08.12.1961
Efri deild: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

106. mál, lántaka hjá Alþjóðabankanum

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Á árunum 1951–53 voru tekin fimm lán af Íslands hálfu hjá Alþjóðabankanum, sem Ísland er meðlimur í. Þessi lán voru vegna Sogsvirkjunar, Laxárvirkjunar, áburðarverksmiðju, landbúnaðarframkvæmda og sendistöðvar á vegum útvarpsins. En nú í rúm 8 ár hafa engar lánveitingar átt sér stað frá Alþjóðabankans hendi til Íslands. Ég skal ekki rekja ástæðurnar fyrir því, að þessar lánveitingar hafa stöðvazt, en vil þó segja, að meginástæðan er það efnahagsástand, sem hér hefur verið á Íslandi, verðbólga og jafnvægisleysi í fjárhagsmálum, þannig að Alþjóðabankinn, sem lánar til meðlimaríkja sinna eftir ströngum og föstum reglum og ekki sízt með hliðsjón af efnahags- og gjaldeyrisástandi þeirra, mun ekki hafa talið efnahagsástandið hjá okkar þjóð með þeim hætti, að rétt væri að veita hingað lán.

Í fyrra ákvað ríkisstj. að leita hófanna að nýju eftir þetta 7–8 ára hlé og freista þess að fá bankann til þess að taka upp aftur lánveitingar til ýmissa nauðsynjaframkvæmda hér á landi. Ríkisstj. virtist, að viðreisnin og efnahagsaðgerðirnar ættu að hafa skapað grundvöll fyrir slíkar lánveitingar. Alþjóðabankinn heldur ársfund sinn á hverju hausti, og haustið 1960 hófu fulltrúar Íslands á bankafundinum, þá í Washington, máls á því við stjórn bankans, að lánveitingar yrðu teknar upp að nýju til Íslands. Þessari málaleitun var vel tekið, og komu fulltrúar bankans hingað til lands fyrst skömmu eftir áramótin síðustu til þess að kynna sér efnahagsástand þjóðarinnar og enn fremur tæknilegir sérfræðingar til að athuga sérstaklega tiltekin verkefni, sem við höfum nefnt við bankann. Ríkisstj. þótti rétt að fara fram á það við bankann, að það fyrsta mannvirki eða fyrsta framkvæmd, sem lánað yrði til nú að nýju, yrði stækkun hitaveitunnar í Reykjavík, og voru ástæðurnar fyrst og fremst þær, að þó að margvísleg mannvirki og framkvæmdir kæmu hér til greina, bar öllum saman um, að hitaveitan í Reykjavík væri með þeim hætti sem fjárhagslega öflugt og álitlegt fyrirtæki, sem veitti mikil þægindi og sparnað fyrir þá íbúa, sem hennar njóta, og auk þess sparaði gjaldeyri fyrir þjóðfélagið í stórum stíl, að þetta fyrirtæki mundi vera álitlegast þeirra, sem um var að ræða, til þess að leggja fyrir bankann nú að nýju eftir þetta hlé. Athuganir hafa því fyrst og fremst af bankans hendi snúizt um fyrirætlanir, sem fyrir liggja frá Reykjavíkurbæ um stækkun hitaveitunnar hér.

Eftir þær kannanir og athuganir, sem bankinn hefur látið fram fara, bæði í sambandi við efnahags- og fjárhagsmál og tæknileg atriði og annað, tilkynnti hann nú fyrir nokkrum dögum, að hann væri reiðubúinn að hefja samningaviðræður um lánveitingu til hitaveituframkvæmda í Reykjavík. Varðandi formhliðina á þessu máli er fyrsta atriðið, hver eigi að vera lántakandi, og kom þar að sjálfsögðu til orða sú leið, sem manni gæti þótt eðlilegust, að það yrði Reykjavíkurbær vegna hitaveitunnar, sem tæki lánið, og þá e.t.v. með ábyrgð ríkissjóðs, ef bankinn setti það sem skilyrði, sem mun vera algengt hjá honum. Eftir athugun á málinu þótti þó sú aðferð hentugri, að íslenzka ríkið yrði að forminu lántakandi gagnvart bankanum, en endurlánaði síðan Hitaveitu Reykjavíkur eða Reykjavíkurbæ þessa fjárupphæð. Það er gert ráð fyrir því, að ef fyrri aðferðina ætti að hafa, mundi það tefja nokkuð málið, vegna þess að bankinn þyrfti þá að láta framkvæma ýmsar frekari athuganir í sambandi við fjármál og skipulag Reykjavíkurbæjar heldur en ella. Líkur eru því á því nú, að hentast þyki, að ríkið sjálft verði lántakandinn. Varðandi lánsupphæðina er gert ráð fyrir, að hún verði eitthvað á milli 1½ og 2 millj. dollara, og verður það eitt af samningsatriðum, sem ræða þarf í þeim viðræðum, sem fram undan eru. Það er gert ráð fyrir því, að af hendi íslenzku ríkisstj. verði í þessum viðræðum tveir fulltrúar, sem báðir eru búsettir nú í Bandaríkjunum, þ.e. sendiherra Íslands þar, Thor Thors, og Þórhallur Ásgeirsson, sem er einn af forstjórum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hefur verið það nú á fjórða ár og hefur fylgzt mjög vel með þessu máli, frá því að það var tekið upp. Enn fremur mun svo Reykjavíkurbær senda fulltrúa af sinni hálfu til þess að taka þátt í þessum samningaumræðum.

