24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundason):

Hv. forseti. í tilefni af grein Þjóðviljans í morgun, þá sá ég ástæðu til að skýra þingheimi frá því, að í nefndri grein væri farið með tilhæfulaus ósannindi. Mér fannst líka ástæða til að benda á, að þessi ósannindi eru borin fram á mjög þýðingarmikilli örlagastund finnsku þjóðarinnar, nákvæmlega á þeim sama tíma, sem forseti Finnlands er að setjast að samningaborðinu með forsætisráðherra Sovétríkjanna um jafnþýðingarmikið mál og þar er á ferðinni, mál, sem af hálfu Sovétríkjanna hefur verið flutt á grundvelli þess, að Vestur-Þjóðverjar hefðu árás í hug á Sovétríkin, og þessi fullyrðing af hálfu Ráðstjórnarríkjanna verið byggð á því m.a., að varnarmálaráðherra Vestur-Þjóðverja hefur nýlega verið á ferðinni í Osló, auk þess sem rætt hefur verið um aðild Vestur-Þjóðverja að yfirstjórn Eystrasaltsflota Dana. Ég benti á í minni ræðu, hvað það væri alvarlegt að leyfa sér að skrökva upp jafnþýðingarmikilli fregn og hér er skrökvað upp og einmitt á því augnabliki, sem hér er um að ræða.

Hv. 3. þm. Reykv. sá ástæðu til að taka til máls um þetta mál, og átti ég von á því. En hann ræddi um málið með mjög undarlegum hætti. Hann lagði mesta áherzlu á að ræða um allt annað en það, sem hér hefur nú raunverulega verið hreyft. Hann talaði um landhelgismálið fram og aftur, sem ekkert kemur þessu máli við, og hann dró jafnvel umr. um Efnahagsbandalagið inn í þetta mál. Landhelgismálið, Efnahagsbandalagið og öll slík mál koma þessari frétt út af fyrir sig ekkert við. Því er lýst yfir, að fréttin sé röng, því að hún er röng. Og það er fordæmt, með hverjum hætti og á hvaða tíma hún er borin fram. Þetta eru staðreyndir, sem ekki verður komizt fram hjá, hvað mikið sem hv. 3. þm. Reykv. vill um önnur og óskyld mál ræða.

En hann gerði annað og meira. Hann fór að dylgja með það, að fréttin kynni nú að vera sönn. Og þessar dylgjur voru m.a. í því fólgnar að hreyfa því hér, hvað tveir íslenzkir ráðherrar hafi verið að ræða, þegar þeir voru á ferðinni í Bonn fyrir nokkru. Frá þessu hefur verið skýrt. Þetta er ekkert leyndarmál. Ferð þeirra hafði verið undirbúin áður. Þeir áttu leið þarna um. Þeir áttu erindi við þá ráðherra, sem þeir ræddu við, en það kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við, þó að hv. 3. þm. Reykv. sé að reyna að nota þessa ferð þessara tveggja ráðh. sem dylgjur til þess að undirbyggja hina ósönnu fregn Þjóðviljans, sem birt var þar í morgun. Ég verð að segja, að þetta er næsta lúalega að farið. Þessi hv. þm. rifjaði líka upp í ræðu sinni, að fyrir allmörgum árum hafi hann hreyft því hér á Alþingi, að Hitler hefði augastað á Íslandi sem lendingarstöð fyrir flugvélar. Ég man nú ekki eftir þessu máll. En þessi hv. þm. bætti því við, að hann hefði símað fregnina af þessum umr. út um allan heim. Og er það ekki eitthvað svipað, sem er verið að undirbúa og er á ferðinni hér? Þjóðviljinn býr til fregnina um viðræður Þjóðverja við Íslendinga út af þýzkum herstöðvum á Íslandi. Síðan á að síma þessa fregn út um allan heim, koma henni í heimspressuna, og ég held, að við þurfum ekki að vera í neinum vafa um, hvernig svona fregn mundi verða notuð af þeim, sem Finnar eru að ræða við þessa stundina. Tilgangurinn leynir sér ekki.

En fyrst hv. 3. þm. Reykv. er að dylgja með, að fregnin kunni að vera sönn, og vill draga í efa mín andmæli, þá vil ég gjarnan minna hann á, að í Þjóðviljanum stendur. að blaðið hafi örugga heimild fyrir þessari fregn. Ég skora á hv. 3. þm. Reykv., ég skora á Þjóðviljann að upplýsa, hver þessi örugga heimild sé. Ég skora á þá að tilgreina, hvaðan þeir hafa þessa heimild. Ef þeir ekki geta það, ef þeir ekki vilja gera það, þá er það vegna þess, sem auðvitað er það sanna, að Þeir hafa sjálfir skrökvað fregninni upp. Og það væri miklu sæmra fyrir hv. 3. þm. Reykv. að gera grein fyrir sínum heimildum, ef hann hyggst hafa þær, heldur en að vera hér með ósæmilegar og ómaklegar dylgjur.

Hv. 3. þm. Reykv. óskaði eftir því, að ég lýsti því yfir, að Íslendingar muni aldrei um alla framtíð fá Vestur-Þjóðverjum neina hernaðaraðstöðu á Íslandi. Út af þessari kröfu hans vil ég aðeins segja það, að til slíkrar yfirlýsingar er ekkert tilefni og ég er alls ekki maður til að gefa yfirlýsingu fyrir Íslendinga um alla framtið í þessu efnum. Slík yfirlýsing frá mér væri að sjáifsögðu einskis virði. Hinu lýsi ég yfir og lýsi því afdráttarlaust yfir, að allar fullyrðingar og allar dylgjur um það, að nokkrar viðræður hafi átt sér stað við Þjóðverja eða nokkur málaleitun hafi komið fram af þeirra hálfu um það að fá hér hernaðaraðstöðu, eru tilhæfulausar með öllu.