13.04.1962
Sameinað þing: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

Almennar stjórnmálaumræður

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er deilt um stefnu og störf ríkisstj. í lýðræðisþjóðfélagi er það eðlilegur hlutur, að menn hafi skiptar skoðanir og hver berjist fyrir því, sem hann telur réttast. Um stefnu núv. ríkisstj. ríkir mikill ágreiningur milli stjórnmálaflokkanna og oft deilt um þau mál af miklu kappi. Stjórnarsinnar færa fram margs konar rök fyrir hinni róttæku og umfangsmiklu viðreisnarstefnu ríkisstj., en stjórnarandstæðingar gagnrýna þessa stefnu harðlega og finna ekkert nýtilegt í henni. Fyrir einstaklingana eða hina óbreyttu kjósendur, sem þurfa að taka afstöðu til ágreiningsmálanna, hlýtur oft að vera erfitt að skera úr um, hvor hafi meira til sins máls. Mörg höfuðdeilumálanna eru svo flókin og margþætt, að það þarf mikinn kunnugleika á rökum og gagnrökum til að geta myndað sér ákveðna og örugga skoðun á Þeim. Ég hygg, að mjög fáir landsmanna lesi öll blöðin eða fylgist vel með umræðum héðan frá Alþingi og tryggi sér á þann hátt næga undirstöðuþekkingu til heilbrigðrar skoðanamyndunar. Allur fjöldinn verður að notast við önnur ráð. Einfaldasta og bezta ráðið er að láta reynsluna skera úr. En reynslan fæst ekki fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Ríkisstj. hefur aðeins setið að völdum í 21/2 ár, og því er auðvitað ekki enn fengin reynsla af öllum hennar verkum. Því er réttast að beina athyglinni einkum að fyrstu athöfnum stjórnarinnar og þá sérstaklega að hinum margþættu efnahagsráðstöfunum, er gerðar voru á öndverðu ári 1960, athuga, hvað reynslan hefur leitt í ljós um gildi þeirra, og gera sér grein fyrir, hvort umsagnir andstæðinganna, sem þá voru settar fram, hafi reynzt réttar og spár þeirra rætzt.

Ein höfuðröksemdin gegn efnahagsráðstöfununum 1960 var sú, að þær mundu leiða af sér geigvænlegt atvinnuleysi fyrir þjóðina. Ég vil leyfa mér af því tilefni að vitna til nokkurra fyrirsagna í Þjóðviljanum, sem flestar eru frá því í febrúarmánuði 1960. Fyrirsagnirnar hljóða á þessa leið: „Atvinnuleysi boðið heim.“ „Kúgunarkerfi peningavalds, atvinnuleysi og fátækt.“ „Innlimun íslenzks þjóðfélags í kreppuskipulag auðvaldsins.“ „Þung ábyrgð þeirra, er ætla að gera atvinnuleysi hlutskipti verkamanna.“ „Hættan á atvinnuleysi.“ „Stóratvinnuleysi í byggingariðnaðinum afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar“ „Tilraunir með atvinnuleysi.“ „Viðreisn atvinnuleysisins.“ Þetta voru fyrirsagnirnar úr Þjóðviljanum. Nú eru liðin rúm tvö ár, siðan þessar deilur risu um það, hvort viðreisnarstefnan leiddi til aukinnar atvinnu eða atvinnuleysis. Dómur reynslunnar er fallinn, skýr og ótviræður. Það hefur aldrei verið meiri atvinna í landinu en s.l. tvö ár.

Einn meginþátturinn í efnahagsráðstöfununum 1960 var aukið frelsi á sviði innflutnings- og gjaldeyrismála. Ekki höfðu stjórnarandstæðingar neina trú á því, að aðgerðir ríkisstj. í þessum efnum fælu í sér aukið frelsi. Því til staðfestingar vil ég vitna til nokkurra fyrirsagna í Tímanum í aprílmánuði 1960. Þær hljóða á þessa leið: „Það er ekki verið að afnema höft, heldur taka upp ný höft og verri.“ „Ný haftastefna.“ „Höftin haldast áfram. Skipt um nöfn á nefndum.“ „Sýndarfrumvarp ríkisstjórnarinnar um nýskipan innflutnings- og gjaldeyrismála.“ „Nýja verzlunarfrelsið er raunverulega stóraukin höft“ „Aukið ófrelsi.“ „Ekki er nokkurt efamál, að aldrei hefur komið fyrir Alþingi frv., sem er önnur eins öfugmælakássa og frumvarp ríkisstjórnarinnar um innflutnings- og gjaldeyrismálin.“ Þetta voru fyrirsagnir og ummæli Tímans, er ég las. Einnig hér hefur reynslan kveðið upp sinn dóm. Innflytjendur, kaupmenn, kaupfélagsstjórar og landsmenn allir vita, hvernig sá dómur hljóðar.

