12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2584 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Einu sinni var kveðið: Það getur komið annar verri, en ómögulega tveir. Ég held, að þetta eigi ekki við um ræðu hv. þm. Eysteins Jónssonar, sem nú var að ljúka máli sínu. Ég hygg, að hér eigi fremur við orð Njálu: „að þá væri eigi hins verra eftir ván, er slíkur fór fyrir.“ Ég held áreiðanlega, að jafnvel hv. þm. Lúðvík Jósefsson geti ekki leikið staðreyndirnar verr en Eysteini Jónssyni tókst að gera. Er þó margt líkt orðið með þeim, enda ganga þeir hér í sölum Alþingis undir heitinu „samvöxnu austfirzku tvíburarnir“. Þykir þó Eysteinn nokkru æstari og fullt eins skeleggur í að espa launþega til kröfugerðar, eins og menn heyrðu áðan. Og það er sagt, að þetta stafi af því, að Lúðvík er gamalreyndur verkalýðsleiðtogi og kommúnisti, en Eysteinn er alveg nýr af nálinni og þarf þess vegna að sýna, til hvers hann dugir, og það heyrðu menn hér áðan. Hv. þm. Eysteinn Jónsson opnaði hlustendum innsýn í reiða sál. Ég hygg, að þessi sársauki stafi mest af því, að hv. þm. hefur orðið þess var, að það, sem hann þráir mest, völdin, er ekki í augsýn. Þjóðin metur meir stórvirkar aðgerðir ríkisstj. á öllum sviðum þjóðlífsins heldur en neikvætt nöldur þessa hv. þm. og annarra stjórnarandstæðinga. Læt ég mér það vel líka og vildi semja við hann í bróðerni um, að hann segi allt, sem hann vill, satt og logið, en ég ráði þá fremur því, sem gert er.

Ég tel engum til gagns, að ég fari að karpa við hv. þm., enda mun fremur til þess ætlazt af mér, að ég leitist við á þeim stutta tíma, sem ég hef hér til umráða, að útskýra stærstu drættina í stefnu og aðgerðum ríkisstj. og þá ekki sízt, hvers vegna gengisfellingin á s.l. sumri var óumflýjanleg eftir hinar miklu kauphækkanir, sem þá fóru fram.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, hafði stjórn Emils Jónssonar, sem við tók eftir uppgjöf vinstri stjórnarinnar í árslok 1958, með bráðabirgðaráðstöfun tekizt að forða frá öngþveiti í bili. Sjálfur kjarni vandamálanna beið hins vegar núv. ríkisstj., sem tók við síðla árs 1959. Rannsókn leiddi í ljós, að arfleifð vinstri stjórnarinnar var miklu uggvænlegri en menn höfðu gert sér grein fyrir. Er sú saga svo margrakin, að ég læt nægja að minna á, að efnahagskerfið var allt úr skorðum gengið, fjármála- og atvinnulífið lamað eftir langvarandi verðbólgu og uppbótakerfi, höft og bönn. Stöðugur halli á viðskiptum við útlönd hafði tæmt alla gjaldeyrissjóði og gjöreyðilagt lánstraust þjóðarinnar. Í fæstum orðum sagt blasti ekkert við nema öngþveiti og upplausn inn á við og greiðsluþrot út á við, en yfir vofði öllum sýnileg geigvænleg óðaverðbólga, sbr. og orð þáv. forsrh., Hermanns Jónassonar, sem einmitt tilkynnti það í andarslitrunum í des. 1958.

Það eru þessir draugar, sem núv. stjórn hefur síðan þurft að glíma við og furðuvel tekizt að kveða niður, þrátt fyrir það að stjórnarandstaðan hefur leitazt við að vekja þá upp og magna að nýju, nær aldrei lagt hönd að neinu, sem til bóta hefur verið, en virzt hrósa happi yfir öllu, sem aukið hefur örðugleika þjóðarinnar, ef það hefur gert stjórninni erfiðara um vik. Þetta er ljót lýsing, en hún er því miður sönn.

