26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Fram. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fyrirvari hv. 4. þm. Reykn. sýnir glöggt, að 4 nm. hv. félmn. eru á þeirri skoðun, að það sé ekki hægt að gera þessa breytingu, nema ríkissjóður taki á sig stórkostlega ábyrgð, svo að nú er hv. frsm. minni hl. n. orðinn einn á báti í sambandi við flutning máls síns. Það er eitt af því, sem meiri hl. n. leggur áherzlu á, að sýna, að það er útilokað að breyta vaxtakjörunum, nema einhver aðili og þá helzt ríkissjóður tæki að sér að bæta það tjón, sem þeir menn yrðu fyrir, sem þegar hafa keypt bréfin, en það fullyrðir hv. frsm. minni hlutans að sé hægt að gera. Nú hefur fjórði maðurinn bætzt við okkar hóp, sem hefur þá skoðun. Hygg ég, að meiri hl. Alþ. fallist á, að það verði ekki hægt að ákveða skerðingu vaxtanna, nema því aðeins að einhver aðili taki að sér að greiða það tjón, sem það kann að hafa í för með sér, og þá á, eins og hv. þm. talaði um, að leggja það á ríkissjóðinn og láta það ganga inn sem útgjöld ríkissjóðs á næstkomandi árum. Vil ég því benda á, að þegar svo er komið, hefði legið nær fyrir hv. þm. að fylgja að málum meiri hl. heldur en undirskrifa minnihlutanál. og hlaupa svo frá ábyrgðinni í umræðum um málið, en sýnilegt er, að það hefur hann nú gert.

Ég ræddi ýtarlega þetta mál við umr. hér áður, þegar hvorugur þessara hv. þm. var við. Hins vegar sé ég, að hv. frsm. hefur kynnt sér það, sem ég sagði í þessu máli. Ég er hins vegar ekki sammála honum um hans skoðanir á þessu, og ég hef ekkert breytt um skoðun mína á málinu við hans ræðu. Ég held því enn fast fram, að það sé ekki hægt að breyta A-lánum, svo sem lagt er til í frv., nema innkalla lánin, hver sem er eigandi þeirra, ef breyta á lánskjörunum, og einhver aðili greiði það tjón, sem sá aðili verður fyrir, sem er eigandi bréfanna. Hér segir hv. frsm. minni hl., að það sé Landsbankinn, sem eigi bréfin, en það breytir engu að mínu áliti. Landsbankinn sem slíkur þarf ekki undir neinum kringumstæðum að taka á sig slíkar skuldbindingar og getur ekki tekið þær á sig með lagabreytingum, svo sem til er ætlazt í frv. Þarf hér fullkomið samkomulag við bankann um það, nema því aðeins að ríkissjóður greiði honum það tjón, sem af því hlýzt. Um það getur ekki verið deilt. Og nákvæmlega sama er um þá aðra aðila, sem eiga þessi skuldabréf, að það verður ekki hægt undir neinum kringumstæðum að breyta bréfunum á annan hátt en gera innköllun, greiða bréfin upp og bjóða út ný bréf. Og þá er sýnilegt, hvað skeður, að ef enginn aðili er þvingaður til þess að kaupa bréfin, og það sé ég ekki, hvernig hv. minni hl, ætlar að þvinga menn til þess að kaupa bréfin með þessum vöxtum, þá verður einhver þriðji aðili að taka að sér að greiða mismuninn eða enginn maður kaupir bréfin, eins og ég tók fram í minni fyrstu ræðu. Og ég segi enn, að ef nokkur aðili er til í þessu landi í dag, sem vili taka að sér þær greiðslur, hvort heldur það er ríkissjóður eða bankar, þá er því fé miklu betur varið til þess að halda áfram að lána mönnum, sem eru að byggja, eftir þeim reglum, sem gilda um lánin, heldur en að breyta reglunum á þann hátt, sem hér er farið fram á. Ég er hárviss um, að ef þær milljónir allar væru til, sem þarf til þess að innleysa bréfin eða bæta eigendunum tjónið, eftir að frv. yrði lögfest, þá er þeim milljónum miklu betur varið til nýrra lána handa þeim mönnum, sem nú eru að byggja, heldur en til þess að kaupa upp og greiða tjón, sem hlýtur að verða af því að lækka vextina. Og ég veit, að hv. 4. þm. Reykn. viðurkennir, að slíkt hlyti að vera miklu heppilegri lausn á málinu, ef þetta fé væri til. Sannleikurinn er sá, að þetta fé er ekki handbært í dag. Það er ekki handbært hjá ríkissjóði og því óhjákvæmilegt að gera sérstakar ráðstafanir, ef þess fjár ætti að afla og bankarnir eru ekki viljugir til þess að leggja fram þær upphæðir, sem þyrfti til þess að koma þessu máli í þetta horf. Það er meginástæðan fyrir því, að meiri hl. leggur til, að frv. verði fellt.