Þó að ég hafi rakið hér nokkuð afstöðu framsóknarmanna til frv. ríkisstj. um nýskipan innflutnings- og gjaldeyrismála, gleymdi ég samt einu atriði, sem þeim framsóknarmönnum féll þyngst af öllu. En það var, að frv. kvað svo á, að úthlutunarnefnd jeppabifreiða skyldi lögð niður. Þetta töldu framsóknarmenn gleggstu sönnun þess, að hér væri virkilega vond ríkisstjórn að verki.

Einn þátturinn í efnahagsaðgerðunum 1960 voru breytingar á útsvars- og skattalögum, en það spor var ekki stigið til fulls fyrr en á þessu ári. Breytingin 1960 var m.a. fólgin í því að leggja veltuútsvar á félagsmannaviðskipti samvinnufélaganna, en fella niður samvinnuskattinn á móti. Hér var um mjög sanngjarna breytingu að ræða, þar sem samvinnuskatturinn var orðinn mjög óverulegur, en hann var byggður á fasteignamati, sem orðið var algerlega óraunhæft. Eftir sem áður var sú grundvallarregla viðurkennd, að samvinnufélög greiddu ekki tekjuútsvar af félagsmannaviðskiptum. Gegn þessari breytingu snerust framsóknarmenn mjög öndverðir. Tíminn í maí 1960 segir m.a. um þetta: „Með þessum lögum væri ríkisvaldið að heimila eins konar arðrán og leyfa óhæfuverk.“ „Verið er að lama samvinnuhreyfinguna.“ ,.Ríkisstjórnin er að ná sér niðri á samvinnufélögunum.“ „Ósanngjörnum skattgjöldum er komið á samvinnufélögin.“ „Níðzt er á félagssamtökum fólksins.“ Svo mörg voru þau fögru orð, sem Tíminn hafði um þetta vorið 1960. Hvað hefur nú reynslan sýnt í þessu efni? Afkoma Sambandsins og kaupfélaganna yfirleitt hefur aldrei verið betri en þann tíma, sem núv. ríkisstj. hefur setið að völdum. Nú orðið sjá allir, að þessi skattbreyting er réttlát, og hún veldur ekki lengur neinum deilum. Meira að segja framsóknarmenn viðurkenna villu sina. Nú er verið að afnema veltuútsvörin og leggja á aðstöðugjald í staðinn, sem er mjög svipaður gjaldstofn, og framsóknarmenn andmæla því ekki einu orði, að samvinnufélögin beri það gjald eins og önnur atvinnufyrirtæki. Meira að segja berjast framsóknarmenn nú gegn því. að tekjuskattur samvinnufélaganna sé lækkaður um 1/5 hluta, en sú barátta þeirra mun verða árangurslaus. Það er því fjarri öllu lagi, að ríkisstj. sé að níðast á samvinnufétögunum. Þvert á móti mun viðreisnarstefnan verða þeim til eflingar. Það hefur reynslan þegar sýnt.

Hér að framan hef ég gert einstaka veigamikla þætti efnahagsaðgerðanna 1960 að umtalsefni og bent á, hvað andstæðingarnir sögðu þá og hvernig reynslan hefur dæmt málflutning þeirra. En það er líka nauðsynlegt að rifja upp, hvað þeir sögðu um gildi efnahagsráðstafananna atmennt. í því efni ætla ég að vitna til Tímans í febrúar og marz 1960. Þar voru birtar þingræður ýmissa leiðtoga Framsfl. undir stórum fyrirsögnum, þar sem kjarninn úr ræðum þeirra var dreginn saman. Eysteinn Jónsson sagði: „Það er fásinna og fjarri öllum veruleika að steypa sér út í annað eins ævintýri.“ Halldór Ásgrímsson sagði: „Leggja á dauða hönd yfir alla nauðsynlega, eðlilega og réttláta framþróun og uppbyggingu í landinu.“ Ágúst Þorvaldsson sagði: „Ráðstafanirnar munu þrengja kosti þjóðarinnar svo tilfinnanlega, að erfitt verður úr að bæta.“ Ásgeir Bjarnason sagði: „Önnur eins afturhalds-, kreppu- og óstjórnarstjórn hefur aldrei setið að völdum á Íslandi áður, — aldrei nokkurn tíma áður. Valdafíknin er svo mikil, að hún drepur alla heilbrigða skynsemi.“