Ríkisstj. tók strax til óspilltra málanna. Ég þarf ekki að lýsa ráðstöfunum hennar í einstökum atriðum. Markmið þeirra var skýrt og ákveðið að skapa grundvöll fyrir heilbrigðu efnahagslífi, framförum og bættum lífskjörum í landinu. Sams konar ráðstafanir höfðu verið gerðar í fjölda landa s.l. áratug og þá fyrst og fremst í nágrannalöndum okkar í Vestur-Evrópu. Þær þjóðir höfðu alls staðar stuðlað að því að styrkja fjárhag landanna út á við, örvað vöxt þjóðarframleiðslunnar og stórbætt kjör almennings.

Ríkisstj. var það ljóst, að skjóts bata af þessum ráðstöfunum væri ekki að vænta, jafnslæmt og ástandið var orðið. Henni var einnig ljóst, að á því tímabili, sem liði, áður en jákvæður árangur færi að koma í ljós, mundu ráðstafanirnar hafa í för með sér erfiðleika fyrir bæði almenning og atvinnurekendur. Úr þessum örðugleikum var reynt að draga með ýmiss konar hliðarráðstöfunum án þess að spilla fyrir því. að höfuðmarkmiðið gæti náðst.

Reyndin varð sú, að óvenju erfiðar ytri aðstæður torvelduðu viðreisnina á fyrsta ári hennar. Þrátt fyrir þetta var ljóst, að miðað hafði í rétta átt.

Um mitt ár 1961 var svo komið, að gjaldeyrisstaðan hafði batnað mikið, enda þótt gjaldeyrisforðinn, sem orðinn var um 150 millj. kr., væri enn allt of lítill. Innlendur sparnaður hafði vaxið 67% meira á mánuði hverjum frá aprílmánuði 1960 til júnímánaðar 1961 heldur en hann hefði gert á árinu 1959. Jafnframt hafði tekið fyrir ofþenslu bankaútiána. Frjáls innflutningur hafði veitt bæði atvinnufyrirtækjum og almenningi aukið hagræði. Álit þjóðarinnar erlendis hafði verið endurreist.

Það reið á miklu, að sá grundvöllur, sem þannig hafði verið lagður, yrði ekki eyðilagður, heldur þvert á móti treystur enn meira. Aðeins með því móti var hægt að gera ráð fyrir, að í landinu gætu orðið eðlilegar framfarir og vaxandi velmegun á komandi árum.

Þegar svona stóðu sakir, gerðu samtök launþega kröfur um miklar og almennar kaupbætur. Ég mun ekki rekja hér gang kaupdeilnanna og verkfallanna á s.l. sumri, en vil í staðinn að gefnu tilefni frá síðasta hv. ræðumanni snúa mér að viðhorfunum, eins og þau blöstu við að kaupdeilum loknum.

Kauphækkanirnar, sem samið var um, svöruðu til þess, að launakostnaður atvinnuveganna ykist um 13–19% og peningatekjur manna um a.m.k. 550–600 millj. kr. á ári. Hvernig stóðu nú atvinnuvegirnir að vígi til þess að taka á sig slíkar hækkanir? Menn heyrðu, hvað hv. síðasti ræðumaður sagði um það. Ég segi, að á svarinu — á hinu rétta svari — veltur, hvort gengislækkunin var óumflýjanleg eða ekki.

Höfuðatvinnuvegur þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, var illa farinn eftir langvarandi verðbólgu og hafði á undanförnu ári orðið fyrir einu hinu mesta verðfalli afurða, sem átt hefur sér stað á síðari árum. Síldarvertíðin sumarið 1960 hafði brugðizt, og nýafstaðin vetrarvertíð hafði verið slæm, sérstaklega fyrir Suðurlandi. Togararnir áttu við meira aflaleysi að etja en nokkru sinni um meira en 20 ára skeið. Verð afurðanna hafði að sönnu aftur farið hækkandi á fyrstu mánuðum ársins 1961, en þó ekki nægjanlega til að vega upp á móti fyrri verðlækkun, þannig að meðalútflutningsverð sjávarafurða var enn nokkru lægra en það hafði verið í árslok 1959. Engum manni gat svo mikið sem dottið í hug, að sjávarútvegurinn gæti í einu vetfangi tekið á sig launahækkanir, sem svöruðu til fimmfaldrar þeirrar aukningar afkasta á mann, sem búast má við að eigi sér stað á ári hverju, en við þetta er viðurkennt, að kauphækkanir verði almennt að miðast. Stjórnarandstaðan hefur þá líka sízt gert lítið úr erfiðleikum sjávarútvegsins, þegar það hefur hentað henni.

