05.02.1962
Neðri deild: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2726 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég hefði nú kosið að hafa heldur rýmri tíma til að svara þessari spurningu heldur en mér gefst við þetta tækifæri og hefði talið það ekki óeðlilegt, að fyrirspurnin væri borin fram á venjulegan hátt, svo að tími gæfist til að afla upplýsinga og gefa ýtarlegri svör en ég get gefið á þessari stundu.

En fyrsta spurningin hjá hv. þingmanni var eitthvað á þá leið, hvort ríkisstj. hafi þegar ákveðið, hvað gert yrði til þess að aðstoða togaraútgerðina. Þessu get ég svarað alveg ákveðið, að þetta hefur ríkisstj. ekki ákveðið enn. Hins vegar get ég sagt það, að hún hefur haft þetta til athugunar og það mjög ýtarlegrar athugunar og á mörgum fundum. Hún hefur einnig rætt málið allýtarlega við bankastjórn Seðlabankans og býst við því, að út úr þessum viðræðum komi á næstunni eitthvað það, sem frambærilegt kynni að vera til þess að ráða bót á því erfiða ástandi, sem togaraútgerðin á nú við að búa, en það er, eins og allir hv. alþm. þekkja, mjög alvarlegt.

Það er engum ljósara en mér, að það er nauðsynlegt að flýta þessu máli. En það hefur ekki verið unnt að komast enn að fastri niðurstöðu. Viðræður fara fram, bæði innan ríkisstj. og við bankastjórn Seðlabankans, um þetta mál, og ég vænti þess, að það líði ekki langur tími, þangað til þessar tillögur geta legið fyrir, en að sjálfsögðu verða þær lagðar fyrir Alþingi, þegar þar að kemur.