24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (2412)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forsrh. beindi þeirri fsp. til mín, hvað ég áliti um þessa frétt. Ef ég á að segja honum alveg satt, þá vil ég segja það, að ég er dauðhræddur um, að hún sé rétt. Ég er dauðhræddur um, að hún sé rétt. Ég veit ekkert meira um hana en það, sem stendur í Þjóðviljanum, en reynsla mín er sú, að af öllu því, sem gerzt hefur á þessum 25 árum, sem ég hef bráðum setið hér á Alþingi, þá hefur það því miður, — og það undirstrika ég, — því miður verið svo, að þegar svona fréttir hafa komið hjá okkur í Þjóðviljanum, og um tíma hafði ég sjálfur allmikið með hann að gera, þá hefur það því miður reynzt svo, að þetta hefur reynzt rétt. Þetta er sú sorglega saga. Yfirlýsingar, sem Alþingi hefur gefið hér hvað eftir annað, eins og þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar 1946, um, að við mundum aldrei leyfa einu sinni Sameinuðu þjóðunum herstöðvar hérna á Íslandi, þessar yfirlýsingar eru allar saman eyðilagðar rétt á eftir. Þetta er það sorglega, sem maður hefur lifað í sambandi við þessi mál, og þess vegna er maður orðinn svona. Þó að ég sé yfirleitt heldur bjartsýnn maður, þá er maður orðinn svona svartsýnn á okkar hæstv. núv. valdhafa, að við treystum þeim ekki í þessum málum. Jafnvel þegar við heyrum eitthvað ljótt eins og þetta, þá erum við hræddir um, að þetta kunni að vera rétt.

Því er blandað hér inn i, að þetta kunni að hafa einhver áhrif í sambandi við þá samninga, sem Finnar og Rússar eiga í, að þetta geti verið eitthvað skaðsamlegt Finnum. Mikil þykir mér nú þessi fantasía vera. Ég fyrir mitt leyti óska Finnum alls góðs í þeim samningum, sem þeir eiga í, og ég fæ ekki séð, hvernig það gæti að einhverju leyti bætt á þær hættur, sem t.d. Sovétríkin kynnu að álíta sér stafa frá herstöðvum hér á Íslandi, þar sem Bandaríkjamenn hafa hér herstöðvar alveg fullkomlega útbúnar, þó að Vestur-Þjóðverjar fengju hér æfingastöðvar. Ég sé ekki, hvernig ætti að vera hægt að nota það frá hernaðarfræðilegu sjónarmiði. Vitað er þó, að Vestur-Þjóðverjar og Bandaríkjamenn eru bandamenn, að Vestur-Þjóðverjar búast við því sjálfir, eftir yfirlýsingum landvarnaráðherrans Strauss, að fá kjarnorkuvopn á árinu 1962, og að ein höfuðástæðan til þess, að svo óvænlega lítur út í heimsmálunum og nú lítur út, er sú, að Sovétríkin vilja gefa í skyn, að þau vilji ekki bíða eftir því, að Vestur-Þjóðverjar séu búnir að fá kjarnorkuvopn. Og ég skil þó varla í, þótt ég sé ekki mikill herfræðingur, að það ætti að vera einhver sérstök ógnun fyrir Sovétríkin, þótt jafnvel Vestur-Þjóðverjar hefðu æfingastöðvar hérna, svo framarlega sem þeir kæmu upp kjarnorkuvopnum bæði í Vestur-Þýzkalandi og öðrum hlutum heims, sem liggja þó nær þeim en hér. Ég fæ þess vegna ekki séð sambandið þarna á milli, nema það, sem menn eru að reyna að skapa í áróðursskyni. Mér finnst það ósköp kjánalegt. Það er nokkurn veginn vitanlegt, að Sovétríkin líta varla svo á, að þeim stafi hætta af Vestur-Þjóðverjum einum. Það er ekki það, sem þarna liggur á bak við. Þeir búast varla við því, að Vestur-Þjóðverjar fari einir til árása. Þeir búast við því, að Vestur-Þjóðverjar kunni að fá sína bandamenn með út í styrjöld með því að blása þetta einhvern veginn upp, án þess að Bandaríkin og aðrir, sem vildu kannske vera gætnari, réðu þarna við, — þannig að ef þetta er athugað frá einhverju herstöðvalegu sjónarmiði, þá sé ég ekki, hvernig mönnum dettur í hug að fara að blanda slíku saman. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég óska Finnum alls góðs í þeim samningum, sem þeir eiga í. En minn hugur er hins vegar fyrst og fremst hjá eigin þjóð í þessum efnum.

Mér lízt ekki á þá samninga, sem verið er að gera viðvíkjandi okkar eigin þjóð, á þá samninga, sem þegar hafa verið gerðir um herstöðvar hérna, á þann sið, sem nú er farinn að viðgangast, að fara meira að segja að leyfa Bandaríkjunum að koma upp sjónvarpi á Keflavíkurflugvelli, að fara svo að segja að undirlagi utanrrn. að senda íslenzkar stúlkur inn á Keflavíkurflugvöll, að gera ráðstafanir til að spilla okkar þjóð og eyðileggja okkar þjóð og vinna svo þar að auki að því að ætla að innlima okkur í þetta stórþýzka ríki, sem er að rísa upp undir nafni Efnahagsbandalagsins, og skapa þar með þá hættu að þurrka út okkar þjóðerni. Þrátt fyrir samúð okkar allra saman með Finnum ber okkur að hugsa um okkar eigin þjóð nú og láta ekki gera ráðstafanir til að þurrka hana út, eins og verið er að gera ráðstafanir til með því að hefja þá samninga um inngöngu í Efnahagsbandalagið, sem nú er verið að gera, því að það sér hver maður, að þegar svo langt er komið, að erlent auðmagn og erlendir verkamenn streyma inn hér á Íslandi og ná tökunum hér á Íslandi, þá förum við að verða minni hluti, okkar eigin þjóð. Ég held þess vegna, að þeim mönnum, sem tala svona hjartnæmt núna um Finna, — og tek ég vissulega undir það hjá þeim, — bæri að hugsa ofur lítið meira um eigin þjóð í þessum efnum.

