26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Jón Skaftason:

Hæstv. forseti. Ég er að meginefni til samþykkur þeirri stefnu, sem fram kemur í þessu frv. um, að eðlilegt og réttlátt sé, að lækkaðir séu vextir af byggingarlánum úr byggingarsjóði ríkisins. Ég tel hitt vafasamara, að vaxtalækkun þessi sé látin ná aftur í tímann. Það er vitað mál, að þann vaxtamismun, sem kann að koma fram, vegna þess að búið er að selja bréf með hærri vöxtum en gert er ráð fyrir að verði, eftir að frv. yrði samþ., — að einhver þurfa að borga þann vaxtamismun. Ég teldi eðlilegt, að það væri tekin inn á fjárlög hvers árs, ef frv. yrði samþ., einhver fjárhæð, sem ríkissjóður greiddi til þess að bæta upp það vaxtatap, sem yrði á þessu. Þá tel ég heppilegri leið að hækka hámarkslán byggingarsjóðsins sérstaklega fyrir þá, sem hafa byggt, eftir að efnahagsaðgerðirnar voru lögfestar í febrúar 1960 og hafa lent í hinum háa byggingarkostnaði, sem varð eftir það. Ég tel eðlilegra, að þeir eigi frekar kost á hærri lánum til þess að standa undir byggingarkostnaði, og hef flutt um það frv., heldur en til komi endurgreiðsla á tollum, sem þeir eru búnir að borga, um leið og þeir hafa keypt sitt byggingarefni. Að þessu tvennu lýtur fyrirvari minn við þetta frv.