03.04.1962
Neðri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2557)

171. mál, almannavarnir

Fram. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Hæstv. forseti. Það er tiltölulega skammt síðan útbýti var hér á Alþingi allstórri bók, sem heitir: „Frumvarp til laga um almannavarnir“. Þetta er í fyrsta lagi frumvarpsbálkur allmikill í nokkuð mörgum höflum, einum 6 köflum. Fyrsti kaflinn er um almenn ákvæði. Annar kafli frv. er um skipulag almannavarna. Þriðji kaflinn er um hjálparlið. Fjórði kafli er um einkavarnir. Fimmti kaflinn er um flutning fólks af hættusvæðum. Og sjötti og lokakaflinn er um ýmis ákvæði.

Þessu mikla frv. fylgja svo aths., eins og venjulegt er. En það er ekki nóg. Efni þessa frv. er að mörgu leyti, eins og hv. frsm. meiri hl. heilbr.-og félmn. sagði hér áðan, allfjarlægt hugsunarhætti Íslendinga, og þarf því að útlista málið allvel fyrir þeim. Auk skýringanna, sem fylgja um einstakar greinar, eru svo nokkur fskj. með frv. Það er í fyrsta lagi skýrsla loftvarnanefndar Reykjavíkur allt frá því í desember 1956 um víðtækt starf þessarar nefndar. Þar á meðal eru undirkaflar í þeirri skýrslu um stjórn stöðva, aðvörunarkerfi, fjarskipti, hjúkrunar- og líknarmál, eldvarnir og loftvarnabyrgi, birgðageymslur, hjálparsveitir og ýmislegt fleira. Og enn fylgir hér bréf loftvarnanefndar Reykjavíkur frá því í október 1961 og svo gífurlega mikil upplýsingaskjöl frá tveimur erlendum sérfræðingum. Þar er fyrst að telja álitsgerð norsks hershöfðingja, Holtermanns að nafni. Hann fræðir okkur þar um ýmiss konar viðvörunarstarfsemi, skýlingu, myrkvun og skipulagningu almannavarna, um geislavirkt úrfall, auka- eða aðstoðarsjúkrahús og margt fleira. En þegar búið er að sjá fyrir fræðslu um hernaðarlegu hliðina, þá kemur hér fjórða fskj. frá dönskum lækni, Toftemark að nafni, og hans fræðsluritgerð er upp á margar síður, þó fyrst og fremst um aðgerðir Dana í þessum efnum, en þó einnig ráðleggingar til okkar út frá hans sérfræðisjónarmiði.

Þannig var þetta mál lagt fyrir, og má segja, að þar sé mikill pappír og mikið lesmál, en hins vegar naumur tími til þess að kryfja þetta mál til mergjar, eins og fleiri mál, sem nú berast hv. Alþingi til meðferðar og úrlausnar. Þetta kemur allt í einu eiginlega, og gefst mjög naumur tími til þess að kynna sér málin. Ég verð að játa það t.d. fyrir mitt leyti, að ég hef ekki haft tíma til að lesa þessar fræðsluritgerðir, sem hér með fylgja, hvorki hershöfðingjans norska né danska læknisins, og hefði mér þó ekki veitt af til þess að kynnast þessu máli rækilega og þeim aðgerðum, sem hér er lagt til að verði heimilaðar í íslenzkum lögum. Sannast sagna er það, eins og hv. frsm. meiri hl. drap á, að hugur minn er allfjarlægur og lítið innstilltur á þær skelfingar, sem menn hljóta að reikna með að séu yfirvofandi, til þess að þeir vilji leggja tugi milljóna króna til varúðaraðgerða og ráðstafana í sambandi við almannavarnir, því að það yrði niðurstaðan, ef heimildir þessa frv. væru notaðar eitthvað í námunda við það að fullu. Það er áreiðanlegt, að það yrðu margra millj. útgjöld, sem því fylgdu að framkvæma heimildir þær, sem felast í þessu frv.

