12.04.1962
Sameinað þing: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2617 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eins og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, í kvöld, halda framsóknarmenn því fram, að við fall vinstri stjórnarinnar hafi hér verið ágæt afkoma, atvinnulífið í blóma, gjaldeyriseign, tekjuafgangur, allt í himnalagi, að undanskildu þessu lítilræði, að ríkisstj. réð ekki við vísitöluna og verðbólguna. Það, sem bagaði vinstri stjórnina, sagði hv. þm., var vísitölukerfið. Þetta minnir á frásögn frá ævilokum skáldsins Benedikts Gröndals. Þorvaldur Thoroddsen kom til Gröndals tveimur eða þremur dögum áður en hann dó, og var hann þá mjög veikur. „Hvernig líður þér í dag, Gröndal?“ spurði Þorvaldur. Gröndal svaraði: „Ég get ekki gengið og ekki andað, en annars líður mér vel.“ Án þess að ég vilji líkja saman hinu skarpgáfaða skáldi og hinni vesælu vinstri stjórn, þá var henni eitthvað svipað farið, þegar hún lá banaleguna. Henni hefur orðið þungt og þröngt um andardrátt, og vist er það, að hún gat ekki gengið, hún réð ekki við dýrtíð né vísitölu, en annars leið henni vel, eða svo fannst Framsókn.

Á þeim tveim árum, sem liðin eru, síðan viðreisnin hófst, hefur verið unnið að margháttuðum umbótum á mörgum sviðum þjóðlífsins. Skulu nefndar hér nokkrar þeirra.

Afkoma þjóðarinnar í heild hefur rétt við. Ár hvert, síðan styrjöldinni lauk, hafði verið halli á þjóðarbúskapnum og skuldum safnað, þangað til í fyrra, þá varð greiðslujöfnuður þjóðarbúsins hagstæður um 200–250 millj. Í ársskýrslu Seðlabankans segir: „Er því óhætt að segja, að náðst hafi mjög mikilvægur árangur í þeirri viðleitni að styrkja stöðu þjóðarinnar gagnvart útlöndum.“ í beinu sambandi við afkomu þjóðarbúsins út á við er gjaldeyrisástandið. Skortur á erlendum gjaldeyri hefur lengst af verið þjóðinni þrálát plága og fjötur um fót. Nú hefur skipt um. Þegar viðreisnin hófst í lok febr. 1960, var gjaldeyrisskuld bankanna 216 millj., reiknað með núv. gengi. En nú, tveim árum seinna, er gjaldeyriseignin 704 millj. og bati á þessum tveim árum því um 920 millj.

Fjárhagsafkoma ríkissjóðs er einn af hyrningarsteinum efnahagslífsins. Á því eina heila ári, sem vinstri stjórnin sat, 1957, varð greiðsluhalli hjá ríkissjóði. Á þeim tveim árum, sem núv. stjórn hefur starfað, hefur orðið nokkur tekjuafgangur bæði árin. Umframgreiðslur útgjöld umfram áætlun fjárlaga — hafa lengi tíðkazt og oft verið mikill misbrestur á því, að fjárlögum væri fylgt, stundum ekki gætt nægilegs hófs um útgjöld fram yfir heimildir fjárlaga. En 1960 urðu útgjöld ríkisins í fyrsta skipti lægri en fjárlög höfðu áætlað.

Tveir hv. þm. hafa gert að umtalsefni hér í kvöld gengishagnað af útflutningsbirgðum s.l. haust, sem ríkissjóður hafi ranglega tekið traustataki af útveginum. Því er til að svara, að við fyrri gengisbreytingar hefur gengisgróði af birgðum ekki verið látinn renna til þeirra, sem áttu þær birgðir á þeim degi, er gengislækkun varð. Þessi gengishagnaður verður ekki látinn renna til ríkissjóðs, heldur í sérstakan ríkisábyrgðasjóð til þess að standa undir áföllnum ábyrgðum vegna atvinnuveganna, og fer þetta fé þannig fyrst og fremst til þarfa útvegsins.

Hv. 6. þm. Sunnl. sagði, að gengisbreytingin hefði bjargað ríkissjóði og væntanlega verið til þess gerð. Þetta er misskilningur. Þær auknu tolltekjur og aðrar tekjur, sem ríkissjóður hlaut af gengisbreytingunni, námu ekki hærri upphæð en aukin útgjöld hans vegna hennar.

