18.04.1962
Sameinað þing: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (2517)

Þinglausnir

forseti (FS):

Háttvirtir alþingismenn. Þetta var skýrsla sögð með tölum um störf Alþingis, hins 82. löggjafarþings Íslendinga. Fjölmörg vandamál hefur verið um fjallað, og margvísleg löggjöf, meira eða minna þýðingarmikil, hefur verið sett. Ágreiningur hefur verið uppi um mörg þessara mála, og er slíkt ekki tiltökumál, enda getur margt orkað tvímælis. Þar sem fullt skoðanafrelsi ríkir, er eðlilegt, að slíkt eigi sér stað, og er það raunar ekki umtalsvert. Reynslan mun hins vegar skera úr á sínum tíma um gildi þess, sem gert hefur verið.

Þar sem þessi verður hinn síðasti fundur Alþingis þess, sem nú situr, vildi ég mega nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. alþingismönnum og hæstv. ríkisstj. fyrir góða samvinnu og vinsamlegt samstarf, er ég hef notið af þeirra hendi á þessu þingi. Sérstaklega vil ég þakka varaforsetum sameinaðs Alþingis fyrir að hafa leyst mig af hólmi, þegar á hefur þurft að halda. Skrifurum þingsins og öllu starfsfólki þess þakka ég og góða samvinnu og gott starf, en annríki þess hefur verið öllu meira en áður hefur tíðkazt og vinnutími lengri. Utanbæjarþingmönnum óska ég góðrar heimferðar og heimkomu, og öllum hv. þingmönnum og fjölskyldum þeirra óska ég gleðilegrar páskahátíðar og velfarnaðar á sumri því, sem nú fer í hönd, og vona, að við megum hittast heilir, er Alþingi kemur saman að nýju á næsta hausti. Ég veit, að ég mæli fyrir hönd allra hv. þingmanna, þegar ég óska landsmönnum öllum árs og friðar.