En hvað þá um aðrar atvinnugreinar, iðnað, verzlun og siglingar? Gátu þær tekið á sig launahækkanir án þess að hækka verð á þeim, vörum, sem þær framleiða, og þeirri þjónustu, sem þær inna af hendi? Allt, sem hv. síðasti ræðumaður um þetta sagði, var hrein fjarstæða. Hið sanna er, að hér á landi hefur verið verðlagseftirlit í meira en tvo áratugi. Verðlagseftirlitið hefur átt að fylgjast með því, að sérhver vara væri seld sem næst því verði, sem kostar að framleiða hana og dreifa henni, og sérhver þjónusta á því verði, sem kostar að inna hana af hendi. Hafði þá verðlagseftirlitið brugðizt svo hrapallega hlutverki sínu. að iðnaður, verzlun og siglingar gætu allt í einu tekið af gróða sínum upphæð, sem svarar til fimm ára meðalaukningar afkastanna? Ríkisstj. krafðist að fá úr þessu skorið, — ég endurtek það, að ríkisstj: krafðist þess að fá úr þessu skorið. Geta þessara atvinnugreina til að greiða hinar umsömdu kauphækkanir var þess vegna könnuð alveg til hlítar. Í þessu skyni fóru fram umfangsmiklar athuganir á vegum verðlagsnefndar og viðskmrn. á s.l. sumri. Fulltrúar þessara atvinnugreina mættu einnig á fundum nefndarinnar og voru þar spurðir spjörunum úr. Á meðal þeirra voru einnig fulltrúar samvinnuhreyfingarinnar, og ég vænti, að hv. síðasti ræðumaður vilji ekki gera þá alla að ósannindamönnum hér með einu orði í útvarpinu. Niðurstaða þessarar athugunar var sú, að yfirleitt væru fyrirtækin þannig á vegi stödd, að ágóði þeirra nægði ekki einu sinni til þess að standa undir eðlilegri endurnýjun þeirra fjármuna, sem í þeim væru bundnir. Verðlagsnefnd taldi af þessari ástæðu ekki annað kleift en að leyfa verðhækkanir, sem svöruðu til launahækkananna. Menn beri þetta nú saman við ummæli hv. siðasta ræðumanns. Einstaka sinnum sá nefndin sér meira að segja ekki annað fært en að ganga enn þá lengra en þetta. Einasta undantekningin frá þessu var sú, að nokkur hluti þess iðnaðar, sem framleiðir fyrir innlendan markað, sýndist betur á vegi staddur og þá fyrst og fremst vegna hagstæðra áhrifa frá gengislækkuninni í ársbyrjun 1960. Þessar iðngreinar gátu tekið á sig a.m.k. nokkurn hluta launahækkananna og voru líka fúsar til þess. Launahækkanirnar hafa þess vegna ekki leitt til hækkunar vöruverðs á þessum iðngreinum nema að nokkru leyti. Með þeirri einu undantekningu, sem ég nú hef nefnt, blasti alls staðar við sama myndin: Atvinnuvegirnir gátu ekki borið þær kauphækkanir, sem samið hefur verið um. Gilti þetta jafnt um fyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar sem önnur fyrirtæki, enda stóð ekki á þeim fremur en öðrum að hagnýta sér ýtrustu heimildir til verðhækkana. Þetta er augljós og ómótmælanleg staðreynd, sem stjórnarandstaðan hefur ekki getað borið brigður á, og raunar ekki heldur talið það nauðsynlegt. Hún hefur nefnilega þótzt eiga í fórum sínum annan miklu vænni lurk til að lemja „harðstjórana“, sem hv. þm. var að lýsa, í ríkisstj. með. Hún hefur talið sig geta sannað þjóðinni úlfúð okkar og illt innræti með því að sýna fram á, að við réðum yfir óbrigðulum Kínalífselexír, sem væri allra meina bót, aðeins ef við vildum rétta hann að þjóðinni úr okkar náðarhendi, sem við auðvitað ekki fengjumst til af meinfýsni einni saman. Ég þarf ekki að segja hv. hlustendum, að ég á hér við vextina, þessa „geigvænlegu okurvexti“, „þessar drápsklyfjar á Þeim skuldugu.“ „Léttið vaxtabaggana,“ skrifar, talar, hrópar stjórnarandstaðan látlaust dag og nótt, „þá er leikur einn að bera kauphækkanir síðasta sumars og gengisfellingin með öllu ástæðulaus: Þetta er viðlagið í öllu rauli þeirra í vöku og svefni, svo oft kveðið, að sérhver fulltíða maður kann það og margir trúa án efa, að þar sé fólginn mikilvægur sannleikur.

