15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

17. mál, dómsmálastörf, löglreglustjórn, gjaldheimta o.fl.

Matthías Á. Mathiesen:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þessar umr., sem hér hafa farið fram. Mér þótti leitt að heyra hv. 3. þm. Reykv. nú, þegar hann ræddi um hið nýja saksóknaraembætti og gaf þar í skyn ákveðna hluti. Ég vildi mega segja, að sá embættismaður, sem þar hefur setzt í embætti, hafi ekki haft svo langan tíma til sinna starfa, að það sé hægt að fara að brigzla honum um það hér, að hlutdrægni eða eitthvað annað slíkt eigi sér stað í hans embættisrekstri, dráttur eða annað slíkt, og ég vildi mega mótmæla því hér.

Í sambandi við þær brtt., sem hv. minni hl. allshn. hefur komið fram með, þá er ýmislegt, sem hér hefur komið fram í þessum umr., sem réttilega hefur verið bent á, að á heima í sambandi við umr. um annað frv., sem liggur fyrir þessu þingi, þ.e.a.s. frv. um einkamálalöggjöfina. Það er t.d. í þessari brtt. orðað svo í lokin, að þessum embættismönnum sé óheimilt að hafa á hendi öll lögmannsstörf, svo og hver önnur störf, er valda kunna vanhæfi þeirra, og því hefur m.a. verið haldið fram hér sem rökum, að ef þetta sé ekki sett inn í, þá megi búast við því, að þessir menn séu í sínum vinnutíma að vinna að þeim störfum til þess að skapa sér aukatekjur. En við skulum bara láta okkur detta í hug, að maður, sem gegnir þeim störfum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, gerði á einni kvöldstund lítinn löggerning fyrir einhvern ágætan vin sinn, og svo liðu tímar og þessi löggerningur yrði valdandi því, að það yrði um hann málarekstur eða eitthvað slíkt. Og þessi fulltrúi sæti svo í þeim dómarastól, sem ætti að dæma um réttmæti löggerningsins eða eitthvað í sambandi við hann. Þannig geta menn séð, að þessi grein getur á engan hátt staðizt, ef það liggur að baki henni sú hugsun að útiloka það, að menn geti verið vanhæfir í sambandi við dómarastörf. Hitt er svo aftur annað mál, hvort á að heimila dómurum og dómarafulltrúum að hafa almenna lögmannsskrifstofu. Það er, eins og ég gat um áðan, á öðrum vettvangi, sem á að ræða um það. En ef farið yrði inn á þá braut t.d., að dómarafulltrúar og dómarar fengju ekki, þó að þeir rækju ekki lögmannsskrifstofu, að hafa sín lögmannsstörf, þá er ekki heldur úr vegi, að einmitt þeir málflutningsmenn, sem fá leyfi til þess að reka málflutningsskrifstofur, verði látnir uppfylla ríkari skilyrði til þess að fá leyfi til málflutnings. Það er oft og tíðum, sem menn leita til ágætra manna, sem sitja í þessum störfum, og óska eftir því, að þeir vinni fyrir sig einhver ákveðin lögmannsstörf, vegna þess að þeir treysta þeim.

Ég mundi álíta, að sú till., sem hér liggur fyrir, mundi á engan hátt bæta úr þessu frv. Ef fara á inn á þær brautir, sem hér hefur verið minnzt á, að sumu leyti réttilega, þá er það á allt öðrum vettvangi, þ.e.a.s. í sambandi við einkamálalöggjöfina.