13.04.1962
Sameinað þing: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (2397)

Almennar stjórnmálaumræður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það kom greinilega fram hjá hv. þm. Jóhanni Hafstein, að stjórnarliðið er svo skelkað orðið út af frystingu sparifjárins, að það er farið að halda því fram, að eiginlega hafi ekkert fé verið úr umferð dregið, allt haft í veltunni. Um þetta þarf ekkert að þræta, því að í skýrslu Seðlabankans nú fyrir tvö ár samfleytt er stjórnarstefnunni fært það mest til gildis, að mörg hundruð millj. hafa verið dregin inn úr bankakerfinu til Seðlabankans. Það heitir, að bankar og ríkisstofnanir hafi bætt aðstöðu sína gagnvart Seðlabankanum. Þar er frysta spariféð stærsti þátturinn og svo minnkuð lán út á afurðir. Þannig segir á bls. 11 í skýrslu Seðlabankans fyrir 1961: „Aðstaða banka og sparisjóða batnaði um 294 millj. kr. á árinu.“ Og á bls. 12, að staðan á reikningi ríkisins hafi batnað um 83 millj. Þetta er allt dregið úr bankakerfinu og frá ríkinu og úr veltunni og verður þess vegna atvinnulífinu ekki að neinu gagni.

Annar af ræðumönnum Alþfl., Jón Þorsteinsson, gerði sér mjög tíðrætt um þá setningu Ásgeirs Bjarnasonar, að valdafíknin dræpi alla heilbrigða skynsemi. Það er ekki undarlegt, þó að þeir Alþýðuflokksmenn staldri við þessa setningu. Sú var tíðin, að fáir voru betri talsmenn heilbrigðrar skynsemi en einmitt forustumenn Alþfl. Þá stóð Alþfl. fast við hlið framsóknarmanna og barðist fyrir bættum kjörum alþýðunnar í landinu. Nú er þetta gerbreytt. Í dag stendur Alþfl. fast við hlið íhaldsins og gengur jafnvel fram fyrir skjöldu til að verja óhæfuverk gegn alþýðu landsins. Vissulega er það rétt, að valdafíknin drepur heilbrigða skynsemi.

Hv. talsmenn stjórnarflokkanna hafa með forsrh. í fararbroddi mjög sungið þann brag, að hér hafi verið allt í rúst, þegar þeir komu til valda í árslok 1958. Þeir hafa hins vegar varazt að lýsa því nokkuð, hvernig þessar rústir voru. Ég skal hjálpa þeim nokkuð til að gera það.

Gjaldeyrisstaða bankanna í árslok 1958, þegar lausaskuldir eru meðtaldar, var svo að segja nákvæmlega hin sama og í árslok 1961, en stjórnarsinnar segja hana hafa verið mjög góða. Erlendar skuldir til langs tíma voru hins vegar um 600 millj, kr. lægri í árslok 1958 en í árslok 1961, reiknað með núv. gengi. Ríkissjóður skilaði miklum greiðsluafgangi á árinu 1958, og afkoma landbúnaðar og sjávarútvegs var með allra bezta móti, t.d. munu togararnir aldrei hafa borið sig betur síðan í stríðslok en þá útreikningar hagfræðinga sýndu, að hægt væri að tryggja þessa blómlegu afkomu þjóðarbúsins, ríkisbúsins og atvinnuveganna áfram, ef kaupmáttur launa yrði festur um sinn, eins og hann var í okt. 1958, en hann var þá verulega miklu meiri en nú. Þetta staðfestu hagfræðingar Sjálfstfl., er þeir gerðu eins konar úttekt við stjórnarskiptin í des. 1958. Um þessa festingu kaupmáttarins náðist hins vegar ekki samkomulag í vinstri stjórninni, og því hlaut verðbólgualda að rísa. Framsóknarmenn vildu ekki bera ábyrgð á slíku, því að þeir eru ófúsir að fella gengi krónunnar árlega eða gera aðrar álíka gagnslausar fálmráðstafanir, eins og hv. stjórnarflokkar víla ekki fyrir sér. Af þessu sundraðist vinstri stjórnin, en ekki vegna þess að afkoma þjóðarbúskaparins eða atvinnuveganna stæði illa. En mjög mega nú verkamenn og aðrir láglaunamenn harma það, að ekki var fallizt á tillögur Framsfl. um sama kaupmátt launa og í okt. 1958, því að þess vegna hafa þeir orðið að búa við miklu minni kaupmátt launa tvö seinustu árin.

