24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er eitthvað að hæstv. utanrrh., þegar hann telur ástæðu til að koma hér í pontuna til að fara að segja okkur þm., hvað sé að gerast. Það er auðséð, að samvizkan hlýtur að vera alveg sérstaklega slæm hjá honum. Við erum vanir því yfirleitt, þegar eitthvað gerist í utanríkismálum okkar Íslendinga, að þá heyrum við fréttir frá London um, hvað sé að gerast, hvað sé í undirbúningi. Það er ekki vani, að hæstv. utanrrh. hafi fyrir því að skýra Alþingi frá, þegar hann er að undirbúa að svíkja þjóðina. Það er auðséð þess vegna, að samvizkan hlýtur að vera alveg sérstaklega slæm núna hjá hæstv. utanrrh., þegar hann telur ástæðu til að fara að koma upp til þess að afneita. Það er vani hinna æfðu stjórnmálamanna nú orðið og alveg sérstaklega diplómatanna og þeirra, sem eitthvað hafa átt við þá hluti, að fara alltaf, þegar þeir eru eitthvað að gera, að afneita og afneita, afneita nógu lengi, þangað til hluturinn er gerður. Við vitum, að þetta er fyrsta regla diplómatsins, og við höfum meira að segja stundum verið að finna að því, eins og þegar hæstv. fjmrh. fer að tala um, að það eigi endilega að lækka gengið á Íslandi, að þetta samrýmist ekki reglum diplómatsins, að það eigi að þegja yfir slíku, þangað til þeir gera það. En ég sé, að þetta hefur komið alveg sérstaklega illa við hæstv. utanrrh.

Við, sem munum eitthvað lengra í íslenzkum utanríkismálum, vitum ósköp vel, að þegar Þjóðviljinn hefur sagt frá í tíma því, sem verið er að undirbúa, og náttúrlega hefur því verið afneitað og náttúrlega verið lýst yfir, hvílíkur viðbjóður það væri, að Þjóðviljinn skyldi segja frá svona hlutum, þá hefur það orðið þó til þess að fresta þeim hlutum um vissan tíma. Máske ég megi minna hæstv. utanrrh. á, ef hann hefur fylgzt svo vel með í stjórnmálum, þegar í febr. 1941, fyrir réttum 20 árum, Þjóðviljinn sagði frá því, að Bandaríkjamenn væru að fara fram á, að þeir fengju hér herstöðvar á Íslandi. Auðvitað var þessu afneitað. Auðvitað var því lýst yfir, að þetta væru hreinustu ósannindi. Ég man ekki, hvort það voru notuð orð eins og viðbjóður og annað slíkt. En hvað kom svo í ljós seinna? Það kom í ljós, að í febr. 1941 voru Bandaríkin albúin að setja her á land hér, en urðu að fresta því þangað til í júlíbyrjun 1941, vegna þess að það hafði komizt upp um fyrirætlanirnar á Íslandi, hreinlega vegna þess, vegna þess að það hafði verið sagt frá því hérna heima, og það þótti þess vegna ekki fært.

Við skulum tala alveg hreint og rólega um þessa hluti. Mér þykir að vísu mjög gott, ef samvizkan fer að slá hæstv. utanrrh., því að það hefur ekki farið mikið fyrir því á undanförnum árum. Við höfum fengið að vita af því í sambandi við landhelgismálið, þegar umr. hafa verið um það á undanförnum árum, að hæstv. utanrrh. hefur ekki verið að hafa fyrir því, hvað þar væri að gerast, og það hefur dyggilega verið neitað öllu og öllum samningum, þangað til þeir voru komnir það langt, að það var svo að segja búið að semja. Þetta hefur verið siður. Eins og þurfi nokkuð að vera að nota stór orð um þessa hluti hérna?