Meiri hl. tekur það einnig fram, að hann lítur svo á, að ef frv. þetta verður samþ., þá væri verið að skapa hér tvenns konar rétt í þjóðfélaginu í sambandi við byggingar. En það er ekkert nýtt, þótt hv. minni hl. n. vilji skapa tvenns konar rétt í þjóðfélaginu. Það er gömul saga, og á þeirri lífsskoðun byggjast þær till. að endurgreiða innflutningstoll af þessum húsum af vissri stærð. Væri stærð þeirra svo sem 10 m2 meiri, skyldi tollurinn ekki endurgreiddur. Þeir menn, sem hefðu byggt áður, eða þeir menn, sem byggja síðar, fengju ekki heldur endurgreiddan tollinn. Hér er verið að skapa ranglæti í þessum málum. Þessi mál þarf að leysa á allt annan hátt en að skapa meiri vandræði við lausn þeirra en þau vandræði, sem fyrir eru.

Við skulum ekki loka augunum fyrir því, að húsnæðismál okkar þjóðar er ákaflega mikið vandamál. En það er ekki eingöngu vandamál fyrir lágtekjumenn, það er einnig vandamál fyrir svo að segja alla menn í þessu þjóðfélagi. Eigandi íbúðar, sem hv. frsm. minni hl. talaði um að mundi kosta um 400 þús. kr., mundi þurfa um 50 þús. kr. á ári til þess að standa undir vöxtum og afborgunum með þeim vaxtakjörum, sem eru nú, þarf a.m.k. 12% til þess að standa undir vöxtum, sköttum, viðhaldi og afborgunum af húsinu. Hvaða verkamaður í þessu landi hefur ráð á að búa í slíkri íbúð? Ég er ekki að segja, að þeir eigi að búa í minni íbúð, en það sýnir vandann, sem við er að glíma. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það séu margir embættismenn, sem hafa ráð á því að greiða upp undir 50 þús. kr. á ári í húsaleigu, og er því sýnilegt, að málið er svo mikið vandamál, að það verður að taka á því allt öðrum tökum en er ætlazt til í þessu frv. Það er orðið mikið þjóðarvandamál, hvernig á að lækka byggingarkostnað íbúða í landinu almennt, og þá skulum við jafnframt athuga: Af hverju hefur byggingarkostnaðurinn stigið svo sem raun ber vitni um? Hann hefur stigið fyrir það, að fellt hefur verið hér gengi þráfaldlega, ekki af ríkisstj., heldur af fólkinu sjálfu, vegna þess að það hefur gert meiri kröfur til launa en framleiðsla landsins hefur getað staðið undir. Þess vegna höfum við komizt í gjaldeyriserfiðleika, að okkar útflutningur hefur ekki verið eins mikill og innflutningurinn. Og því meira sem lagt er af fé og vinnu til þess að byggja upp íbúðarhús eða eitthvað annað í landinu, sem eykur ekki útflutninginn, því meiri erfiðleika skapar það í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Þessi mál eru miklu flóknari en svo, að hægt sé að leysa þau á þann hátt, sem lagt er til í þessu frv.

Þá fannst hv. frsm. minni hl. það ekki einungis vera fjarstæða, heldur og ganga glæpi næst að leyfa sér að hafa það sem rök fyrir frávísun frv., að málið væri í athugun í n., og lagði á það mikla áherzlu. Hann fullyrti einnig, að núv. hæstv. ríkisstj. væri búin að hlúa að öllum sínum stuðningsmönnum hér á þingi með því að skipa þá í ýmiss konar launaðar nefndir, til þess að þeir þannig fengju hærra þingfararkaup. Og það er m.a. talin ein ástæðan fyrir því, að ekki ætti að bíða eftir áliti nefndar, því að vel gætu þeir menn haldið málunum svo lengi sem þeim sýndist til þess að hafa sem lengst launin. Ég vil nú í fyrsta lagi fullkomlega mótmæla þessu og skora á hv. þm. að færa sönnur fyrir því t.d., í hvaða nefndum ég hafi verið, því að allan þann tíma, sem ég hef setið hér á Alþingi, hef ég forðazt sem mest launuð nefndarstörf. Ég skora því á hv. þm. að finna þessum sínum orðum stað. (Gripið fram í.) Hvaða nefnd er það, með leyfi? (Gripið fram í: Flugmál á Vestfjörðum.) Ég vil upplýsa hv. þm. um það, að ég hef unnið að tillögum til umbóta í flugmálum Vestfjarða og ekki fengið einn einasta eyri fyrir og aldrei gert kröfu um það. Ef hv. þm. byggir fullyrðingar sínar á slíkum getgátum, að menn fengju einhvern tíma eitthvað fyrir það, sem þeir eru að gera, er slíkt ekki frambærilegt. Hv. þm. ætti því að taka þessi orð sín aftur. Ég er búinn að sitja hér í fjöldamörgum nefndum, síðan ég kom fyrst á þing, og með þeim störfum hafa ekki verið hækkuð mín laun, sama mun fjöldi annarra þm. geta sagt.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, að meginrökin fyrir því, að meiri hl. vildi fresta afgreiðslu málsins frá nefnd, var sú, að n. vissi, að það voru á ferðinni till. um þessi mál. Þess vegna óskuðum við eftir því, að málið mætti bíða, þar til þær lægju fyrir, en þeirri ósk var ekki mætt af hv. minni hl. Hann krafðist þess, að málið væri afgr. til 2. umr., eins og nú hefur verið gert. En nú hefur komið á daginn, að einmitt þessi nefnd, sem hæstv. ríkisstj. hefur sett til þess að athuga þessi mál, hefur þegar skilað sínum tillögum, og það hefur verið lagt fram frv. til laga sem stjórnarfrv. um þessi mál. Þætti mér eðlilegast, að hæstv. forseti frestaði að taka þessi mál á dagskrá, þangað til það frv. kemur til umræðu, vegna þess að það fjallar um nákvæmlega sama mál. Mætti þá koma fram brtt. við það frv. í samræmi við ákvæði þessa frv. Að ekki fékkst samkomulag um frestun afgreiðslu á þessu máli frá n., kom til af því, að minni hl. treysti því ekki, að tillögur kæmu bráðlega frá nefndinni. En nú er þetta mál komið fram, og þar er m.a. tekið upp sams konar ákvæði og er á þskj. 75, þ.e. í frv. hv. 4. þm. Reykn. um að hækka hámarkið. Þess vegna sýnist mér, að það ætti að fresta umr. um þetta mál einnig, þar til stjórnarfrv. kemur hér til umræðu, og það sé engin ástæða til að eyða tíma þingsins til þess að ræða þessi mál, því að það er allt nákvæmlega sama málið. Ég geri ekki ráð fyrir því, að umræður þessar breyti skoðun þm. almennt um meginatriðin, og þótt svo væri, mundi heppilegra að ákveða þetta í einum lögum en að setja um það þrenn lög á sama þingi.