Rétt er það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að nokkrir fundir voru haldnir um þetta mál í heilbr.- og félmn. Frv. sjálft var fyrst lesið, og menn ræddust við um efni þess, en að öðru leyti var ekki tími til að fara í gegnum þau fskj., sem því fylgdu. Samkomulag varð um að þiggja það, að lögreglustjórinn í Reykjavík og borgarlæknirinn í Reykjavík kæmu á fund nefndarinnar og gæfu upplýsingar og svöruðu spurningum, sem fyrir þá yrðu lagðar, og einnig formaður Sambands íslenzkra sveitarfélaga, Jónas Guðmundsson, og það gerðu þeir. Þeir mættu á fundi hjá n. og ræddu nokkuð um málið. Einna helzt ræddu þeir um aðgerðir loftvarnanefndar Reykjavíkur og skýrðu frá því, hver hefði orðið niðurstaðan af því margra ára starfi. Menn minnast þess sjálfsagt, að í nokkuð mörg ár var á fjárlögum íslenzka ríkisins í millj. kr. á ári, — til loftvarna, held ég, að liðurinn hafi heitið, — og mun Reykjavíkurborg einnig hafa lagt fram, að mér er tjáð, 750 þús. kr. á ári til loftvarna, þangað til fyrir nokkrum árum, að þessi milljónarliður var felldur niður af fjárlögum, og mun þá Reykjavíkurborg einnig hafa skömmu síðar eða samtímis fellt niður sínar fjárveitingar til þessarar starfsemi.

Þessir sérfræðingar greindu nokkuð frá því, hver hefði orðið árangurinn af þessum fjárframlögum ríkis og Reykjavíkurborgar. Þetta munu hafa orðið nokkuð margar millj. kr. og okkur var skýrt frá því, að þessu fé hefði aðallega verið varið þannig, að keyptar hefðu verið dýnur og koddar og að mér skilst ýmiss konar sjúkragögn, og hefði þessu verið komið fyrir í geymslu á nokkrum stöðum, aðallega á þrem stöðum, þó mun það vera eitthvað víðar. Og þessir sérfræðingar töldu, að þessi gögn væru öll nothæf. Fyrstu gögnin, sem hefðu verið keypt, hefðu verið miðuð við það, að þau stæðust þær kröfur, sem gerðar væru til slíkra gagna á sjúkrahúsum, bæði að því er snertir rúm og dýnur, en seinna hefði verið horfið frá því að hafa þetta svo vandaðar og dýrar vörur, og hefðu seinni árin aðallega verið keypt inn gögn, sem búast mætti við að yrðu notuð í „primitivu“ húsnæði og þar sem skemmdarhætta væri nokkur, og yrði því ekki notkun þeirra langæ. Mér skilst því, að þarna muni vera nokkuð miklar birgðir af minna vönduðum vörum, sem mundu ekki gagna til notkunar t.d. á sjúkrahúsum. En fullyrt var, að þessar vörur, sem munu hafa verið keyptar fyrir milljónafúlgur, muni vera í nothæfu húsnæði, þar sem þær skemmist ekki, og þetta sé þannig sá árangur, sem þarna liggur fyrir. Við eigum heilmikið af rúmstæðum og dýnum, ef til slíkra hluta þyrfti að grípa.

Ekki veit ég, hvort ég get tekið undir ummæli hv. frsm. meiri hl., að svo giftusamlega hefði tekizt til, að þessi gögn mundu kosta miklu meira fé, ef þyrfti að kaupa þau núna. Ég álít, að það sé heldur ógiftusamlegt, að þróun í verðlagsmálum hjá okkur skuli hafa orðið slík, að þetta sé kannske eitt af því fáa, sem hefði staðizt áhrif tveggja gengislækkana og sé þannig í fullu verðgildi enn þá miðað við það, sem var fyrir gengislækkanirnar. En þetta er sem sagt þannig, að e.t.v. er þetta nokkurs virði. Þó efa ég stórlega, að það sé þeirra milljóna virði, sem til þess var varið á miklu ódýrari tímum.

