01.02.1962
Sameinað þing: 32. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2738 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa

Forseti (FS):

Frá forseta neðri deildar hefur borizt svofellt bréf:

„Reykjavík, 26. jan. 1962. Einar Ingimundarson, 4. Þm. Norðurl. v., hefur ritað mér svo hljóðandi bréf, dags. 24. þ.m.:

„Vegna embættisanna mun ég ekki geta sinnt þingstörfum um sinn. Óska ég því þess, með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis, að varamaður minn, Jón Pálmason bóndi, taki sæti mitt á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti neðri deildar.

Til forseta sameinaðs þings.“

Kjörbréf Jóns Pálmasonar hefur áður verið rannsakað og samþykkt, og tekur hann því samkvæmt þessu nú sæti á Alþingi og er hér mættur, og býð ég hann velkominn.

Þá hefur borizt hér annað bréf frá forseta Nd.:

„Reykjavík, 1. febr. 1962.

Þórarinn Þórarinsson, 7. þm. Reykv., hefur ritað mér svo hljóðandi bréf, dags. 31. jan, s.l .:

„Þar sem ég verð erlendis næstu vikur, óska ég eftir, að varamaður minn taki sæti mitt á Alþingi á meðan.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti neðri deildar.“

Varamaður Þórarins Þórarinssonar er Einar Ágústsson, hann er hér mættur. Kjörbréf hans hefur áður verið rannsakað og samþykkt, og tekur hann því sæti nú á Alþingi, og býð ég hann velkominn.

Frá forseta Nd. hefur borizt svofellt bréf, dags. 31. jan. 1962:

„Mér hefur í dag borizt svo hljóðandi bréf frá Lúðvík Jósefssyni, formanni þingflokks Alþb.: „Þar sem Karl Guðjónsson, 6. þm. Sunnl., er veikur og mun því ekki geta setið á Alþingi næstu vikur, er þess hér með óskað eftir beiðni hans, með skírskotun til 138. gr. kosningalaganna, að varamaður hans, Bergþór Finnbogason kennari, taki sæti hans á Alþingi í veikindaforföllum hans.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fara fram í sameinuðu Alþingi rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Ragnhildur Helgadóttir,

forseti Nd.

Ég mælist til þess, að kjörbréfanefnd taki þetta kjörbréf til meðferðar nú þegar, og verður nú fundarhlé um stund, meðan kjörbréfanefnd heldur sinn fund, og verður hringt til fundar, þegar hann hefst að nýju. — [Fundarhlé.]