15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Frsm. minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Hæstv. forseti. Frv. til laga um dómsmálastörf, lögreglustjórn, gjaldheimtu o.fl. í Reykjavík var tekið fyrir á fundi allshn. hinn 13. des. s.l. Eftir að frv. hafði verið lítillega rætt, kom í ljós, að nm. voru ekki á eitt sáttir um afgreiðslu málsins. Fyrir fundinum lá bréf frá Lögmannafélagi Íslands, dags. 6. des. s.l., ásamt viðaukatillögu frá sama aðila við 11. gr. frv. Þessari viðbótartillögu fylgdi allýtarleg grg, um málið. Á þessum eina fundi, sem haldinn var í nefndinni um frv., gerði ég fsp. um það, hvort eða hvaða upplýsingar lægju fyrir um það, hvað hin fyrirhugaða breyting á gildandi lögum um dómsmálastörf, lögreglustjórn og gjaldheimtu í Reykjavík o.fl. mundi kosta ríkissjóð fram yfir það, sem nú er. Við þessu fengust engin viðhlítandi svör. Mér skildist þó, að nm. væru nokkurn veginn sammála um, að fyrirhuguð breyting kynni að hafa einhvern aukakostnað í för með sér, án þess þó að neinar upplýsingar lægju fyrir þar um. Ég spurðist þá enn fremur fyrir um það. hvort nefndarmenn gætu ekki gengið inn á viðbótartillögu þá, sem allshn. hafði verið send frá Lögmannafélagi Íslands, við 11. gr. frv., og ég hef hér áður minnzt á. Um það náðist ekki heldur samkomulag. Sem sagt meiri hl. allshn. gat ekki og vildi ekki fallast á þau rök, sem lágu til grundvallar sjónarmiði Lögmannafélagsins í málinu. Ég mun ekki hér nema að litlu leyti ræða um þessa afstöðu meiri hl. allshn. Sjálfsagt liggja til þess fleiri en ein ástæða. Hitt dylst mér þó ekki, að hagsmunir embættismannanna réðu þar allmiklu. Það var því sýnt, að ég gat ekki orðið sammála meðnefndarmönnum mínum um afgreiðslu málsins og hef því skilað séráliti, sem er á þskj. 216.

Við afgreiðslu flestra stærri mála, sem vísað er til nefnda Alþingis, er það nokkurn veginn viðtekin regla, að frv. eru send til umsagnar aðila, sem viðkomandi mál heyra undir eða snerta hagsmuni þeirra að meira eða minna leyti. En það merkilega hafði þó skeð, að allshn. Ed. — en frv, var flutt í Ed. — leitaði ekki eftir umsögn eða áliti samtaka lögmanna eða lögfræðinga um frv., og sama vanrækslan í meðferð málsins hafði endurtekið sig hjá allshn. Nd. Ég tel slík vinnubrögð alveg fráleit. Jafnvel þótt um hefði verið að ræða mál, sem ekki hefðu verið um neinar deildar meiningar, þá var málið í eðli sínu það mikilvægt og stórt, að það var sjálfsagt að leita umsagnar þar til tekinna manna og félagasamtaka. Nú hefur það t.d. sýnt sig, að um málið er alls ekki nein samstaða á milli þeirra aðila, sem þessi mál heyra undir að meira eða minna leyti. T.d. Lögmannafélag Íslands hefur mikið við frv. að athuga og hefur lagt til, að inn í frv. verði sett ákvæði, sem banni þeim embættismönnum, er um ræðir í 2.–6. gr., svo og fulltrúum þeirra, samkv. 10. gr., að hafa á hendi lögmannsstörf, svo og hvers konar önnur störf, er valda kunni vanhæfni þeirra. Það ber ekkert lítið þarna á milli í grg., sem fylgdi frá Lögmannafélagi Íslands og ég hef leyft mér að láta prenta sem fskj. með nál. mínu, er bent á m.a., að starfsmenn ríkisins, þeir sem í lögum þessum greinir, hafi sinnt ýmsum launuðum aukastörfum, sem trauðla geti samrýmzt stöðu þeirra, bent er á nokkur mál, svo sem matsnefndir, gerðardómsstörf, skiptaforstjórn úr dánarbúum og félagsbúum, málflutning og fasteignasölu, og tekið lögmannsþóknun fyrir. Bent er á, að erlendis þekkist það hvergi, að dómurum og fulltrúum þeirra sé leyft að gegna almennum lögmannsstörfum, það sé alls staðar talið siðferðilega rangt. Þá er og á það bent, að helzti gallinn á réttarfari á Íslandi sé sá, að afgreiðsla mála dragist úr hófi fram, sé um kennt mannfæð við þessi störf. Síðar segir orðrétt í grg. Lögmannafélagsins, með leyfi hæstv. forseta: „Vegna þessa hafa ýmsir þessara manna fengið launauppbætur úr ríkissjóði, en slíkt hefur verið talið stafa af því, að þeir gætu ekki annað embættisstörfum sínum á venjulegum starfstíma, heldur þyrftu að vinna þau í eftirvinnu. En ekki er von, að vel fari, þegar embættismenn þessir og fulltrúar þeirra eru önnum kafnir við ýmis störf, er eigi koma embættunum við.“ Hér virðist mér vera kveðinn upp allharður dómur yfir þessum embættismönnum, og fannst mér rétt, að þetta álit frá Lögmannafélagi Íslands kæmi fyrir almenningssjónir.