Ég skal ekki fjölyrða um, að í öllum þessum vaxtavaðli stjórnarandstæðinga hefur andað ákaflega og raunar óskiljanlega köldu til sparifjáreigendanna, svo mjög sem hlutur þeirra hefur lengi verið fyrir borð borinn.

Ég sný mér að hinni hliðinni, vaxtaokrinu, sem þeir kalla, og viðurkenni, að stjórnarliðið hafi e.t.v. gert of lítið til að varpa ljósi yfir þessa höfuðrökvillu andstæðinganna. En vilji menn sjá, hvílík endemisfirra hér er á ferð, nægir að nefna örfáar og auðskildar tölur. Er þá fyrst að minna á, að launahækkanirnar nema 550—600 millj. kr. á ári. Það er þessi baggi, sem á að létta af atvinnuvegunum með einhverri lækkun á vöxtunum. Eftir því skyldi maður ætla, að vextirnir næmu þúsundum millj. kr. En hvað eru þá þessir vextir miklir? Eru Þeir í raun og veru þúsundir millj. kr. á ári? Nei, því fer víðs fjarri. Allar vaxtagreiðslur af útiánum allra banka og sparisjóða á öllu landinu námu á öllu s.l. ári aðeins broti af þeirri upphæð eða ekki meira en einum 400 millj. kr., þ.e.a.s. miklu lægri upphæð en kauphækkanirnar nema. Þætti mér nú fróðlegt að vita, hvernig auðið er að bæta atvinnurekstrinum upp 550—600 millj. kr. útgjaldaauka með því að létta af honum einhverju broti af 400 millj. kr., eða svo sem 70–80 millj., og er þá miðað við uppástungu sjálfra stjórnarandstæðinga um vaxtalækkunina.

Þetta er eitthvað skrýtinn útreikningur, og væri andstæðingum hollara að fara í einkatíma í samlagningu og frádrætti, ef einhverjir þeirra skyldu ætla að reyna landspróf eða þótt ekki væri nema skussapróf eða fermingarpróf í vor.

Hvað sjávarútveginn sérstaklega varðar, verður þessi vísdómur andstæðinganna enn fjarstæðukenndari. Aukinn vaxtakostnaður útvegsins miðað við það, sem hann var áður en vaxtalækkunin gekk í gildi í ársbyrjun 1960, nemur nefnilega aðeins 15—20 millj. kr., sem eru hreinir smámunir í þessu sambandi eða innan við l% af framleiðsluverðmæti þessa atvinnuvegar.

Sést af þessu, að vaxtalækkunin var sáralitil meinabót móti kauphækkununum, og umbúðalaust sagt eru þessi falsrök andstæðinganna svo auðsæ, að það er blátt áfram árás á almenning í landinu að bera þau á borð fyrir hann. Hins vegar hefði vaxtalækkun, eins og á stóð á s.l. sumri, aukið verðbólguhættuna og stuðlað að óhagstæðum greiðslujöfnuði. Þetta vita stjórnarandstæðingar líka vel. Kröfur þeirra um vaxtalækkun eru því fremur sprottnar af úlfúð í garð sparifjáreigenda en umhyggju fyrir atvinnurekstrinum.

Þá hafa stjórnarandstæðingar verið að tæpa á öðrum leiðum til lækkunar framleiðslukostnaðar. Því skal ekki neitað, að margir kostnaðarliðir sjávarútvegs, eins og t.d. tryggingagjöld, eru óeðlilega háir hér á landi. Hitt er barnaskapur einn að láta sér detta í hug, að í einu vetfangi sé hægt að lækka slíka kostnaðarliði hjá sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum um upphæðir, sem nema hundruðum millj. kr. á ári.