Þessi ummæli öll þurfa landsmenn að muna og bera saman við veruleikann í dag, hina miklu framleiðslu, bættan gjaldeyrishag, niðurgreiðslu erlendra skulda og fjölþætt og blómlegt atvinnulíf. Hér sem endranær er það reynslan, sem sker úr: Þótt rök framsóknarleititoganna, sem ég vitnaði til, hefðu reynzt haldlítil, geta þau verið nytsöm að því leyti, að einhvers staðar í þessum snjöllu ummælum megi finna einkunnarorð fyrir Framsfl., orð, sem hann gæti letrað á sinn baráttuskjöld. Til þess finnst mér langbezt fallin setning Ásgeirs Bjarnasonar: „Valdafíknin er svo mikil, að hún drepur alla heilbrigða skynsemi.“ Tel ég ógerlegt að lýsa betur í einni setningu núv. stefnu Framsfl.

Í þessum umr. hefur verið deilt ákaft um það, hvort útflutningsatvinnuvegirnir hefðu getað borið bótalaust kauphækkanir þær, sem urðu á s.l. sumri. Þessu halda stjórnarandstæðingar eindregið fram og segja, að gengislækkunin í ágúst í fyrra hafi verið algerlega óþörf og einungis hefndarráðstöfun af hálfu ríkisstj. gagnvart launþegum. Einkanlega eru það framsóknarmenn, sem halda því mjög á lofti, að það hafi verið samvinnusamtökin, sem fundu hina hóflegu og sanngjörnu lausn á vinnudeilunum í fyrra með 13% kauphækkun til verkamanna, og undir þeirri kjarabót hafi frystihúsin og útvegurinn vei getað staðið án þess að fá hækkað verð fyrir afurðir sínar með nýrri gengisfellingu. Í tilefni af þessu vildi ég gjarnan spyrja framsóknarmenn einnar spurningar. Þegar frv. til laga um launajöfnuð karla og kvenna, sem flutt var af mér og tveim öðrum Alþýðuflokksþm., var til meðferðar á Alþingi í fyrravetur, var frv. sent til umsagnar til ýmissa atvinnurekendasamtaka og þ. á m. til Vinnumátasambands samvinnufélaganna. Frv. gerði ráð fyrir, að eftir eitt ár hækkaði kvennakaupið almennt um ca. 4% og siðan næstu fimm ár um svipaða upphæð, unz fullum jöfnuði væri náð. Umsögn Vinnumálasambands samvinnufélaganna var dags. 23. nóv. 1960 og undirrituð af formanni þess, Harry Frederiksen. í umsögninni segir m.a. svo orðrétt: „Og ekki mun leika á tveim tungum, að útflutningsatvinnuvegirnir a.m.k. þola nú ekki hærra kaupgjald, svo að ekki sé meira sagt.“ Nú vil ég spyrja framsóknarmenn: Hvað var það, sem gerbreytti svo áliti Vinnumálasambands samvinnufélaganna á getu útflutningsatvinnuveganna til að greiða hærra kaup, að Vinnumátasambandið telur hinn 23. nóv. 1960 ófært að hækka kaup kvenþjóðarinnar einnar um 4% eftir eitt ár, en hálfu ári síðar, eða í júníbyrjun 1960, telur þetta sama vinnumálasamband unnt að hækka kaup verkamanna og iðnaðarmanna þá strax um 13–15% og kaup kvenna um 15–20%? Hvaða gerbreyting er það, sem átt hefur sér stað á greiðslugetu atvinnuveganna á tímabilinu frá 23. nóv. 1960 til júníbyrjunar 1961? Þessari spurningu vonast ég eindregið til að framsóknarmenn svari í þessum útvarpsumræðum. Þegar það svar hefur borizt, er unnt að rökræða þetta mál við þá frekar.

