24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2715 í B-deild Alþingistíðinda. (2413)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediksson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. gerði ekki það, sem hann sem góður drengur og víðsýnn stjórnmálamaður, vitandi, hvaða áhrif orð hans hafa, ekki sízt austur í Rússlandi, átti að lýsa yfir, að fregn Þjóðviljans væri með öllu tilhæfulaus. Þvert á móti reyndi hann enn að gefa í skyn, að hún kynni að hafa við eitthvað að styðjast. Hann sagðist raunar ekkert vita meira um fregnina en hver okkar hinna, sem hana læsi. Það var vegna þess, að hæstv. utanrrh. og ég höfðum skorað á hann að færa fram þau rök, sem hann hefði fyrir því, að þessi fregn væri rétt. Nú þykist hann ekkert vita um þau ákveðnu rök, en færir einungis almennar líkur að sínu mati fyrir því, að fréttin sé engu að síður sönn.

En Þjóðviljinn segir í fyrstu setningu fregnar sinnar: „Þjóðviljinn hefur örugga vitneskju um það, að vestur-þýzk stjórnarvöld hafa leitað fyrir sér um það, að þau fái aðstöðu til herstöðva og heræfinga á Íslandi: Það er nú harla ótrúlegt, svo að ekki sé meira sagt, að aðalmálgagn þess flokks, sem hv. 3. þm. Reykv. er formaður í, birti slíka fregn og segist hafa örugga vitneskju um hana, án þess að hafa áður borið sig saman við hv. þm. og tjáð honum, hver þessi örugga vitneskja væri. Hér er vissulega um svo alvarlegt mái að ræða, að sannarlega er það með fullum ólíkindum, ef þessir aðilar hafa ekki haft samráð um það og Þjóðviljinn tjáð sínum flokksformanni, hver þessi örugga vitneskja væri. Ekki er nú hv. þm. sérlega forvitinn eða hefur honum fundizt mikið til um þessa fregn, svo stórum stöfum sem hún er þó prentuð, ef hann hefur ekki í morgun látið sér vinnast tími til að grennslast eftir, hver þessi örugga vitneskja væri. Ég verð því enn mjög eindregið að fara þess á leit við hv. þm., að hann annaðhvort lýsi yfir því, að hér sé um gersamlega staðlausa stafi að ræða, eða hann færi fram þá öruggu vitneskju, sem hans eigið málgagn telur sig hafa fyrir fregninni. Hv. þm. verður sæmdar sinnar vegna að gera annaðhvort og getur ekki sloppið með þeim getsökum, sem hann hefur látið sér nægja í málflutningi sinum hingað til.

Þá hélt hv. þm. því fram, að því færi fjarri, að þessi fregn væri til þess löguð að skaða Finna. Hann þóttist svo sem hafa samúð með þeim, þó að samúð hans með íslenzku þjóðinni væri enn þá meiri. En hann vildi halda því fram, að fregnin væri ekki til þess löguð að gera Finnum tjón. Ég leyfi mér, með samþykki hæstv. forseta, að vitna til þess, sem Þjóðviljinn sagði um þetta efni hinn 16. nóv. s.l. Þar segir orðrétt:

„Ástæðan til þess, að Sovétríkin krefjast nú tryggingar fyrir finnskri hlutleysisstefnu, er sú, að verið er að koma á laggirnar sameiginlegri yfirstjórn vestur-þýzka hersins og herjanna í NATO-ríkjunum á Norðurlöndum, og Sovétríkin hafa ekki gleymt því, þegar þýzkar hersveitir höfðu bólfestu í Finnlandi og herjuðu þaðan langt inn í Sovétríkin. Við Íslendingar erum einnig aðilar að þeirri stefnu að láta vesturþýzku herstjórnina teygja griparma sína yfir Norðurlönd og berum því okkar fullu ábyrgð á vanda Finna.“

Það er ótvírætt, að það er ekki tilvera Atlantshafsbandalagsins eða þess almenna stefna, sem gerir það að verkum, að sovétstjórnin ber nú fram þessar nýju kröfur gagnvart Finnum. Sovétstjórnin sleppti meira að segja herstöðvum, sem hún hafði í Finnlandi, löngu eftir að Atlantshafsbandalagið hafði verið stofnað og sýnt var, hvernig það hugðist starfa. Það, sem sovétstjórnin nú ber fyrir sig, eins og Þjóðviljinn segir í tilvitnaðri grein, eru aukin áhrif Vestur-Þjóðverja í Atlantshafsbandalagínu og þá einkanlega á Norðurlöndum. Það þarf því ekki, miðað við rökstuðning og yfirlýsingar

Þjóðviljans sjálfs hinn 16. nóv., að fara í grafgötur um það, hversu þung ábyrgð okkar í huga sovétstjórnarinnar og talsmanna hennar hlýtur að vera á örlögum Finnlands, ef það er rétt, að einmitt um sömu mundir og samningar eru að hefjast milli Krúsjeffs og Kekkonens, þá séum við að veita Vestur-Þjóðverjum miklu meiri áhrif á Norðurlöndum en þeir nokkru sinni hingað til hafa haft. Hingað til hefur ekki komið til mála, að þeir fengju neinar herstöðvar neins staðar á Norðurlöndum. Eftir fullyrðingu Þjóðviljans í morgun er ætlunin sú, að þeir komi upp herstöðvum á Íslandi, að Ísland verði fyrsta landið á Norðurlöndum, sem veiti Vestur-Þjóðverjum slíka aðstöðu. Allt það, sem sovétstjórnin hefur notað sem ástæður fyrir kröfum sínum gegn Finnum, er miklu minna um vert og hefur minni hernaðarþýðingu heldur en ef landi eru veittar herstöðvar í einhverju öðru landi. Það er þess vegna, eins og ég sagði áður, ótvírætt, að aðstandendur Þjóðviljans vita ósköp vel, hvaða afleiðingar verða af slíkri fregn eins og þeirri, sem blaðið birtir með svo stórum stöfum, lagaða til þess að vekja sem allra mesta athygli á fregninni nú í morgun. Það er berum orðum sagt, að Vestur-Þjóðverjar eigi að fá sterkari hernaðaraðstöðu á Norðurlöndum en þeir hingað til hafa haft og í raun og veru í fyrsta skipti sjálfir að fá hernaðaraðstöðu á einhverju Norðurlandanna.

Þjóðviljinn segir 21. nóv. í forustugrein:

„Í kalda stríðinu býður ein herstöð annarri heim, ein ógnunin ákallar aðra.“

Þetta stendur í Þjóðviljanum 21, nóv. Eftir þessar yfirlýsingar Þjóðviljans 16. nóv. og 21. nóv. getur engum dulizt, að það hlýtur að vera ætlun blaðsins að leggja sovétstjórninni vopn í hendur til þess að heimta herstöðvar í Finnlandi, vegna þess að Íslendingar séu í þann veg að veita Þjóðverjum herstöðvar á Íslandi. Ég trúi því ekki, að jafnvíðsýnn og margreyndur stjórnmálamaður og hv. 3. þm. Reykv. sé slíku níðingsbragði samþykkur, sem er eitthvert ljótasta óþokkabragð, sem nokkurn tíma hefur verið framið í íslenzkri blaðamennsku. Ég trúi því ekki, að hv. þm. sé þessu samþykkur, og ég skora á hann að lýsa yfir, að hann fyrirlíti þvílíkar aðfarir.