Hæstv. viðskmrh. tók það að sér að minna menn hér á sannsögli, en hann gleymdi þó sjálfur þessari aðvörun sinni æði oft og ekki sízt þegar hann var að bera saman kaupmátt launa nú og í okt. 1958. Tímakaup Dagsbrúnarmanna er nú kr. 22.78, en var í okt. 1958 kr. 21.85 eða hefur hækkað um 4.5%. Framfærslukostnaðurinn er hins vegar 17% hærri nú en í okt. 1958, og er þá byggt á vísitöluútreikningum hagstofunnar, sem birtir eru í Hagtíðindum. Kaupmáttur tímakaupsins hefur því alltaf rýrnað um 12—13%. Eftirvinna hjá verkamönnum er sízt meiri nú en haustið 1958. Samt heldur hæstv. viðskmrh. því fram, að verkamannakjörin séu yfirleitt betri nú en 1958, og þykist ekkert segja nema hreinan sannleikann.

Hæstv. fjmrh. gumaði mjög af sparnaði ríkisstj. Hann nefndi sem dæmi, að milljón króna hefði sparazt við hið nýja efnahagskerfi vegna niðurfellingar innflutningsskrifstofunnar. Bankarnir annast nú framkvæmd hins nýja efnahagskerfis, og vilji menn fá réttan samanburð, verða þeir annars vegar að taka samanlagðan rekstrarkostnað ríkisbankanna og innflutningsskrifstofunnar 1959 og hins vegar samanlagðan rekstrarkostnað ríkisbankanna 1961. Slíkur samanburður mun vissulega leiða í ljós, að hér hefur enginn sparnaður átt sér stað.

En fyrst hæstv. fjmrh. er farinn að nefna dæmi um sparnað stjórnarflokkanna, skal ég nefna nokkur til viðbótar. Síðan núv. stjórnarflokkar komu til valda í árslok 1958, hefur þetta m.a. verið gert: alþingismönnum fjölgað um 8, bætt við einum ráðh., bætt við einum bankastjóra við Seðlabankann, bætt við einum bankastjóra við Búnaðarbankann, bætt við tveimur mönnum í bankaráð Seðlabankans, bætt við tveimur mönnum í bankaráð Búnaðarbankans, bætt við tveimur mönnum í stjórn sementsverksmiðju ríkisins, bætt við tveimur mönnum í síldarútvegsnefnd, bætt við einum manni í húsnæðismálastjórn, bætt við nýjum ráðuneytisstjóra og nýju óþörfu ráðuneyti, efnahagsmálaráðuneytinu, sett upp embætti saksóknara, án þess að nokkuð væri sparað mannahald í dómsmrn., er fór með þessi mál áður. Þannig mætti lengi telja áfram, hvernig hæstv. núv. ríkisstj. hefur fjölgað embættum og þá alveg sérstaklega bitlingum handa gæðingum sínum. Þannig hafa á milli 15 og 20 nefndir undirbúið þau mál, sem hafa verið lögð fyrir Alþingi í vetur, og allar fengið ríflega borgun. Ríkisútgjöldin hafa heldur aldrei hækkað hraðar en í valdatíð núv. stjórnar, þótt dregið hafi úr framlögum til verklegra framkvæmda. Svo kemur hæstv. fjmrh. og hælir ríkisstj. fyrir sparnað. Hæstv. fjmrh. sannar það víssulega, að hann er af skáldum kominn.

