18.10.1961
Sameinað þing: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Frsm. (Alfreð Gíslason bæjarstjóri):

Herra forseti. Þar sem hv. 5. þm. Sunnl., Sigurður Ó. Ólafsson, hefur vikið af þingi um stundarsakir vegna veikinda, hefur verið óskað eftir því, að Jón Kjartansson sýslumaður taki sæti hans á Alþingi, varamaður Sjálfstæðisfl. í Suðurlandskjördæmi. Jón Kjartansson er varamaður í tvennum skilningi, annar varamaður landskjörinna þingmanna Sjálfstfl. og fyrsti varamaður kjördæmakosinna þingmanna Sjálfstfl. í Suðurlandskjördæmi. Kjörbréfanefnd hefur athugað yfirlýsingu frá Torfa Jóhannssyni, formanni yfirkjörstjórnar Suðurlandskjördæmis, sem lýsir yfir því, að kjörbréf hafi verið gefið út til handa honum sem fyrsta varamanni Sjálfstfl. í Suðurlandskjördæmi. Meiri hluti kjörbréfanefndar, 4 af 5, einn greiddi ekki atkv., mælir einróma með því að taka yfirlýsingu formanns yfirkjörstjórnar Suðurlandskjördæmis gilda og leggur til, að kosning Jóns Kjartanssonar verði samþykkt.