Mín skoðun er sú, og hún er alveg óbreytt, að ef ekkert er gert annað en samþ. það frv., sem hér liggur fyrir, þá sé verið að torvelda þessum mönnum að byggja, en ekki verið að hjálpa þeim, því að þær ráðstafanir, sem frv. gerir ráð fyrir, mundu skapa slíka erfiðleika, að það mundi vera enn torveldara í framtíðinni að leysa þann vanda, sem hér er á ferðinni. Þess vegna er ég algerlega á móti því, að ákvæði þessa frv. verði lögfest.

Ég vil m.a. benda á, að það var eitt sinn heimilað í lögunum um húsnæðismál að endurgreiða innflutningstoll af húsum, sem flutt voru inn frá Svíþjóð á árinu 1945. Viðkomandi hæstv. ráðherra notaði aldrei þá heimild, og það var m.a. vegna þess, að það voru aðeins flutt inn tvö hús á árinu 1945, en meginhluti húsanna var fluttur inn 1946 og 1947. Hann óskaði heimildar á ný til þess að mega endurgreiða tollinn af þeim húsum, sem síðar voru flutt inn. Þessi till. var þrisvar sinnum felld hér af meiri hl. Alþ. og Alþ. heimilaði því ekki að endurgreiða innflutningstollinn, og til þess lágu nákvæmlega sömu rök og nú, að það væri verið að skapa misrétti á milli þeirra manna, sem þá voru að byggja. Og það voru ekki eingöngu sjálfstæðismenn, sem stóðu að því á þeim tíma, það er hægt að fletta upp í þskj. til að sjá, hvort það hafi ekki einnig verið bæði framsóknarmenn og ég held einnig Alþýðuflokksmenn, sem stóðu að því að fella þessa till. Það er svo allt annað atriði, að þáverandi hv. fjmrh. Framsfl. greiddi miklu síðar þetta án nokkurrar heimildar. Hann gerði það náttúrlega á sina ábyrgð, en Alþ. hafði þrisvar sinnum neitað um heimildina og aldrei samþ. hana. Og þegar litið er á, að nýlega er búið að fella hér till. um að undanþiggja innflutningsgjöldum jafnnauðsynleg framleiðslutæki og búvélar bænda til þess að standa undir framleiðslu landsmanna, þá teldi ég það hvorki viturlegt né eðlilegt, að samþ. væri till. um að endurgreiða innflutningstoll á byggingarefni. Þetta vandamál verður ekki leyst með því að skapa aðra erfiðleika, sem verður enn erfiðara að glíma við.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál hér núna. Þetta mál verður sjálfsagt rætt hér ýtarlega, þegar stjórnarfrv. um þetta mál kemur til umræðu, og vil ég í því sambandi spyrja hv. 4. þm. Reykn., hvort honum mundi ekki þykja eðlilegt, að frestað væri fyrirtöku á næsta máli, þ.e. 58. máli, sem snertir nákvæmlega þetta sama atriði, þar til umr. fara fram um frv. ríkisstjórnarinnar um sama mál. Ég sé ekki, að það sé neinum til hagsbóta, að vera að eyða tíma þingsins í að vera að ræða nákvæmlega sama atriði og þar er tekið upp í frv., og skýt ég því þess vegna til forseta, hvort ekki sé rétt að fresta nú þessari umræðu og taka málið út af dagskrá.