23.02.1962
Neðri deild: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

Slysfarir á sjó - minning

forseti (RH):

Það mun nú talið fullvíst, að vélskipið Stuðlaberg frá Seyðisfirði hafi sokkið út af Stafnesi aðfaranótt sunnudagsins síðasta og öll áhöfnin, 11 manns, drukknað. Víðtæk leit hefur verið gerð á sjó og úr lofti og á fjörum, en aðeins orðið til staðfestingar á þeim hörmulegu tíðindum, að svo margir hafi fallið hér í einni svipan. Slíkir atburðir slá þjóðina alla harmi. Allir voru skipverjar á Stuðlabergi menn í blóma lífsins, hinn yngsti þeirra aðeins 17 ára. Þeir voru feður, eiginmenn, bræður og synir. Þessar síðustu vikur hefur hvert sjóslysið rekið annað og skörð orðið í hóp íslenzkra sjómanna. Þess má þó minnast og þakka, að við höfum stundum getað fagnað giftusamlegri og hetjulegri björgun á úrslitastund, eins og skammt er að minnast.

Á undanförnum þrem mánuðum hafa 20 íslenzkir sjómenn farizt. Hraustir menn hafa týnt lífinu við nauðsynleg störf fyrir þjóð sína og áhættusöm störf við að afla sér og sínum bjargar.

Ég vil biðja hv. þingdeildarmenn að gera svo vel að heiðra minningu hinna látnu sjómanna og votta ástvinum þeirra samúð með því að rísa úr sætum. — [Dm. risu úr sætum.]