Karl Guðjónsson sagði í ræðu sinni í gærkvöld, að kjör manna hér hefðu versnað svo mjög, að færeyskir sjómenn fengjust ekki lengur til starfa á bátaflotanum. Hér er sannleikanum alveg snúið við. Ástæðurnar til þess, að færeyskir sjómenn eru að mestu hættir að koma hingað, eru tvær: Annars vegar, að skipafloti Færeyinga hefur aukizt svo mikið á síðustu árum, að þeir hafa minni þörf fyrir að leita sér atvinnu annars staðar heldur en áður. Hins vegar, að kjör bátasjómanna hér hafa batnað svo mikið, að það gengur miklu betur en áður að manna bátana Íslendingum. Er það að sjálfsögðu einn þáttur viðreisnarinnar að losna við að greiða árlega stórar fúlgur í erlendum gjaldeyri í vinnulaun.

Ágúst Þorvaldsson fór með staðlausa stafi í ræðu sinni í gærkvöld, er hann fullyrti, að okurlögin hefðu verið afnumin og felld niður refsing við því að taka okurvexti af lánsfé. Það, sem gerðist, var einungis, að löglegir hámarksvextir voru hækkaðir, en hver sem áskilur sér hærri vexti en þá, sem Seðlabankinn leyfir á hverjum tíma, sætir sömu refsingu og áður.

Hannibal Valdimarsson tók hér dæmi áðan af ungum hjónum, sem byggðu sér tveggja herbergja íbúð, og hversu miklar tekjur þau þyrftu að hafa til þess að geta byggt og staðið undir kostnaðinum. Hann gleymdi hins vegar alveg að gera grein fyrir og gera samanburð á því. hvernig aðstaða þessara sömu ungu hjóna var, á meðan hann var sjálfur félmrh. Ekki var hún betri þá. Hann reiknaði ekki heldur með, að hjónin legðu fram neina eigin vinnu til íbúðarbyggingar, sem þó er mjög almennt. Ég fullyrði, að atvinnumöguleikar eru nú svo miklir í landinu, að mörg ung og barnlaus hjón geta náð 100 þús. kr. árstekjum, og launin nýtast nú mun betur en áður, vegna hinna miklu skattalækkana.

Mjög kvað við annan tón hjá Hannibal Valdimarssyni um launamálin en meðan hann var sjálfur ráðh. í vinstri stjórninni. Þá talaði hann um, að verkalýðurinn yrði að fórna, og kvað jafnvel svo sterkt að orði, að kauphækkanir væru mútufé frá atvinnurekendum, til þess eins gerðar að skapa ríkisstj. erfiðleika.

Þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, hafði hér um langt árabil verið haldið uppi fölskum lífskjörum, sem byggðust á því, að erlendar skuldir höfðu sífellt farið vaxandi og þjóðin því eytt meira en hún aflaði. Hér varð því að snúa við blaðinu, og allir landsmenn urðu að færa fórnir, til þess að unnt væri að rétta við. Nú er erfiðasti hjallinn að baki. Árangur viðreisnarstefnunnar kemur m.a. fram í því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur viðurkennt batnandi gjaldeyrisstöðu okkar og Alþjóðabankinn hefur eftir 9 ára hlé á ný tekið að lána til framkvæmda hér á landi vegna traustari efnahags þjóðarinnar. Þetta hvort tveggja er okkur mjög mikils virði. Menn mega ekki einblína á framleiðsluaukninguna eina sem úrræði til að bæta hag landsmanna. Allt frá styrjaldarlokum hefur orðið hér allmikil framleiðsluaukning. En það hefur verið svo miklu til hennar kostað, að hún hefur ekki getað staðið undir bættum kjörum eða aukið kaupmátt launa. Hér hefur verið brestur í undirstöðunni. Viðreisnin stefnir að hagsýnni fjárfestingu og þeirri framleiðsluaukningu, sem gefur meiri arð en áður. Núv. ríkisstj. mun ekki leiða þjóðina fram á brún hengiflugsins. Með staðreyndirnar að leiðarljósi og áræðið í vegarnesti mun hún leiða þjóðina út úr ógöngunum og inn á greiðfærari brautir þroska og velfarnaðar. — Góða nótt.