Ég get ekki betur séð en fulla nauðsyn beri til þess, að þessi mál verði rannsökuð, svo að það rétta komi í ljós. Séu þessi ummæli Lögmannafélagsins á rökum reist, sem enginn dómur skal hér á lagður, liggur alveg ljóst fyrir, að hér hafa átt sér stað alvarlegar misfellur í embættisrekstri, svo að ekki sé meira sagt, sem fyllsta ástæða er og beinlínis skylda hins opinbera að kippa í lag. Séu aftur á móti þessi ummæli ekki á rökum reist, ber að hreinsa þessa embættismenn af áðurnefndum áburði. Síðar í grg. segir m.a.: „Eftir er þó ótalið það, sem alvarlegast er. Þegar þessir menn hafa fjallað um málefni sem gerðardómsmenn, matsmenn eða gegnt ýmiss konar lögmannsstörfum í sambandi við þau, veldur það vitaskuld vanhæfi þeirra til að leggja dóm á þau. Verða þeir þá að víkja sæti, en dómsmrn. skipar setudómara til þess að fara með og dæma slík mál. Setu dómarastörf eru unnin á kostnað ríkissjóðs. Eykst jafnt og þétt sú fúlga, er ríkissjóður greiðir fyrir slík störf, er veli mætti komast af án, ef embættismenn þessir og fulltrúar þeirra væru ekki að fást við störf, er eigi samrýmast embætti þeirra.“

Í sambandi við það, sem hér segir og hefur verið sagt, get ég ekki betur séð en það sé bein skylda Alþingis að búa þannig um hnútana, að það sé útilokað, að slíkt ástand og hér hefur verið lýst geti haldið áfram að þróast. Löggjafanum ber alveg ótvírætt skylda til að ganga þannig frá málunum, að útilokuð sé, eftir því sem frekast er hægt, hvers konar spilling og misfellur í embættisrekstri. Ég fæ ekki betur séð en ef þetta frv., eins og meiri hl. allshn. leggur til, nær að verða að lögum, þá sé enn á ný verið að lögfesta sama ófremdarástandið og verið hefur, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Ég vil alveg sérstaklega taka undir það, sem segir í áðurnefndri grg., að ef framangreind till. verður samþykkt, mætti ætla, að tvennt vinnist, að ríkissjóði sparist verulegur kostnaður, og ekki síður hitt, að ríkisstarfsmenn þessir auki virðingu sína og verði sjálfstæðari í starfi, og tel ég það út af fyrir sig eitt aðalatriði málsins. Séu aftur á móti laun þessara opinberu starfsmanna svo lág, að þeir af þeim ástæðum telji sig þurfa að hafa með höndum önnur störf, sem þeir taka laun fyrir, ber vitanlega að kippa því í lag. Að sjálfsögðu ber ríkinu að greiða starfsmönnum sínum frambærileg laun, og ber þá í því sambandi að taka tillit til menntunar þeirra og þjóðfélagslegrar þýðingar þess starfs, sem þeir hafa verið settir í að gegna. Hitt ber að forðast, að þessir opinberu starfsmenn, svo og aðrir þeir, sem líkt stendur á um, telji sig til neydda vegna lélegra launa að taka að sér svo mikið af aukastörfum, að þeir af þeim ástæðum telji sig ekki geta gegnt störfum sínum á forsvaranlegan hátt. En það er einmitt það, sem fram kemur í grg. Lögmannafélagsins, að þar er beinlínis sagt, að þessir embættismenn hafi svo mörg önnur aukastörf, að þeir beinlínis trassi að gegna skyldustörfum sínum.

Þrátt fyrir það, þó að ég telji enga sérstaka brýna nauðsyn bera til þess, að frv. þetta nái fram að ganga, mun ég ekki greiða því mótatkv., svo framarlega sem viðbótartill. við 11. gr. verður samþ., og þá um leið í trausti þess, að frv., ef að lögum verður, auki ekki útgjöld ríkissjóðs verulega frá því, sem nú er.