Það er vissulega satt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að þegar borin eru saman við þetta frv. lögin frá 1941 um loftvarnir, þá eru þau miklu umfangsminni og framkvæmd þeirra leiðir af sér margfalt minni kostnað en þetta frumvarpsbákn um almannavarnir. Loftvarnalögin gera aðallega ráð fyrir einhverjum aðgerðum að því er snertir Reykjavíkurborg, en þetta frv. hins vegar, eins og hér var sagt áðan, aðgerðum, sem ná til landsins alls — þjóðarinnar allrar.

Það dylst engum, að kostnaðurinn, sem af framkvæmd heimildanna í frv. mundi leiða, leggst bæði á ríkissjóð og sveitarsjóðina. Ég vakti strax athygli á því, að þær upphæðir gæti orðið býsna stórar, sem sveitarfélögunum væri ætlað að greiða, ef heimildir frv. yrðu notaðar, og það væri því mjög sanngjarnt, þar sem þetta mál væri mjög stórt í sniðum, hefði komið undir þinglok til meðferðar þingsins og þannig ekki gefizt neinn kostur á að senda það til umsagnar sveitarfélögunum, að afgreiðslu þess yrði nú frestað og það sent til umsagnar sveitarstjórnum víðs vegar um land. Að þeim fengnum í upphafi næsta þings væri mjög eðlilegt að taka málið aftur til meðferðar og sjá þá, hvernig það kynni að blasa við sveitarstjórnunum, sem að sínum hluta eiga að bera kostnað af framkvæmdum og ráðstöfunum.

Þetta fékk strax lítinn byr í nefndinni. Hv. meiri hl. hafði bersýnilega fyrirmæli um það, að þessu máli ætti að hraða, það ætli að afgr. það á þessu þingi fyrir þinglok, og fékkst ekki tekið undir það að senda málið til umsagnar sveitarstjórnunum. En á þeim fundi, sem formaður Sambands ísl. sveitarfélaga mætti á, upplýsti hann, að um það bil að viku liðinni ætti að koma saman fundur hjá stjórn og fulltrúaráði Sambands ísl. sveitarfélaga, skildist mér, og mundi hann þá leggja þetta frv. fyrir fundinn og leita eftir afstöðu fulltrúanna til málsins. Sjálfur upplýsti hann, að hann hefði ekki séð frv. fyrr en þarna á þessum fundi og væri því alveg óviðbúinn því að lýsa afstöðu sinni til þess.

Sérfræðingarnir, sem þarna voru mættir, borgarlæknir og lögreglustjórinn, gáfu nokkrar upplýsingar. En þegar farið var að leita eftir ýmsum einstökum atriðum, bera þau undir þá, þá fannst mér þeim yfirleitt verða fátt um svör og að þekking þeirra væri ekki mjög djúpstæð á þessum málum. Kom mér það sannast að segja ekkert á óvart. Þeir voru m.a. spurðir um það, hvernig hugsað væri að haga vörnum, ef geislavirkt rykský færi yfir landið og hugsunin væri sú að koma þeim byggðum landsins, hvar sem þær væru nú, eitthvað til hjálpar. Þá sögðu þeir, að þyrfti að vera til á hverjum sveitabæ skýli, þar sem fólkið gæti safnazt saman, þyrfti jafnvel að vera viðbúið margra klukkustunda eða daga dvöl. Þar þyrfti það því að hafa drykkjarvatn og fæðuföng. Og það þyrfti að vera byrgt fyrir alla glugga. Það væri bezt að gera það með því að steypa í verksmiðjumúrblokkir, sem væri dreift um landið og hlaðið fyrir utan slíka glugga. Mér datt strax í hug, að bara þessar múrblokkir, sem þyrfti að senda um gervallt Ísland, á alla sveitabæi til þess að hlaða fyrir glugga, til þess að búa út slíkt byrgi, ekki skothelt byrgi, heldur bara byrgi, til þess að fólk gæti flúið í skjól, sem nægja mundi gagnvart geislaverkun eða hjálpa eitthvað til að draga úr slíkum verkunum, það eitt mundi kosta ærinn skilding. En þá voru þeir inntir eftir því, hvernig ætti að tryggja fólki lífsloft inn í þetta lokaða byrgi, þessa kjallaravistarveru, og það kváðu þeir ætti að gera með dælu í gegnum eitthvert jarðsigti og þeir, sem í byrginu væru, ættu sjálfir að snúa þessari dælu, annað hefðu þeir ekki þar að gera, og væri því rekstur fyrirtækisins ódýr, að þeir töldu, en þannig átti að fá hreint loft og ómengað í gegnum einhvers konar jarðsigti, skildist mér.