En hins vegar skal ég vissulega viðurkenna, að það hafa verið notuð stór orð hérna áður. Ég hef sjálfur staðið í því hérna að koma með þá fsp., um það leyti sem Hitler fór fram á að fá aðstöðu til að geta lent flugvélum hérna á Íslandi, — ég held ég muni það rétt, að Það hafi verið 15. marz 1939, — og ég kom með þá fsp. til þáverandi ríkisstjórnar á Íslandi, hvort þetta væri rétt, og hæstv. ríkisstj. var það hreinskitin, hún sagði frá, að þetta vært rétt, sagði frá því, að það væri þá nefnd á leiðinni. Og það urðu út frá því mjög „interessant“ orðahnippingar, vegna þess að mér hafði heyrzt hæstv. forsrh. þá segja: „um leið og Emden kæmi“, herskipið Emden var þá á leiðinni hingað, en hann hélt því fram eftir á, að hann hefði sagt „nefndin“. Hins vegar hafði verið skrifað Emden upphaflega af þingskrifaranum, og ég hafði sent þessa frétt út um heim til þess að vekja eftirtekt á því, að Hitler hefði mikinn augastað á Íslandi. Ég fékk það framan í mig daginn eftir, þegar heimsblöðin, bæði austanhafs og vestan, birtu þessar fréttir, að þetta væru landráð af mér, að hafa sent skeyti út um það, að Hitler hefði augastað á Íslandi til fluglendingarstöðva. Við erum vanir þessum stóru orðum frá þeim, sem á hverjum tíma hafa hér eitthvað að segja, þegar við erum að reyna að sýna fram á, hvað sé að gerast í þessum efnum. Það er því alveg óþarfi fyrir hæstv. utanrrh., þó að hann sé búinn fyrst að sverja í sambandi við landhelgismálin og síðan að svíkja, fyrst gagnvart Englendingum og siðan Vestur-Þjóðverjum, að vera að nota einhver hrottaleg orð núna.

Má ég spyrja: Eru ekki Vestur-Þjóðverjar vorir ágætu bandamenn? Er hann ekki alveg sérstaklega hrifinn af þessum Vestur-Þjóðverjum? Eru þetta ekki vinir okkar og verndarar? Má ég spyrja: Hafa ekki þessir Vestur-Þjóðverjar sérstakar æfingastöðvar í Englandi og Frakklandi? Er þetta einhver voðaleg synd, ef þeir ætla sér að koma upp æfingastöðvum á Íslandi, frá sjónarmiði hæstv. utanrrh.? Er það ekki bara til þess að gera verndina enn þá miklu betri? Ef hann skyldi ekki treysta alveg amerísku hermönnunum á Keflavíkurflugvelli, vegna þess að þeir kynnu að vera í svalli og fylliríi, þegar sú voðalega rússneska árás nálgaðist, fyndist honum þá ekki alveg ágætt að auka verndina með því að fá Vestur-Þjóðverja skólaða í skóla Hitlers? Hvað er eiginlega hæstv. utanrrh. að derra sig í þessum málum? Er hann ekki búinn að koma Íslandi inn í þetta þokkalega bandalag? Er hann ekki farinn að sjá um að koma íslenzkum stúlkum hér áleiðis á Keflavíkurflugvöll, svo að a.m.k. hermönnum leiðist þar ekki? Eins og einhverjum detti í hug, að þessi maður fari að verða þess vegna eitthvað reiður raunverulega yfir því, að það komi vestur-þýzkir hermenn hingað til Íslands? Eins og við getum ekki trúað hverju sem er upp á hæstv. utanrrh.

Við heyrum sagt, að hinn vestur-þýzka her, sem sé sterkasti og bezti her Atlantshafsbandalagsins og þar með vafalaust lýðræðisins í Evrópu, vanti tilfinnanlega æfingastöðvar. Við vitum, að vinir vorir og frændur, Danir, eiga bágt með að láta þeim æfingastöðvar í té, vegna þess að landið er svo lítið og það er svo vel ræktað, að þó að Þjóðverjar séu að kaupa þar upp sumarhús og byggja þar sumarhús, þá gengur á landbúnaðinn danska, vegna þess að ræktunin minnkar ár frá ári. Þeir geta ekki séð af þessu undir herstöðvar. Hér á Íslandi er Sprengisandur og Ódáðahraun og öll okkar óbyggð. Skyldi nokkrum manni finnast það undarlegt, þó að þessir vinir og bandamenn, sem þessir hæstv. ráðh. hafa kosið sér, færu að sækjast eftir þessu hér á Íslandi? Ég held, að hæstv. utanrrh. ætti ekki að afneita svona skarplega, nema þá hann vilji lýsa því yfir, að það komi aldrei til mála, aldrei nokkurn tíma við neinar aðstæður, að Vestur-Þjóðverjar fái nokkra aðstöðu á Íslandi. Vill hann gera svo vel að lýsa yfir, að aldrei, aldrei muni af hálfu núv. stjórnarflokka vera fallizt á það, að Vestur-Þjóðverjum verði leyfð nokkur aðstaða á Íslandi, — aldrei, — vill hann gefa þá yfirlýsingu, — hvorki í Ódáðahrauni né á Sprengisandi né annars staðar, ekki til neinna ódáða né annars? Þá fer e.t.v. að vera eitthvert mark takandi á þessu.