Svo kom hæstv. utanrrh. að því, að líklega yrði nú þetta símað út um allan heim. Ekki skal ég segja um það. Ég vissi, að það var nú svo, þótt ekki væri símað nema til Kaupmannahafnar, þegar þetta gerðist, sem hann var að tala um 1939, þá fékk ég skeyti hér til Alþingis eitthvað tveim dögum síðar frá Bandaríkjunum, þar sem var farið fram á að síma þangað, hvers konar samningaumleitanir þetta væru, sem Þýzkaland hefði farið fram á.

Ég fór fram á eitt við hæstv. utanrrh. einmitt í sambandi við það, sem hann kallaði ósæmilegar dylgjur hjá mér nú í síðustu ræðu. Ég fór fram á eitt, einn einasta hlut, og það til þess að sannreyna, hvort það væri nú alveg áreiðanlegt, að það væri enginn fótur fyrir þessu, sem ég mjög gjarnan vildi mega trúa. Ég fór fram á eitt, ég fór fram á, að hæstv. utanrrh. gæfi þá yfirlýsingu, að hann vildi lýsa því yfir, að það yrði aldrei látið undan með það að láta Vestur-Þjóðverjum í té æfingastöðvar eða herstöðvar á Íslandi. Og þá kom hæstv. utanrrh. hér upp, þó hendur sínar sem Pilatus forðum og sagði: Hvernig á ég, vesæll maður, að lýsa því yfir fyrir Íslands hönd, — hann sagði þetta ekki orðrétt, en nokkurn veginn svona var andinn í þessu samt, — að Ísland muni aldrei láta neinar herstöðvar eða æfingastöðvar til Vestur-Þjóðverja, lýsa því yfir um alla framtíð? — Má ég nú spyrja hæstv. utanrrh.: Er hann ekki, vesæll maður, búinn nýlega að gera einn samning, þar sem því er lýst yfir um alla framtið, að Ísland muni ætíð leita til dómstólsins í Haag, ef sá dómstóil skyldi standa um alla framtíð, ef Íslendingar ætluðu sér að útvikka sina eigin landhelgi? M.ö.o.: ef hæstv. utanrrh, vill standa við þetta, og skyldi ég með mikilli ánægju samfylkja með honum í því, þá getum við bara lagt hér fyrir Alþingi eina yfirlýsingu, þar sem við tökum fram, að það gildi fyrir alla framtið óuppsegjanlegt, eins og hann skýrði þann samning, að aldrei muni Vestur-Þjóðverjar fá æfingastöðvar né herstöðvar á Íslandi. Skyldum við ekki geta komið því þannig fyrir, skyldi ekki lögfræðingurinn, sem fann út landhelgissamninginn, þennan óuppsegjanlega um alla framtíð, þann fyrsta, sem Ísland hefur gert þannig, a.m.k. um nokkrar aldir, — skyldi hann ekki geta fundið út aðferð til þess að lýsa yfir, að það muni aldrei koma til, að Íslendingar geri slíkt? Ég sé ekki annað en við ættum að geta sameinazt um þetta og þar með bjarga vinum vorum Finnum, sem sumir halda að við séum að setja í einhverja erfiðleika með þessu, lýsa því yfir, hugga þá og hugga Rússa, sem þeir virðast bera svona mikla umhyggju fyrir núna, hæstv. utanrrh. og fleiri, um, að hér muni vestur-þýzkur her aldrei fá neinar æfingastöðvar né herstöðvar. Skyldum við ekki vera menn til þess að lýsa því yfir, við sem nú sitjum á Alþingi, jafngilt og hinu var lýst yfir um óuppsegjanlega landhelgissamninginn? Það mundi þá a.m.k. sýna, að allir flokkar á Alþingi, þeir sem nú eru, væru sammála um þetta nú, og það mundi þá a.m.k. ótvírætt gilda, á meðan þeir allir saman hefðu eitthvert vald í íslenzkum stjórnmálum, og bágt á ég með að trúa, að svo miklar byltingar verði hjá okkur, að það verði ekki næstu áratugina nokkurn veginn flokkar, sem hafa meira eða minna að gera með stjórnmálin hér heima. Ég býð hæstv. utanrrh. upp á það, að allir flokkar hér á Alþingi sameinist um að lýsa því yfir, að það tjói aldrei fyrir vestur-þýzka stjórn að reyna að fara hér fram á neinar æfingastöðvar né herstöðvar, því að allir þessir flokkar séu sammála um það fyrir alla framtíð, á meðan þeir ráði einhverju á Íslandi, að segja nei við öllum slíkum tilmælum. Þá erum við búnir að þvo okkar hendur og sameinast um þetta mál.