01.02.1962
Sameinað þing: 32. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2734 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

Minning Halldórs Steinsens

forseti (FS):

Áður en gengið er til dagskrár þessa fundar, verður minnzt nýlátins fyrrv. alþingismanns.

Á jóladag, 25. desember s.l., andaðist í sjúkrahúsi hér í bæ Halldór Steinsen læknir og fyrrv. alþingismaður, 88 ára að aldri. Hann fæddist 31. ágúst 1873 að Hvammi í Dölum. Foreldrar hans voru Steinn prestur þar Steinsen, sonur Torfa söðlasmíðs í Reykjavík Steinssonar, og kona hans, Wilhelmine Cathrine, dóttir Moritz Bierings kaupmanns í Reykjavík. Hann var ungur settur til mennta, brautskráðist úr latínuskólanum í Reykjavík árið 1894 og lauk embættisprófi frá læknaskólanum í Reykjavík 1898, hálfþrítugur að aldri: Veturinn 1898—1899 starfaði hann í sjúkrahúsum erlendis. Á árinu 1899 var hann settur aukalæknir í Ólafsvík og skipaður héraðslæknir í Ólafsvíkurhéraði árið 1900. Gegndi hann því embætti fram á árið 1934, er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Fluttist hann þá til Reykjavíkur og átti hér heimili síðan.

Í sveit og héraði vann Halldór Steinsen að ýmsum félagsmálum, og voru honum falin þar ýmis trúnaðarstörf. Hann átti sæti í hreppsnefnd Ólafsvíkur 20 ár, í sýslunefnd Snæfellsnessýslu 2 ár og í stjórn sparisjóðs Ólafsvíkur 17 ár. Hann var formaður Framfarafélags Ólafsvíkur 10 ár og formaður Verkalýðsfélags Ólafsvíkur 18 ár. Þingmaður Snæfellinga var hann á árunum 1912—1913 og 1916-1933, sat á 22 þingum alls. Lengst af átti hann sæti í Ed. og var forseti deildarinnar á þingunum 1923—1927. Hann átti um skeið sæti í byggingarnefnd landsspítalans og sat í landsbankanefnd á árunum 1928—1936.

Halldór Steinsen var góður námsmaður, vel búinn að líkamlegu atgervi, þéttur á velli og iðkaði íþróttir fram á gamalsaldur. Hann var gæddur þeim kostum, sem nauðsynlegir eru til góðrar læknisþjónustu í afskekktum sveitum við erfiðar samgöngur, þar sem mjög reynir á kunnáttu í læknisstörfum og karlmennsku í ferðalögum. Hann var skyldurækinn embættismaður, og honum farnaðist vel við lækningar. á Alþingi hafði hann einkum skipti af heilbrigðismálum, fjármálum og samgöngumálum. Í umræðum á þingi var hann gagnorður og rökfastur. þéttur í lund og fastur fyrir, ef því var að skipta.

Halldóri Steinsen hefur verið svo lýst, að hann hafi verið geðríkur, en stilltur vel, dulur í skapi, en skýr í hugsun, ómannblendinn, en tryggðatröll og manna glaðastur og skemmtilegastur þegar svo bar undir.

Ég vil biðja hv. alþingismenn að votta minningu þessa látna merkismanns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]