjá, hvað það dugir.