24.10.1961
Efri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2731 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

Dagur Sameinuðu þjóðanna

forseti (EggÞ):

Áður en gengið er til hinnar auglýstu dagskrár, vildi ég mega minna hv. þdm. á, að í dag eru liðin 16 ár, frá því að 50 þjóðir undirrituðu stofnskrá Sameinuðu þjóðanna. Nú samanstanda þessi samtök af 99 Þjóðum, sem svarizt hafa til sameiningar um að varðveita friðinn og tryggja öllum þjóðum betra líf. Af ýmsum þeim fréttum, sem berast nær daglega af þingi þessara nálega 100 þjóða, ásamt fréttum úr heimahögum þjóðanna sjálfra, mætti ætla, að lítið hefði áunnizt í þessu höfuðmarkmiði hinnar voldugu þjóðasamsteypu. Almennt hættir mönnum við því að einblína um of á það, sem kann að hafa mistekizt, enda ávallt háværari raddir um það en hitt, sem vel tekst. Það er þó staðreynd, að enn hefur Sameinuðu þjóðunum ekki tekizt að koma í veg fyrir vígbúnaðarkapphlaup stórþjóðanna, sem nú ógnar öllu lífi jarðkringlunnar með hinum ægilegu kjarnorku- og vetnisvonnum. Reynsla undanfarinna ára sannar þó á ótvíræðan hátt, að á meðan þessir voldugu aðilar ræðast við á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða, er a.m.k. von um, að ekki brjótist út ný heimsstyrjöld. Smáþjóðir eins og Ísland, sem alizt hafa upp við þann hugsunarhátt, a.m.k. nú í margar aldir, að hafa andúð á vopnavaldi og allri beitingu vopna, eiga framtíð sína undir því komna, að Sameinuðu bjóðunum takist það höfuðmarkmið sitt að varðveita frið og réttlæti. Af þeim ástæðum erum við Íslendingar í fremstu röð þeirra þjáða, er líta vonaraugum til Sameinuðu þjóðanna með innilegum og samstilltum óskum um, að allt það starf, sem í 16 ár hefur verið unnið á vegum þessara samtaka, megi bera sem ríkulegastan ávöxt, bornum og óbornum kynslóðum til blessunar.

Megi góður ásetningur, er réð stofnun Sameinuðu þjóðanna, rætast í auknum samstarfsvilja hinna ólíku þjóða heimsins og þá einnig í milli þeirra einstaklinga, er þjóðirnar mynda.