Hæstv. forsrh. gat þess hér í gærkvöld, að Svíar hefðu nýlega samið um 2–3% kauphækkun á ári. En Svíar hafa ekki tvívegis fellt gengið á undanförnum tveim árum. Svíar eru of miklir fjármálamenn til að trúa á gagnsemi tíðra gengisfellinga, heldur leggja allt kapp á að viðhalda sem stöðugustu verðgildi peninganna. Þess vegna þurftu launþegar í Svíþjóð ekki að vinna upp kjaraskerðingu af völdum gengisfellingar, er þeir gerðu kjarasamninga nú, og gátu því samið um litlar kauphækkanir. Sænskir launþegar fengu líka kauphækkun á árinu 1959, á árinu 1960 og árinu 1961, en íslenzkir launþegar hafa engar raunhæfar kauphækkanir fengið á þessum árum, þar sem kauphækkunin í fyrra var strax eyðilögð með gengisfellingunni. Hæstv. forsrh. reyndi helzt að réttlæta gengistækkunina í fyrra með því, að hún hefði verið nauðsynleg vegna sjávarútvegsins. Menn, sem þekkja miklu betur til útvegsmála en hæstv. ráðherrar og hagfræðingar þeirra, eru á allt öðru máli, því að á seinasta landsfundi útvegsmanna var hafnað að þakka ríkisstj. fyrir gengisfellinguna.

Meira en þrjú ár eru nú liðin síðan núv. stjórnarflokkar tóku höndum saman um stjórn landsins. Það er óumdeilanlegt, að á þessum 3 árum hafa þjóðartekjurnar vaxið verulega, og kemur þar sitthvað til greina, sem stjórnarstefnan hefur ekki haft nein áhrif á, eins og bætt aflabrögð af völdum útfærslu fiskveiðilandhelginnar, ný tæki við síldveiðar og hækkandi verðlag útflutningsvara á s.1. ári og það sem af er þessu ári. Þessi aukning þjóðarteknanna hefði þó getað orðið stórum meiri, ef stjórnin hefði ekki með stórhækkun vaxta og frystingu sparifjár skert og lamað framtak fjölmargra einstaklinga og fyrirtækja, sem að framleiðslu vinna. Með fullum sanni má því segja, að þjóðartekjurnar hafi aukizt þrátt fyrir stjórnarstefnuna, en ekki vegna hennar.

Sú spurning, sem hlýtur að vera ofarlega í hugum manna, er þessi: Hvernig hafa hinar auknu þjóðartekjur skipzt? Það er svarið við þessari spurningu öðru fremur, sem sker úr um það, hve stjórnarstefnan er réttlát og heiðarleg. Þessari spurningu getur hver og einn svarað bezt með því að skírskota til eigin reynslu, og reynsla veiflestra mun svara því, að lífskjörin eru lakari nú en þau voru í árslok 1958, þegar núv. stjórnarflokkar komu til valda. Samkvæmt útreikningi, sem hagfræðingar hafa gert fyrir Alþýðusamband Íslands og ekki hefur verið véfengdur, er kaupmáttur tímakaups verkamanna nú 16% minni en hann var í febr. 1960, þegar viðreisnarlöggjöfin tók gildi. Þessi kjararýrnun er óumdeilanleg hjá öllum þeim, sem ekki njóta fjölskyldubóta, en hjá þeim, sem njóta bótanna, er hún nokkru minni. Þetta gildir ekki aðeins um verkamenn, heldur velflesta iðnaðarmenn, opinbera starfsmenn, verzlunarfólk, skrifstofufólk hjá einkafyrirtækjum og þá síðast, en ekki sízt, bændastéttina. Þessar stéttir bera nú óumdeilanlega minna úr býtum en þær gerðu fyrir 2–3 árum, þegar þjóðartekjurnar voru þó talsvert minni.