Ég er lítið trúaður á það, að slíkt byrgi yrði útbúið á hverjum sveitabæ og matvæli höfð þar og endurnýjuð, svo að þau væru ávallt óskemmd og tiltæk, og hef ekki mikla trú á, að framkvæmd yrði á þessum varnaraðgerðum um gervallt land. En þó að svo yrði gert, þá mundi það áreiðanlega hafa ærinn kostnað í för með sér, það dylst mér ekki.

En það er ekki nóg fyrir fólkið á sveitabænum að bjargast sjálft, og það viðurkenndu sérfræðingarnir, að hugsa þyrfti eitthvað um blessaðar skepnurnar. Og þeir játuðu, að fyrir helryksskýi, sem færi yfir byggðina, væri fénaðurinn einnig í háska og hann þyrfti því að byrgja inni líka, safna honum í skyndi saman og byrgja hann inni líka. En ekki er það nóg. Þeim var bent á, að það þyrfti að annast gegningar fyrir skepnurnar og þá þyrftu menn nú eitthvað að fara út úr byrginu, ekki gæti nú fólkið innilokað í byrginu annazt gegningarnar. Því kváðust þeir vera alveg óviðbúnir að greiða úr, hvernig gegningum yrði fyrir komið að fólkinu á sveitabænum innilokuðu í byrgi, og þó ætti að sjá fyrir því, að fénaðurinn lifði af líka.

Það er víst þannig, að jafnvel okkar beztu og færustu sérfræðingar eru ekki færir um að greiða úr þeim praktísku vandkvæðum og viðfangsefnum, sem mundu blasa við okkur, ef slíka skelfingu bæri að dyrum, sem hér er verið að gera ráð fyrir í þessu frv. Og þá þarf auðvitað að kalla til hálærða erlenda sérfræðinga, og líklega þyrftum við að hafa þá einhverja hjá okkur til þess að kenna okkur, hvernig við ættum að haga okkur, þegar svona ókjör dyndu yfir. Hins vegar skal ég taka það fram, að ég hef á því enga þekkingu, hvort líta verður svo á, að yfir okkur sé slík hætta vofandi. Það má vel vera, að heimurinn, sem við erum í, sé þannig á vegi staddur, að þessi háski vofi yfir öllum þjóðum og löndum. En erfitt á ég með að setja mig inn í það, að allt mannkynið verði að lifa við slíka skelfingu og slíkan háska og verja svo og svo miklu af sínum fjármunum og starfi og lífsorku til þess að búast við slíkum undrum og ósköpum. En vera má, að þetta sé svo, og ég sé bara frá of gömlum tíma og hafi ekki tileinkað mér þessi lífsviðhorf, en aðrir hafi yfirleiti gert það.

