10.11.1961
Neðri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2696 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Út af þessari fyrirspurn þykir mér rétt að upplýsa, að þegar varnarliðið á Keflavíkurflugvelli byrjaði á sínum tíma rekstur útvarpsstöðvar sinnar, mun það hafa fengið leyfi ríkisútvarpsins til þess. Á árinu 1955 leitaði varnarliðið eftir því að fá að starfrækja sjónvarpsstöð á Keflavíkurflugvelli. Umsókn um þetta var send til póst- og simamálastjóra, sem samkvæmt réttum lögum á að ákveða um það, hvort vissar bylgjulengdir skuli leyfðar eða ekki. í samráði við útvarpsstjóra gaf póst- og símamálastjóri út þann 4. marz 1955 leyfi til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli til að reka sjónvarpsstöð, en samkvæmt ósk utanrrn. voru sett fyrir þessu leyfi viss skilyrði, bæði af því er varðaði styrkleika stöðvarinnar og þann hring, sem sjónvarpið mátti ná til.

Á þessu ári sneri varnarliðið sér aftur til póst- og simamálastjóra og tjáði honum, að sjónvarpsstöð sú, sem rekin hefði verið á Keflavíkurflugvelli, væri orðin mjög úr sér gengin, þannig að lítt væri mögulegt að reka hana áfram, auk þess sem styrkleiki hennar væri allt of lítill. Leitaði varnarliðið eftir því að fá að setja þarna upp nýja stöð með meiri styrkleika en sú hafði, sem fyrir var. Póst og símamálastjóri athugaði þessa umsókn og hafði samráð um afgreiðslu hennar við ríkisútvarpið. Eftir þá athugun ritaði póst- og símamálastjóri utanrrn. bréf, skýrði frá umsókninni og því jafnframt, að póst- og símamálastjóri og útvarpið væru á einu máli um að veita þetta umbeðna leyfi, og spurðist fyrir um það, hvort utanrrn. hefði nokkuð við það að athuga, að slíkt leyfi væri veitt. Utanrrn. svaraði fyrir sitt leyti, að það hefði ekkert við leyfið að athuga, og mun póst- og símamálastjóri síðan hafa gefið það út.

Það skal tekið fram, að reynslan hafði sýnt, að sú takmörkun, sem sett var á styrkleika stöðvarinnar og þess hrings, sem sjónvarpið mátti taka til, og ætlazt var til að leiddi til þess, að þetta sæist ekki hér í Reykjavík, það hafði tiltölulega litla þýðingu í framkvæmd, því að sjónvarpið sást næstum því með sama hætti í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli, og komst póst- og símamálastjóri að þeirri niðurstöðu, að ástæðulaust væri að vera með þessi skilyrði, og féll utanrrn. því fyrir sitt leyti frá skilyrðunum. Svarið við spurningunni er því sem sagt það, að póst- og simamálastjóri hefur veitt þetta leyfi í samráði við ríkisútvarpið og með samþykki utanrrn.