24.10.1961
Neðri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (2434)

Dagur Sameinuðu þjóðanna

forseti (BGr):

Dagur Sameinuðu þjóðanna er í dag, og verður hans minnzt í báðum deildum Alþingis.

Það böl hefur fylgt þjóðum heimsins, svo lengi sem sagan greinir, að þeim hefur gengið illa að búa saman í friði og sátt. Hagsmunir hafa rekizt á, drottnunargirnd og árásarhugur hafa vaknað hvað eftir annað, kynslóð eftir kynslóð, og blóði verið úthellt í styrjöldum. Hin síðari ár hefur tækni komizt á það stig, að styrjaldir hafa orðið að heimsátökum, svo að fáar þjóðir hafa fengið að standa fyrir utan.

Það hefur lengi verið ljóst, að ein leið mundi duga til þess að tryggja frið um alla jörð. Hún er sú, að þjóðir heimsins bindist samtökum um að leysa deilumál sín á friðsamlegan hátt, veiti þeim samtökum rétt og skyldu til að setja nauðsynleg lög til varðveizlu friðar, tryggingu mannréttinda og velmegunar. Síðan yrði að fá samtökum þessum framkvæmdavald. sem byggðist á alþjóðlegri lögreglu, er framfylgdi samþykktum réttra aðila samtakanna. Hugsjónin um slíka skipun heimsins hefur fengið vaxandi styrk á síðustu áratugum, enda hefur mannkynið mátt þola tvær heimsstyrjaldir á einu æviskeiði. Þjóðabandalagið var stórt skref í þessa átt. Sameinuðu Þjóðirnar eru enn stærra skref, og nú fyrst hefur alþjóðlegt herlið verið notað til að framfylgja samþykktum allsherjarþings. Undir stjórn Hammarskjölds, hins látna aðalritara, tóku varðmenn Sameinuðu Þjóðanna sér stöðu milli Araba og Gyðinga og stöðvuðu þar frekari blóðsúthellingar, og forðuðu á sama hátt Kongó frá borgarastríði sem vel hefði getað orðið sá neisti, er kveikti nýtt heimsstríð.

Fyrir smáþjóðir getur engin skipan komið í stað bandalags Sameinuðu Þjóðanna. Þar geta þær bundizt samtökum og haft áhrif á gang heimsmála, en væru að öðrum kosti að heita má vandalausar. Þess vegna sóttu Íslendingar það fast að verða sem fyrst þátttakendur í Sameinuðu Þjóðunum og hafa á þeim vettvangi lagt sinn skerf til aukins frelsis, velmegunar og friðar í heiminum.

Á þessum degi Sameinuðu Þjóðanna lýsum við þeirri einlægu von, að háleitar hugsjónir bandalagsins verði að veruleika og því auðnist að forða mannkyninu frá nýjum styrjöldum, auka frelsi og mannréttindi og tryggja öllum jarðarinnar börnum sómasamlegt líf.