En hvað hefur pá orðið af hinum auknu þjóðartekjum? Þær hafa runnið að mestu í vasa fárra auðmanna og auðfélaga, sem fást við milliliðastarfsemi og atvinnurekstur. Þessir aðilar hafa í skjóli gengisfellinganna, sem jafnan gera hinn ríka ríkari, og breyttra skattalaga náð til sín stórauknum hluta þjóðarteknanna, miðað við það, sem áður var. Misskiptingin í þjóðfélaginu hefur stóraukizt af þessum ástæðum. Hér er komið að kjarna viðreisnarinnar og jafnframt því, sem mest skilur á milli okkar framsóknarmanna og stjórnarfiokkanna. Við framsóknarmenn trúum því, að það sé ekki aðeins undirstaða réttlátra stjórnarhátta, heldur jafnframt eitt helzta afl framfaranna, að þjóðartekjunum sé skipt sem réttlátlegast hverju sinni, svo að sem allra flestir einstaklingar séu efnalega sjálfbjarga og leggi sitt af mörkum til framkvæmda og framfara. Foringjar stjórnarflokkanna trúa því, að til þess að hinir fáu sterku athafnamenn, eins og Einar ríki og Axel Kristjánsson, vilji leggja nægilega á sig, verði að skapa þeim góða gróðaaðstöðu og því verði ekki komizt hjá því að gera tekjuskiptinguna stórum ójafnari en hún var, á meðan Framsfl. mótaði stjórnarfarið. Þessi þjóðfélagsskoðun hæstv. ráðh., Ólafs Thors, Emils Jónssonar, Bjarna Benediktssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar, hefur ráðið því, að seinustu tvö árin hafa kjör alls fjöldans versnað þrátt fyrir vaxandi þjóðartekjur, en ýmsir auðmenn og auðfélög lifa meiri uppgangstíma en nokkru sinni fyrr. Það, sem þegar er komið á daginn í þessum efnum, er þó aðeins upphaf þess, sem verða mun, ef viðreisnarstefnan fær að drottna áfram.

Til þess að koma þessari stefnu fram hefur ríkisstj. einskis svifizt og beitt óspart valdníðslu og miklum hroka, en hins vegar reynzt ráðvillt og lítil fyrir sér, þegar til átaka hefur komið. Þannig réðst ríkisstj. af miklum gauragangi í gengisfellinguna í fyrrasumar og hugðist hafa allt í hendi sér. Hún neitaði með miklu steigurlæti að semja við verkfræðinga, en verður nú fyrir hönd ríkisins að sæta miklu lakari kjörum en henni buðust í upphafi. Hún lögfesti með skrumi 13% kauphækkun hjá samlagslæknum, en hefur nú fallizt á 46–70% kauphækkun þeim til handa. Hún hugðist beygja kennara með örlítilli kauphækkun á s.l. hausti, en hefur nú boðið þeim 10% kauphækkun til viðbótar, eftir að þeir hafa hótað með uppsögnum. Fleiri og fleiri bætast nú í þennan hóp, enda nú svo komið, að allt launakerfið er úr böndunum, hver reynir að hrifsa það, sem bezt hann getur, og flestir launasamningar meira eða minna sniðgengnir. Stjórnin sér nú líka það ráð vænst að gefa verkamönnum ádrátt um að fá aftur þá kauphækkun, sem hún tók af þeim með gengislækkuninni í fyrra, enda óstætt á öðru, eftir að Þeir, sem betur eru settir, hafa fengið kauphækkanir. En með þessu játar ríkisstj. líka bezt, hvílík hringavitleysa og ráðleysi gengislækkunin í fyrra var. Uppskeran er stóraukin verðbólga og alger upplausn í launamálum. En vitanlega geta þeir ekki setið hjá, sem ekkert hafa fengið, þegar ríkisstj. sjálf hefur hækkað laun hjá hinum og þessum. Þess getur enginn ætlazt til.

Þó að ég viðurkenni, að slík vinnubrögð sem verkfræðingar og læknar og kennarar hafa beitt séu óhjákvæmileg til viðnáms gegn þeirri stjórnarstefnu, sem nú er rekin, vil ég jafnframt láta þá skoðun hiklaust í ljós, að ég tel þau allt annað en æskileg, enda merki glundroða og upplausnar í þjóðfélaginu. Þegar valdhafarnir hins vegar misbeita valdi sínu, auka misrétti og ranglætí í þjóðfélaginu og stefna til úreltra og illra stjórnarhátta, er þegnunum ekki annar kostur búinn en að sækja rétt sinn, eftir því sem auðið er. Þá gilda orð skáldsins, að „þeir, sem stríði vilja verjast, verða stundum fyrst að berjast.“ En þetta er vissulega ekki sú framtíðarlausn, sem okkur ber að stefna að.