Það þarf ekki lengi að lesa þetta frv., til þess að ljóst verði, að það eru bæði yfirvöld landsins og almenningur, sem eiga að lúta þar lítt takmörkuðu valdi dómsmrh., að því er þessi mál snertir. Varnirnar á samkv. 1. gr. að skipuleggja í þann veg, að komið verði í veg fyrir, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eigna af völdum hernaðaraðgerða, og veita líku og aðstoð vegna tjóns, sem orðið hefur, enda falli þau störf ekki undir aðra aðila samkv. lögum. En til þess að fyrirbyggja, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eigna vegna hernaðaraðgerða, þarf æði margt og mikið, margvíslegar ráðstafanir, ef það á að leiða til nokkurs öryggis. Svo mikið er alveg víst. Það er því, held ég, enginn kominn til með að segja það, hvað framkvæmd þessa frv. muni kosta. Af því var spurt á nefndarfundinum, en enginn sérfræðinganna, sem þar voru mættir, gat gefið neinar upplýsingar um það. Sú starfsemi, sem loftvarnanefnd Reykjavíkur hafði framkvæmt í nokkur ár og aðallega var fólgin í innkaupum á sjúkrarúmum og dýnum og þess háttar dóti, hafði kostað mjög margar millj. kr. úr sjóði ríkisins og Reykjavíkurborgar. Hvað er þá um alla framkvæmd þessa frv.? Já, allar þessar varnaraðgerðir eiga að lúta, samkv. 1. gr., fyrirmælum dómsmrh., og hann á að gefa sín fyrirmæli, ef að hans dómi vofir yfir háski eða tjón, annaðhvort af hernaðaraðgerðum eða af náttúruhamförum og annarri vá. Og hann getur krafizt aðstoðar opinberra aðila, einstaklinga og stofnana til undirbúnings þeim ráðstöfunum, sem felast innan ramma 1. gr., og öllum er skylt að veita bæði dómsmrh. og öðrum trúnaðarmönnum almannavarnanna þær upplýsingar, sem þeir þarfnast til þess að framkvæma þau störf, sent lögin fela þeim. Það er náttúrlega útlátaminnst, og fylgja því ekki útgjöld. En það sýnir, að landslýðurinn er lagður undir vald þessara manna, í fyrsta lagi dómsmrh. og annarra opinberra starfsmanna almannavarnanna. Á hættutímum er ríkisstj. heimilt að gefa út sérstök fyrirmæli um almenna umferð og reglur og öryggi á opinberum stöðum og svæðum, sem almenningur hefur aðgang að, og sama máli gegnir á öðrum tímum, þegar æfingar í þágu almannavarnanna standa yfir. Á hættutímum, — það virðist vera alveg á valdi dómsmrh. að segja til um það, hvenær hann telur hættutíma. Og mér skilst nú, að á undanförnum árum, a.m.k. árunum, sem loftvarnanefnd Reykjavíkur starfaði og varði nokkrum milljónum kr. til þess að kaupa sjúkrarúm og dýnur, hafi verið taldir hættutímar, og ef til vill líta menn svo á, að hættutímar séu nú og hættutímar verði, meðan stríðshættan ógnar heiminum, og þess vegna væri landslýðurinn ávallt undir ákvæðum þessara laga, og dómsmrh. gæti á hverjum tíma sem er sagt: Ég álít, að það séu hættutímar, og þess vegna nota ég heimildir laganna.

En það eru fleiri en dómsmrh. sjálfur, sem hafa mikið vald yfir landslýðnum, þegar á að framkvæma þessi lög, því að strax í 3. gr. segir, að ef hætta vofi yfir, geti lögreglustjóri bannað að nokkru eða öllu leyti notkun samkomuhúsa og annarra samkomustaða, sem almenningur hefur aðgang að. Svo verður auðvitað ekki séð fyrir framkvæmd svona laga, svo að neitt lag sé á, nema stofnað sé embætti. Og það er upphaf II. kafla frv., að dómsmrh. skipar forstöðumann almannavarnanna í landinu og setur honum erindisbréf. Þarna verður auðvitað um stórt embætti að ræða, og enginn þarf að efast um, að þetta verður ábyrgðarmikið og vandasamt embætti. Ég spurðist nokkuð fyrir um það, hvaða kröfur yrðu gerðar til slíks manns, og var sérfræðingunum heldur erfitt um svör. Þeir sögðu, að það væri auðvitað nauðsynlegt, að hann væri búinn góðri almennri menntun og væri stjórnsamur, e.t.v. væri eðlilegast, að þetta væri verkfræðingur eða læknir, og að sumum nefndarmönnum hvarflaði, að það væri kannske alveg eins gott, að hann væri guðfræðingur. En svo mikið er vist, að þetta þarf að vera hámenntaður maður, og stjórnsamur þarf hann að vera, því að hann á í raun og veru að hafa allan landslýðinn undir heraga. Og hann á að hafa mikið verksvið. Hann á að hafa á hendi heildarskipulagningu almannavarnanna, sjá um þær í þeim þáttum, sem undir ríkisvaldið falla. M.a. á hann að sjá um fjarskipti milli umdæma. Hann á að sjá um mælingu á geislavirkni, það eru opinberar vísindastofnanir, sem sjá um það núna, viðvörun, fræðslustarfsemi, hann á að sjá um kennslu yfirmanna og leiðbeinenda og skipulagningu og yfirstjórn á flutningi fólks af hættusvæðum, og hann hefur enn fremur umsjón með öllum almannavörnum sveitarfélaganna.