Allt ber því að einum brunni. Atvinnuvegirnir voru þess með öllu ómegnugir að taka á sig hinar miklu kauphækkanir, og hvorki gat vaxtalækkun né önnur framkvæmanleg útgjaldalækkun bætt þeim nema sáralítinn hluta þeirra 550—600 millj. kr., sem búið var að hlaða á þá. Af þessu leiðir, að gengislækkunin var eina úrræðið og þess vegna allsendis óumflýjanleg.

Þetta eru staðreyndirnar, og menn beri þær nú saman við fullyrðingar hv. þm., sem áðan var að tala hér. Margar aðrar þjóðir skilja þessi mál miklu betur en við. Til fróðleiks skal ég nefna siðasta vitnið meðal nágrannaþjóðanna þessu til staðfestingar. Ýmsir hlustendur munu sjálfsagt hafa tekið eftir fregn, sem lesin var í útvarpinu fyrir nokkrum dögum, þar sem skýrt var frá launasamningum milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda í Svíþjóð. Þessir samningar voru til tveggja ára, eins og þeir samningar, sem gerðir voru hér á landi á s.l. ári. Þeir fólu í sér á milli 2 og 3% launahækkun hvort árið auk hækkaðrar greiðslu í lífeyrissjóðinn. Samningar þessir höfðu náðst eftir langvarandi samningaumleitanir, og þeir höfðu verið gerðir skömmu eftir að ríkisstj. hafði hækkað söluskatt í smásölu úr 4% í 6%.

Nú vil ég spyrja: Hvaða munur er það í þjóðarbúskap Íslendinga og Svía, sem geti gert íslenzkum þjóðarbúskap fært að standa undir 13—19% kauphækkun eitt árið og 4% næsta ár. þegar verkamenn og atvinnurekendur í Svíþjóð eru sammála um, að sænskur þjóðarbúskapur þoli ekki meira en 3% kauphækkun á ári? Skyldi þjóðarframleiðslan á mann vaxa hraðar á Íslandi en í Svíþjóð? Nei, þvert á móti. Þjóðarframleiðslan á mann hefur vaxið um 3% í Svíþjóð á ári s.l. 5 ár, en aðeins 2% á Íslandi. Eða hefur þá kannske gróði íslenzkra atvinnufyrirtækja verið svona miklu meiri að tiltölu en gróði sænskra atvinnufyrirtækja? Slíkt hvarflar ekki að nokkrum manni í alvöru. Eða loks, var þá gjaldeyrisaðstaða Íslendinga svona miklu sterkari en gjaldeyrisaðstaða Svía, að þjóðarbúið gæti borið um nokkurt skeið þann halla, sem af miklum kauphækkunum getur hlotizt? Því er fljótsvarað. Gjaldeyrisvarasjóður Íslendinga á s.l. sumri, þegar ákvörðun var tekin um gengislækkun, svaraði til hálfs mánaðar innflutnings, en gjaldeyrissjóður Svía svarar til fjögurra mánaða innflutnings.

Nei, það er sannarlega ekkert í þjóðarbúskap okkar Íslendinga, sem réttlætir stórfelldari kauphækkanir en með Svíum. Það, sem veldur mismunandi aðgerðum þeirra og okkar og gæfumuninn gerir, er þroska- og þekkingarleysi okkar á sviði efnahagsmálanna. Sænska verkalýðshreyfingin skilur og veit það, sem við eigum eftir að læra, að sígandi lukka er bezt og raunar hin eina lukka í þessum efnum, vegna þess að of stórstígar kauphækkanir leiða alltaf til ófarnaðar og gengisfellingar.