Fámenn og fátæk þjóð eins og Íslendingar, sem lifir í heimi harðrar samkeppni á milli þjóða, getur ekki haldið hlut sínum og rétti, nema hún sé sem samhentust. Því er næstum ekki ofsagt, að það sé sorglegast af öllu sorglegu, að hér skuli valdhafarnir hafa forustuna um að sundra þjóðinni með því að ætla að byggja hér upp úrelt þjóðfélag stríðandi stétta, þjóðfélag fárra auðmanna og fjölmenns efnalítils lýðs. Slíkri stjórn verður þjóðin að hafna, áður en hún eykur sundrung og upplausn meira en orðið er.

Mér hefur oft fundizt, að Íslendingar hafi flest skilyrði til að vera gæfusamasta þjóð í heimi. Við höfum hlotið að erfðum hið fegursta land, búið þeirri auðlegð, að hér geti búið mörgum sinnum fjölmennari þjóð, en jafnframt nógu harðbýlt land til að halda við hreysti og manndómi. Hér eru því næg framtíðarskilyrði fyrir vaxandi atorkuþjóð. Við höfum fengið að erfðum sögu, tungu og menningu, sem bæði getur verið okkar stolt og leiðarljós. Og það er ekkert yfirlæti, þótt því sé haldið fram, að Íslendingar séu í fremstu röð meðal þjóða hvað snertir flest atgervi. Enn koma skáld okkar, skákmenn og íþróttamenn í efstu sæti, þar sem keppt er á alþjóðlegum vettvangi. Námsmenn okkar standa engum aftar, þar sem þeir leiða saman hesta sína við námsmenn annarra þjóða. Við eigum vísindamenn og verkfræðinga, sem standa jafnfætis þeim, sem fremstir þykja í öðrum löndum. Sjómenn okkar, bændur og iðnaðarmenn mundu vel hlutgengir hvar sem væri. Við getum því örugglega treyst á land okkar og þjóð, ef ekki skortir rétta forustu og rétta stefnu.

Þar þarf að sjálfsögðu margs að gæta, en brennt skyldi þó haft fyrst í huga. Fyrst er það, að sökum fámennis okkar skiptir það enn meira máli hér en annars staðar, að valinn maður sé í hverju rúmi. Hér þarf því að leggja á það megináherzlu að skapa sem allra flestum einstaklingum möguleika til að njóta hæfileika sinna og framtaks, en meginundirstaða þess er efnahagslegt sjálfstæði. Ekkert vinnur meira gegn efnalegu sjálfstæði og framtaki hinna mörgu en að draga auðinn og yfirráðin í sem fæstar hendur, eins og er megintakmark núv. valdhafa. Annað það, sem við þurfum að gæta, er að forðast sem mest stéttasundrung og láta samvinnuanda og bræðraþel móta sem mest þjóðfélagshættina. Ekkert vinnur meira gegn þessu en sú stefna aukinnar stéttaskiptingar í ríka menn og fátæka, sem núv. ríkisstj. beitir sér fyrir. Í þriðja lagi þurfum við að hefja sókn umbóta, uppbyggingar á öllum sviðum þjóðfélagsins til þess að auka sem mest þjóðartekjurnar og þjóðarauðinn, en leggja ekki hina dauðu hönd vaxtaokurs og sparifjárfrystingar á framtak atorkumanna, eins og núv. ríkisstj. sannarlega gerir. Af öllum þessum ástæðum krefst þjóðarheill þess, að þeirri stjórnarstefnu, sem nú er fylgt, verði hrundið og tekin upp stefna, sem miðar að því að tryggja hag og framtak hinna mörgu einstaklinga, stuðlar að því að draga úr stéttadeilunum og tryggja sem mestar framfarir og uppbyggingu sem mögulegt er.