Lögð hefur verið rækt við það að koma á umbótum og bættu skipulagi við ýmsa opinbera starfsemi. Hefur það þegar borið verulegan árangur til sparnaðar. Hér skulu þrjú dæmi nefnd. Viðskiptafrelsið gerði kleift að leggja niður innflutningsskrifstofuna og spara þar um 3 millj. kr. á ári. Fyrirhuguð sameining innheimtu ríkisskatta, útsvara og sjúkrasamlagsiðgjalda í Reykjavík mun spara um 6 millj. kr. á ári. Sameining áfengis- og tóbaksverzlunar sparar um eða yfir 2 millj. kr. á ári. Fjöldi annarra atriða til aukins sparnaðar og hagkvæmni hefur ýmist komizt í framkvæmd þegar eða er í undirbúningi.

Skattamálin hafa verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar, beinir skattar verið lækkaðir stórlega, fyrst á einstaklingum, og á þessu þingi verða afgreiddar Ýmsar lagfæringar atvinnurekstrinum til handa. Til þess að bæta ríkissjóði tekjutap hans vegna þeirrar skattalækkunar á einstaklingum, sem var framkvæmd fyrir tveimur árum, til að standa undir auknum almannatryggingum og til að fá sveitarfélögunum nýjan tekjustofn var lagður á 3% almennur söluskattur. Þessa leið hafa nágrannaþjóðir okkar farið eða eru að fara inn á. Svíar hafa um nokkurra ára skeið haft 4% söluskatt, Norðmenn 10%, og Danir munu væntanlega lögleiða á næstunni 5% söluskatt.

Gagnger endurskoðun hefur farið fram á útsvarslöggjöfinni og sveitarfélögunum útvegaðir nýir tekjustofnar, eins og hluti af söluskatti og landsútsvör.

Tollamálin öll eru í endurskoðun. Ný tollskrá verður lögð fyrir þingið í haust, en í nóv. s.l. voru samþ. verulegar tollalækkanir á ýmsum vörum.

Endurbæturnar á skatta-. útsvars- og tollamálum eru ekki aðeins fjárhagslegs eðlis, heldur ekki síður siðferðilegs. Skattsvik og smygl hafa á undanförnum árum gagnsýrt þjóðfélagið. Með hinum geysiháu skatta- og tollastigum hefur hvers konar spilling og sviksemi þróazt, röng framtöl, misrétti milli manna, þar sem tekjur sumra hafa verið taldar fram að fullu, en aðrir komizt upp með að draga hluta tekna sinna og eigna undan sköttum. í sambandi við lagfæringu á skatta- og tollamálum verður hert eftirlit með því, að menn telji rétt fram og að vörur fái löglega tollafgreiðslu. Eru í undirbúningi ýmsar ráðstafanir í þeim efnum. Ranglát lög leiða af sér ólöghlýðni og óheiðarleika. Þegar menn finna, að tolla- og skattalög eru réttlát og hófleg, virða þeir þau og telja sér skylt að hlýða þeim. Hér er því í senn verið að örva og efla atvinnulífið í landinu, framtak og vinnusemi og koma á heiðarlegri og réttlátari þjóðfélagsháttum en áður. Í stað þeirrar óreiðu og ógætni, sem átt hefur sér stað um veitingu ríkisábyrgða fyrir ýmsum lánum, sem síðan hafa lent í vanskilum og fallið í stórum stíl ríkissjóði til byrði, hefur nú verið komið á fastri skipan þeirra mála með lögum um ríkisábyrgðir og eftirlit með þeim og með frv. því um ríkisábyrgðasjóð, sem liggur fyrir þinginu.

Sparifjársöfnun almennings er ómissandi hlekkur í viðreisninni. Ör vöxtur sparifjárins er undirstaða heilbrigðrar lánastarfsemi. Til þess að bæta úr þeim tilfinnanlega lánsfjárskorti, sem þjakað hefur þjóðina um langan aldur, er fyrst og fremst nauðsynlegt að auka spariféð. Það hefur tekizt, bæði vegna hinna háu innlánsvaxta og vegna stöðugrar og mikillar atvinnu og loks vegna þess, að fólkið hefur fengið nýtt og aukið traust á fjármálum og efnahag þjóðarinnar. Sparifé í bönkum og sparisjóðum hefur á þessum tveim árum frá febrúarlokum 1960 til febrúarloka 1962 aukizt hvorki meira né minna en um 1017 millj. eða rúman milljarð.