Fyrst hann er allt í einu farinn að verða svona tölugur um, hvað sé að gerast í utanríkismálum, máske hann vilji þá fara að segja okkur dálítið nákvæmar frá því eða fá til þess samráðherra sina, sem sitja næstir honum, hvað þeir voru að gera suður í Bonn í haust, í september, hvaða samtöl þeir áttu þar við ráðamenn í þýzku ríkisstj., hæstv, viðskmrh. og hæstv. fjmrh. Kannske hæstv. utanrrh., sem þeir hafa vafalaust gefið skýrslu, vilji fara að upplýsa okkur um það, hvort þeir hafa t.d. verið að þreifa fyrir sér viðvíkjandi Efnahagsbandalaginu og hvernig Bonn-stjórnin, sem nú er að verða ein voldugasta stjórnin í Vestur-Evrópu viðvíkjandi Efnahagsbandalaginu, mundi taka í það, að Ísland færi inn í Efnahagsbandalagið, hvers konar undirtektir þeir hafi fengið undir Það að fá alls konar undanþágur í því sambandi. Ég veit því miður ekki um þessar viðræður. Máske utanrrh. vilji upplýsa okkur um þær. En máske Vestur-Þjóðverjum hafi dottið í hug á eftir, þegar verið var að fara fram á allar Þessar undanþágur, sem við Íslendingar þyrftum, ef við ættum að ganga inn í Efnahagsbandalagið, að e.t.v. mundi afstaðan breytast eitthvað á Íslandi og í Þýzkalandi líka, ef t.d. Vestur-Þjóðverjum yrði auðið að fá æfingastöðvar hérna á Íslandi, þær vantar tilfinnanlega. Máske þeir yrðu þá eitthvað mildari viðvíkjandi undanþágunum í sambandi við Efnahagsbandalagið. Máske Vestur-Þjóðverjum hafi dottið það í hug á eftir, þegar þeir heyrðu, hvað þessir tveir íslenzku ráðh. voru áfjáðir í það að fá alls konar undanþágur í sambandi við inngöngu í Efnahagsbandalagið: hví skyldum við ekki geta gefið þessum vesalings Íslendingum einhverjar undanþágur í sambandi við Efnahagsbandalagið, svo framarlega sem þeir létu okkur hafa einhverjar undanþágur á Íslandi, t.d. fyrir æfingastöðvar? Ég býst ekki við, að þeir hafi minnzt á þetta við ráðh., þegar þeir voru í Bonn, en hver veit, nema þeim hafi dottið það í hug á eftir. Er ekki staðreynd, að það er búið að taka upp samninga við Bonn, að það er verið að leita fyrir sér í Bonn, að það er verið að betla á vestur-þýzku stjórninni um undanþágur? Er það ekki staðreynd? Og ætli það séu aðrir líklegri til þess en þeir að fara að færa sig upp á skaftið og fara þá að heimta einhverjar undanþágur hérna á móti.

Svo að ég taki mér orð hæstv. utanrrh. í munn, hann verður að gá að því, að menn furðar ekki á neinu, menn furðar ekki á neinu, sem þessi hæstv. ríkisstj. gerir. Ísland hefur nýlega orðið fyrir árásum af Englendingum, hernaðarlegum árásum af Bretlandi, okkar bandamanni. Og hvað var gert? Það var svo sem ekki verið að kæra það. Það var svo sem ekki verið að gera ráðstafanir á móti því. Nei, það var einfaldlega samið við þá, farið eftir þeirra fyrirmælum og þeir látnir fá það, sem þeir vildu. Og því var lýst sem stórsigri Íslands.

En þetta er nokkurn veginn alveg gefið, að um það leyti sem hæstv. utanrrh. kemur með fínt bréf upp á vasann hér fyrir Alþingi, sem segir: Nú verður að undirskrifa í snarhasti. Við fáum hvorki meira né minna en að innlima Ísland í Efnahagsbandalagið — hvílíkur stórsigur — og þurfum ekkert að láta nema smáæfingastöðvar fyrir Vestur-Þjóðverja, Ódáðahraunið eða Sprengisandinn eða eitthvað svoleiðis, — eins og maður sjái ekki fyrirsagnirnar í Morgunblaðinu: Stórsigur fyrir íslenzkt þjóðfrelsi. Dettur hæstv. utanrrh. í hug, að nokkur maður hér á Alþingi eða hjá þjóðinni yfirleitt taki hann alvarlega í þessum efnum? Maður metur náttúrlega við hann, að hann sé það vel að sér í diplómatískri kunnáttu, að hann kunni þó að afneita. Hingað til hefur hann verið ónýtur við þetta, en ég sé, að honum er að fara fram. Þess vegna mun þjóðin vafalaust halda áfram að fylgjast með þessu máli. Það er enginn efi á því, að það er engrar varðstöðu að vænta frá hæstv. utanrrh.