Varðandi hitaveituna er þess að geta, sem auðvitað er öllum kunnugt, að hitaveitan í Reykjavík er eitt hið merkasta mannvirki, sem hér hefur risið á Íslandi. Þessi nýting hitaorkunnar til upphitunar í húsum er í rauninni einstök í sinni röð og hefur fært íslenzku þjóðinni mikinn hagnað í gjaldeyrissparnaði og íbúum þeim, sem njóta hennar, mikinn sparnað og hvers konar þægindi. Nú mun það vera um það bil eða rétt rúmur helmingur bæjarbúa, sem nýtur hitaveitunnar, eða um 40 þús. manns. Áætlanir hafa verið gerðar um stækkun hitaveitunnar, og er sumt af því þegar í framkvæmd, en sú stækkun, sem ráðgerð er á næstu fjórum árum, árunum 1962–65, er gert ráð fyrir að nái til allra þeirra bæjarbúa, sem hafa ekki enn orðið hitaveitunnar aðnjótandi, eða um 35 þús. manna. Þessar framkvæmdir næstu fjögurra ára er gert ráð fyrir að kosti um 245 millj. kr., en af því er erlendur kostnaður um það bil þriðjungur.

Varðandi innlenda kostnaðinn er gert ráð fyrir því, að hitaveitan sjálf geti lagt fram af tekjum sínum í þennan stofnkostnað um 70 millj. kr. Varðandi innlenda kostnaðinn að öðru leyti fara nú fram athuganir á því, hvernig hans megi afla með aðstoð lánaútboðs og fulltingi lánsstofnana, og hefur borgarstjórinn í Reykjavík átt viðræður við lánsstofnanir innanlands í því skyni.

Varðandi erlenda kostnaðinn hefur ætlunin verið sú að reyna að fá hann að öllu eða mestu leyti að láni hjá Alþjóðabankanum. En erlendi kostnaðurinn, sem ég gat um að væri um það bil þriðjungur af þessu, er áætlaður nánar tiltekið 86 millj. kr., ef með eru taldir vextir af væntanlegu erlendu láni á byggingartímanum. Ég gat þess, að lánsupphæðin frá Alþjóðabankanum mundi væntanlega verða eitthvað á milli 1½ og 2 millj. dollara, og koma þar nokkur atriði til athugunar, sem eru ekki útkljáð enn, þ.e.a.s. hvernig eigi að reikna hinn erlenda kostnað og enn fremur frá hvaða tíma eða hvað framkvæmdum á að vera langt á veg komið, til þess að þær falli að öllu leyti undir bankalán, en út í það skal ég ekki fara hér frekar.

Ég tel, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða, og þó að það snerti fyrst og fremst framkvæmd fyrir Reykjavík og Reykvíkinga, þá snertir það að verulegu leyti þjóðina alla, vegna þess að hér er um eitt hið hagstæðasta fyrirtæki að ræða á mælikvarða þjóðfélagsins í heild, sem völ er á, og sparar þjóðfélaginu í heild mikið fé og mikinn gjaldeyri. Ég vænti þess, að hv. þdm. fallist á frv., sem hér liggur fyrir, um heimild til handa ríkisstj. til þessarar væntanlegu lántöku, og legg til, að frv. sé vísað til 2, umr. og hv. fjhn.