Frv. um samningsrétt opinberra starfsmanna er mikilsverð réttarbót fyrir þann fjölmenna hóp starfsmanna, sem um árabil hafa barizt fyrir þessari viðurkenningu.

Þær aðgerðir og umbætur, sem núv. ríkisstj. hefur staðið að og beitt sér fyrir, hafa veruleg áhrif á afkomu manna á líðandi stund, en allar eru þær fyrst og fremst miðaðar við framtíðina. Þær stefna að því að skapa æsku Íslands sem bezta aðstöðu í lífsbaráttunni. Með viðreisninni er lagður heilbrigður og traustur grundvöllur að lífsstarfi æskunnar. Með viðreisninni er reynt að tryggja, að æskan taki við betra landi og að henni verði búin betri starfsskilyrði en fyrr. Það er unnið að því að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þessa lands, svo að íslenzk æska þurfi ekki að taka við drápsklyfjum erlendra skulda og stynja undir þeim allt sitt lif. Það er reynt að skapa fjárhagslegt jafnvægi í stað verðbólgu og öngþveitis, öruggan atvinnugrundvöll, svo að atvinnuleysi hefji aldrei oftar innreið sína í þetta land.

Það hefur verið búið í haginn fyrir íslenzka námsmenn á marga lund. Áður fyrr var oft miklum örðugleikum bundið fyrir námsmenn vegna gjaldeyrisskorts að fá á réttum tíma nauðsynlegan gjaldeyri. Nú eru þeir erfiðleikar úr sögunni. Mikið hefur verið gert til að létta undir með námsmönnum með auknum framlögum til styrkja og lána, ný löggjöf verið sett um lánasjóði íslenzkra námsmanna. Árið 1958 voru fjárframlög í fjárl. til styrkja og lána til námsmanna samtals tæpar 2 millj. kr., en í gildandi fjárl. eru það orðnar rúmar 8 millj. Þegar með er talið eigið fé lánasjóðs og þau bankalán, sem hafa fengizt til útlána, hefur fé til námslána og styrkja hækkað á fjórum árum úr ca. 2 millj. upp í rúmar 13 millj. kr.

Í skattafrv. nýja er það nýmæli, að draga skuli frá tekjum, áður en skattur er á lagður, námskostnað, sem stofnað er til eftir tvítugsaldur. Með þessu er verið að létta undir með námsmönnum, sem oft koma skuldum hlaðnir eftir langt og dýrt nám og eiga sérstaklega fyrstu árin, eftir að þeir taka við starfi, fullerfitt með að standa undir vöxtum og afborgunum námsskulda.

Húsnæðismálin eru vafalaust eitt stærsta áhugamál æskunnar. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á þessu þingi á lögum um húsnæðismálastjórn og verkamannabústaði og lánsupphæðir hækkaðar verulega. Lánsfjárskorturinn hefur háð og háir mjög húsbyggingum, ekki síður unga fólksins en annarra, en með hinni öru sparifjáraukningu, sem er ein afleiðing viðreisnarinnar, mun bráðlega batna mjög í þessu efni, svo að auðveldara verði að fá lán en áður, m.a. byggingarlán. En eitt stærsta verkefnið í þessum efnum er að sjálfsögðu að reyna að lækka byggingarkostnaðinn og gera húsnæðið þannig ódýrara. Lægri byggingar- og húsnæðiskostnaður mundi vera ein stærsta kjarabót fyrir æskulýð þessa lands, og að því verður að vinna.

Stefna viðskipta- og athafnafrelsis, stefna frjálslyndis og víðsýni skapar æskunni aukið svigrúm, hollara andrúmsloft, opnar henni fleiri möguleika. Hver sá æskumaður, sem hefur eld í æðum, kraft í kögglum, orku og áræði, fær nú fleiri tækifæri, margfalda möguleika til þess að afla sér fjár og frama, ryðja sér nýjar brautir, þjóðinni allri, sér og sínum til farsældar. Íslenzk þjóð verður að fylgja frjálslyndri og víðsýnni umbótastefnu, til þess að vel fari.