Þetta er kjarni málsins. Það eru einmitt þessar staðreyndir, sem ég nú hef tilgreint, sem úr skera í deilunni milli stjórnarinnar og andstæðinganna. Þær sýna, svo að ekki verður um deilt, að það er eingöngu vegna þess að ríkisstj. hikaði ekki við að gera tafarlaust það, sem gera þurfti, þ.e.a.s. fella gengið, að í stað hallarekstrar, atvinnuleysis og þess ófagnaðar, sem í kjölfar kauphækkananna hlaut að sigla, hefur atvinnulíf landsins verið rekið með eðlilegum hætti síðan í fyrrasumar og atvinnan víðast hvar verið meiri en nokkru sinni fyrr. Hinn jákvæði árangur viðreisnarinnar hefur komið æ betur í ljós. Sú tiltrú, sem viðreisnin hafði skapað innanlands og utan í efnahagsmálum þjóðarinnar, hefur haldizt og sá grundvöllur, sem með henni var lagður að framtíðarvelmegun þjóðarinnar, hefur verið treystur.

Jafnframt halda launþegar eftir sem raunverulegri kjarabót nokkrum hluta launahækkananna. Hækkun framleiðsluvísitölu síðan 1. júlí s.l. er nú 10%, en almennast voru launahækkanirnar frá 13—15%. í viðbót við þetta kemur svo, að atvinna hefur á undanförnum árum verið meiri en áður. Þess vegna hafa raunverulegar tekjur vaxið meira en þessar tölur benda til. Að vísu eru ekki öll verðhækkunaráhrif launahækkana og gengislækkunarinnar enn komin fram. En sú 4% launahækkun, sem fram undan er 1. júní, þarf ekki nema að litlu leyti að koma fram í verðlaginu og verður þess vegna að mestu leyti til kjarabóta.

En þegar hér er komið sögu, bregður allt í einu svo kynlega við, að stjórnarandstaðan, sem fram að þessu hefur ekki viljað viðurkenna jákvæðan árangur viðreisnarinnar, vendir sínu kvæði algerlega í kross og segir, að þessi árangur sé svo mikill, að hann sýni, að ekki hafi verið þörf neinna aðgerða á s.l. sumri. Ég hef þegar afsannað þessa staðhæfingu og gæti þó fært fram ýmis fleiri rök, sem hér vinnst þó ekki tími til. En ekki get ég stillt mig um að minna á, að fyrst sögðu þessir menn, að viðreisnin hefði farið út um þúfur, síðan, að hún væri að fara út um þúfur, þar næst, að hún mundi fara út um þúfur, og nú loks, að hún hefði tekizt svo vel, að slíks séu engin fordæmi í efnahagslífi Íslendinga og þótt víðar væri leitað. Minna má nú gagn gera. Er nokkuð torskilið, að maður kjósi fremur að reyna að leysa vandamál þjóðarinnar en að standa í stöðugu karpi við þá, sem hoppa þannig og skoppa frá réttu til rangs og daglega snúast eins og vindhanar á burst?

Megintilgangur allra aðgerða ríkisstj. í efnahagsmálunum hefur frá öndverðu verið sá að leggja grundvöllinn að vaxandi velmegun í landinu. Vaxandi velmegun byggist á vaxandi framleiðslu, vaxandi framleiðsla á heilbrigðu jafnvægi í efnahagslífinu. Kauphækkanir þær, sem áttu sér stað á s.l. sumri, stuðla ekki að kjarabótum fyrir einn né neinn. Það eina, sem þær fá áorkað, er að skapa efnahagslegt öngþveiti, verðbólgu innanlands og greiðsluhalla við önnur lönd. Með þessu móti eyðileggja þær beinlínis tækifæri til þess að bæta lífskjörin, svo framarlega sem öflugar ráðstafanir eru ekki gerðar þegar í stað til að afstýra slíkum afleiðingum. Þegar ríkisstj. gerði einmitt þetta s.l. sumar, var hún þar með að vinna fyrir hagsmuni launþega og alls almennings í landinu.

Ég hef nú með þessum fáu orðum leitt athygli að því, að núv. stjórnarflokkar tóku við þjóðarbúinu í rúst, að við réðumst tafarlaust gegn vandanum með einörðum og réttum ráðstöfunum, að á miðju s.l. ári hafði viðreisnin borið mikinn og sýnilegan árangur þrátt fyrir óhagstæð ytri skilyrði, að kauphækkanirnar, sem þá fóru fram, hefðu lagt allt í rúst að nýju, ef ekki hefði verið að gert, og að þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar, hafa þegar borið ríkulegan ávöxt, sem m.a. má sjá af stöðugri atvinnu, stórauknu sparifé, sívaxandi gjaldeyrissjóðum, jákvæðum greiðslujöfnuði og þeirri heillavænlegu endurreisn lánstrausts þjóðarinnar erlendis, sem af þessu hefur leitt, og er þó enn þess ógetið, að mikill hluti þeirra yfirdráttarlána, sem tekin voru erlendis í ársbyrjun 1960, hefur verið endurgreiddur.

