24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Ég heyri á þeim umr., sem hér hafa farið fram, að hæstv. ráðherrar vilja neita þeirri frétt, sem birt hefur verið í dag í Þjóðviljanum um kröfur Vestur-Þjóðverja til þess að fá hernaðarlega aðstöðu hér á Íslandi. Og ég heyri enn fremur, að hæstv. forsrh. leggur á það allmikla áherzlu, að þessi frétt geti orðið til þess að veikja aðstöðu Finna í samningum þeirra nú við Sovétríkin.

Ég skal fyrir mitt leyti ekkert um það segja á þessu stigi málsins, hvort sú frétt, sem birt er í Þjóðviljanum, er rétt eða ekki. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kanna það, en mér fer eins og fleirum hér, að mér dugir það ekki að fenginni reynslu, þó að ákveðnir ráðherrar lýsi því yfir, að orðrómur, sem er á sveimi, sé ekki réttur, svo mörg dæmi höfum við um það, að slíkar yfirlýsingar hafa ekki fengið staðizt, þegar á þurfti að reyna en mér sýnist í þessu máli eitt vera aðalatriðið og þá ekki sízt út frá því, sem hæstv. forsrh. hefur sagt um aðstöðu Finna nú um þessar mundir, en það er það, að jafnhliða því sem hæstv. ríkisstj. neitar því opinberlega, að þessi frétt, sem birzt hefur í Þjóðviljanum, sé rétt, — það er vitanlega sjálfsagt, að slíkt komi frá hæstv. ríkisstj., að hún lýsi yfir, að fréttin sé röng, sé hún röng, — en að það komi einnig til viðbótar með yfirlýsingu hæstv. ríkisstj. alveg umbúðalaust, að tilgangslaust væri fyrir Vestur-Þjóðverja að biðja um slíkt, að fá nú hernaðarlega aðstöðu á einn eða annan hátt á Íslandi, því að við slíku yrði ekki orðið. Slíkt hefði kannske eitthvað að segja fyrir aðstöðu Finna nú í þessu máli og reyndar fleiri, og ég vil undirstrika það, að með öllu er óþarft að vera að hengja sig á eitthvert orðalag, eins og hæstv. utanrrh. gerði í þessum efnum, að hann geti ekki gefið hér skuldbindingar eða yfirlýsingar, sem varði afstöðu Íslands um alla framtíð. Ég skal gefa honum það fyrir mitt leyti eftir að nefna ekkert um það í slíkri yfirlýsingu, að Vestur-Þjóðverjum verði ekki veitt slík aðstaða um alla framtíð, en ég fer fram á það, að hæstv. ríkisstj. geri hreint fyrir sínum dyrum í þessum efnum og segi afdráttarlaust, að tilgangslaust væri fyrir Vestur-Þjóðverja að biðja um slíka aðstöðu hér á Íslandi, því að hún yrði ekki veitt. Ef hæstv. ríkisstj. vill lýsa þessu yfir, þá ætti hún eftir þeirri röksemdafærslu, sem hæstv. forsrh. hefur beitt hér, að ljá Finnum lið í þeirra málefnalegu aðstöðu nú. Þá hefðu Finnar það svart á hvítu, að íslenzka ríkisstj. hefði lýst því yfir einmitt nú, að tilgangslaust væri fyrir Vestur-Þjóðverja að biðja um slíka aðstöðu á Íslandi, því að hún yrði ekki veitt. Nú reynir á, að mínum dómi, hvort hæstv. ríkisstj. vili styrkja aðstöðu Finna í þessu máli eða ekki, hvort hún vill gera hreint fyrir sínum dyrum hér eða ekki. Þetta er aðalatriði málsins. Þetta er það, sem tekur nokkuð af um það, hvort eitthvað kunni að vera rétt eða ekki í þessum orðrómi, sem Þjóðviljinn hefur birt fréttir af. En eftir hinu mun líka verða tekið í sambandi við þessa frétt, þó að hæstv. ríkisstj. afneiti fréttinni, ef hún skorast undan því að gefa slíka yfirlýsingu, sem ég fer hér fram á. Eftir því mun líka verða tekið. í þessum efnum hljóta menn að hafa í huga, að það liggur fyrir öllum, að Vestur-Þjóðverjar hafa leitað að undanförnu til allmargra ríkja um það að fá slíka aðstöðu, eins og fréttin í Þjóðviljanum fjallar um. Við vitum, að þeir hafa leitað eftir slíku við Breta og fengið aðstöðu þar. Við vitum, að þeir hafa leitað eftir slíku við Frakka og fengið aðstöðu þar. Við vitum líka, að þeir hafa leitað eftir slíku við Portúgali og fengið aðstöðu þar. Og við vitum líka, að þeir hafa knúið á með það að fá nokkuð svipaða aðstöðu hjá öðrum Norðurlöndum í sambandi við yfirstjórn þá, sem þeir eru nú að knýja fram sér til handa yfir flotastyrk á Eystrasalti. Það fer því ekkert á milli máta, að Vestur-Þjóðverjar hafa verið að reyna að pota sér áfram í þessum efnum, og það væri því sannarlega ekki úr leið, að þeir færu fram á eitthvað slíkt hér, þar sem þeir hafa séð með eigin augum og vita um, að stjórnarvöld hér hafa verið æði leiðitöm í því að hleypa erlendum her inn í okkar land. Nú er þessi frétt komin fram, og af því álít ég, að það sé nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að gera hreint fyrir sinum dyrum í þessum efnum.

Ég skal ekki eyða hér lengri tíma í þetta að sinni, en ég endurtek þá áskorun mína til hæstv. forsrh. sérstaklega og reyndar einnig til hæstv. utanrrh., að þeir lýsi því hér yfir og geri það síðan opinberlega í tilefni af þessari frétt, að jafnhliða því sem þeir neiti fréttinni, að hún sé rétt, þá lýsi þeir yfir, að tilgangslaust væri að biðja um slíkt sem þetta, því að Íslendingar mundu ekki verða við slíkri beiðni. Ég endurtek áskorun mína til hæstv. ríkisstj. að lýsa þessu yfir. Annars hefur hún ekki gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi þetta mál.