24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Hv. forseti. Ég skal ekki tefja hv. þdm. miklu lengur. Það hefur komið fram, bæði frá hv. 3. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austf., að þeir neita algerlega að gefa nokkrar upplýsingar um það, hver sú örugga vitneskja er, sem þeirra málgagn segist byggja á frétt sína í morgun um þýzkar herstöðvar á Íslandi. Mér kemur það ekkert á óvart, þótt þeir vilji ekki skýra frá því, hver þessi örugga vitneskja er, því að ég hef frá fyrstu tíð verið sannfærður um, að sagan væri algerlega tilbúin af blaðinu sjálfu, og meðan þeir gera ekki neina frekari grein fyrir fregninni, verður ekki komizt hjá því, að sá verður dómurinn og sú verður hin almenna skoðun.

Þeir hafa hins vegar krafizt þess, þessir hv. þm. tveir, að ég eða ríkisstj. lýsi yfir, að Þjóðverjar muni aldrei um alla framtíð fá neina hernaðarlega aðstöðu á Íslandi. Ég hafði gert grein fyrir því í minni fyrri ræðu, hvers vegna ég teldi þessa kröfu fráleita, og hæstv. forsrh. hefur þegar lýst því yfir mjög ákveðið og skilmerkilega einnig. En hv. 3. þm. Reykv. hefur nú enn á ný endurtekið þessa kröfu og telur, að ég hafi ekki svarað henni á fullnægjandi hátt.

Ég vil bara leyfa mér að benda hv. þdm. á, hvernig færi, ef Alþingi ætti að fara að taka upp vinnubrögð eins og þau, sem þessir þm. kommúnista fara fram á. Eitthvert dagblaðanna, hvort sem það væri Þjóðviljinn eða eitthvert annað blað, sem í stjórnarandstöðu væri, þyrfti ekki annað en búa til einhverja lygafregn, hvers efnis sem hún væri, og síðan væri hægt að koma hér inn á Alþingi og segja: Þessi fregn skal vera sönn, á meðan ríkisstj. hefur ekki lýst yfir, að hún skuli vera ósönn um aldur og ævi. — Þetta eru vinnubrögð, sem náttúrlega væru fráleit með öllu. Og ég efast ekki um, að ef inn á þessa línu yrði farið á annað borð, þá mundi Þjóðviljinn ganga mjög á lagið með þetta. Hann mundi spinna upp allar þær sögur, sem honum þóknaðist, krefjast síðan ályktunar Alþingis um, að frásögnin væri ósönn, vitna í fordæmi fyrir því, að slíkt hafi verið áður gert, og mundi þannig að verulegu leyti geta mótað stefnu og störf Alþingis með slíkum ályktunum og yfirlýsingargerðum.

Það er að sjálfsögðu alveg fráleitt að láta teygja sig inn í nokkur slík vinnubrögð og alveg sérstaklega þegar tilefnið er jafnfjarri því að hafa nokkurn grundvöll og á sér stað hér. Því hefur verið marglýst yfir, bæði af mér og hæstv. forsrh., að frásögnin í Þjóðviljanum í morgun er tilhæfulaus með öllu. Það er ekki hinn allra minnsti fótur fyrir henni. Um þetta mál hefur ekkert verið rætt og enginn fram á þetta farið. Og að ætla sér að fara að gefa út, hvort sem er með samþykki Alþingis eða ekki, sérstaka ályktun fyrir alla framtið um slíkt efni, væri fráleitt og fjarstæða.

Hins vegar skil ég ákaflega vel, að þeir kommúnistar hér á Alþingi vilji gjarnan ganga eftir því, að einhver ályktun sem þessi sé gefin. Tilgangur ríkisstj. Sovétríkjanna með viðræðunum við Finna og að því er talið er einnig með atómsprengingunum núna undanfarið hefur m.a. verið sá að skjóta þeim þjóðum skelk í bringu, sem vilja vera viðbúnar og geta varizt, ef til styrjaldar gæti komið. Það er mjög ríkjandi skoðun, að tilgangurinn á bak við þessar aðfarir Rússa kunni ekki hvað sízt að vera sá að reyna að fá Norðurlöndin til að víkja af þeirri stefnu, sem þau hafa verið á í utanríkismálum hingað til. Ef Íslendingar færu nú að dansa eftir þessari pípu, þá væru þeir að láta undan því, sem er að gerast þarna, og láta ýta sér af þeirri braut, sem þeir hafa verið á hingað til. En það hefur tvímælalaust verið ríkjandi skoðun mikils meiri hluta íslenzku þjóðarinnar, að þátttaka þeirra í varnarbandalagi Norður-Atlantshafsþjóðanna væri öruggasta vörnin, sem þær geta fengið, eins og nú er ástatt í heiminum, gegn því, að til vopnaðra átaka kunni að koma. Og einmitt það að láta af þessu, slá undan á þessari braut, mundi verða til þess að auka stórkostlega ófriðarhættuna í heiminum, en ekki til að draga úr henni. Það mundi þess vegna að mínu viti tvímælalaust hafa hin óheppilegustu áhrif fyrir Íslendinga, ef kommúnistum ætti eftir að takast, hvort það er hér á Alþingi eða annars staðar, að fá Íslendinga til að gefa einhverjar þær yfirlýsingar, sem þýddu það, að þeir væru að víkja frá þeirri stefnu, sem þeir hingað til hafa fylgt í utanríkismálum.

Ég vil enn á ný skora á þá kommúnistana og aðstandendur Þjóðviljans, — þó að þeir gerðu það kannske ekki hér í dag, að gera það þá í Þjóðviljanum á morgun, — að gera þjóðinni grein fyrir því, hver hún er, þessi örugga vitneskja, sem þeir þykjast hafa. Þjóðin á heimtingu á að fá að heyra það og það því fremur, þar sem um er að ræða svo alvarlegt mál sem hér er á ferðinni.