Samfara þessu hefur stjórnin fengið til meðferðar venju fremur mörg og vandasöm viðfangsefni, jafnt á sviði utanríkismála sem innanríkismála, sem hún hefur borið gæfu til að leysa farsællega, en jafnframt beitt sér fyrir alhliða löggjöf til sóknar og varnar. Nefni ég þar til aðeins sem dæmi björgun lánasjóða landbúnaðarins frá yfirvofandi vanmætti eða jafnvei gjaldþroti, aðstoð við togaraflotann, heildarendurskoðun skattalaga, margvislega löggjöf til að tryggja hag ríkissjóðs og margþætta og merka löggjöf á sviði dómsmála og heilbrigðismála, menntamála, félagsmála, útvegsmála, landbúnaðarmála og samgöngumála o.s.frv. Hika ég ekki við að staðhæfa, að engin íslenzk ríkisstj. hefur verið svipað því jafnrishá og mikilvirk í þessum efnum sem núv. stjórn. Stjórnin hefur nú á prjónunum merkar fyrirætlanir um nýjar framkvæmdir, þ. á m. stórvirkjanir og stóriðju. Ber því allt að einum brunni um það, að þjóðin geti vænzt góðra og batnandi lífskjara, ef hún sýnir biðlund og ber gæfu til að forðast fortölur þeirra. sem láta annarleg sjónarmið stjórna gerðum sínum, hvort heldur er sjúkleg valdafíkn eða þjónkun við óþjóðleg öfl.

Stjórnarandstöðuna læt ég sjálfa um að lýsa sér. „Högg, högg, högg,“ hrópaði hv. síðasti ræðumaður nú og raunar oft áður yfir tómum stólum deildarinnar. „Hefnd, hefnd, hefnd,“ hrópa aðrir. Hefnd! En yfir hverjum? Og fyrir hvað? Ég verð að játa, að mig hryllir við sálarástandi manna, sem svona tala, ef hugur fylgir máll. Ég spyr: Hefur nokkur svo bölvuð stjórn nokkru sinni farið með völd á Íslandi, að hún telji refsivert, að fólkið leitist við að bæta lífskjör sín, og fyllist fyrir það heift og hefndarhug? Ég staðhæfi, að því fer víðs fjarri. Allar stjórnir hljóta fegnar að vilja bæta kjör þjóðfélagsþegnanna. Ágreiningurinn er aðeins um getuna, og gæfumunurinn er, hvort menn finna rétt úrræði og þora að gera það, sem þjóðinni er fyrir beztu, án hliðsjónar af stundarvinsældum eða lita undan og lyppast niður í von um fylgisauka.

Núv. ríkisstjórn hefur ekki skort þrek til að fylgja sannfæringu sinni. Ég trúi því, að við höfum borið gæfu til að gera hið rétta og hvergi gengið lengra en nauðsynlegt var til að bjarga þjóðinni frá yfirvofandi voða. Ég trúi því líka, að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé á sama máli. Og loks held ég, að andstæðingar okkar gangi þessa ekki duldir og það sé einmitt þess vegna, sem þeir eru nú algerlega úr skorðum gengnir, rétt eins og efnahagslíf þjóðarinnar var, þegar þeir skildu við.

Í þessu ljósi bið ég hv. hlustendur að skoða æsingar hv. síðasta ræðumanns og þeirra, sem á eftir honum koma af stjórnarandstöðunni, æsingar þeirra, öfgar og rangfærslu. En jafnframt vona ég, að þjóðin veiti ríkisstj. brautargengi, mátt og megin til að halda áfram að vinna að auknum skilyrðum fyrir góðum og batnandi lífskjörum allra manna í þessu landi í nútíð og framtið.

Ég lýk máli mínu með því að staðhæfa, að fái núv. stjórnarstefna að ráða hér ríkjum, muni lífskjör almennings gjörbreytast til hins betra á einum einasta áratug.