Ég hygg, að hann, þessi góði maður, fái ærið að starfa, ef sú ógæfa dyndi yfir þjóðina, að þessi ákvæði yrðu framkvæmd, eða ef hlaupið væri til þess að meta yfirstandandi tíma sem hættutíma, þannig að það væri farið að nota meira eða minna af heimildum frv. En það er víst, að til ýmissa sviða næði hans þekking ekki. Og þá verður að grípa til sérfræðinganna á hinum ýmsu sviðum. Er gert ráð fyrir því, að landlæknir fari skv. nánari fyrirmælum heilbrmrh. með stjórn þeirra þátta almannavarnanna, sem varða sjúkrahúsmál, læknismeðferð og hjúkrun á sjúkum og særðum. Fyrst og fremst er náttúrlega hugsað til þess, að öll sjúkrahús landsins eigi á slíkum tímum, sem metnir eru hættutímar, að lúta valdboði landlæknis í þjónustu almannavarnanna. Eru ákvæði um, að forráðamönnum sjúkrahúsa beri samkv. fyrirmælum landlæknis að undirbúa og framkvæma ráðstafanir, sem nauðsynlegar séu til þess að geta veitt sjúkum og særðum móttöku og meðferð á hættutímum. Og forstöðumönnum sjúkrahúsanna ber einnig að taka þátt í undirbúningi að stofnun og rekstri varasjúkrahúsa. Sérfræðingarnir tjáðu okkur, að það hefðu verið gerðar sérstakar athuganir á því, hvar væri tiltækilegast að koma upp varasjúkrahúsum í nágrenni Reykjavíkur, og töldu þeir, að það væri fyrst og fremst Reykjalundur og í annan stað samkomuhús eins og Hlégarður, og sögðu, að það hefðu verið gerðar ráðstafanir, að einhverju leyti í sambandi við byggingu Reykjalundar, til að leggja nauðsynlegar leiðslur um þær byggingar með tilliti til þess, sem vera þyrfti, ef þessi bygging yrði tekin sem varasjúkrahús.

En þó að þessi tvö hús yrðu tekin sem varasjúkrahús, ef Reykjavíkurborg í heild yrði fyrir ógæfu stríðsárásar, þá er augljóst mál, að það hrykki skammt, og hlýtur því undirbúningurinn að miðast við það, að litið sé í fleiri horn, og sögðu þeir það líka vera, sögðu t.d., að það hefði verið litið á Laugarvatn með slíkt fyrir augum og einhverja fleiri staði, en töldu þó, að engar framkvæmdir hefðu verið inntar af hendi í sambandi við það. En þetta sýnir manni þó, hversu gífurlega víðtækur bara þessi eini þáttur er, ef það ætti að framkvæma bara 5. gr. frv. um það að koma upp varasjúkrahúsum, sem einhverja þýðingu hefðu og öryggi gæfu, t.d. íbúum Reykjavíkurborgar.

Talið barst auðvitað að því í nefndinni við sérfræðingana, að ekki mætti hugsa eingöngu um Reykjavíkurborg í sambandi við varasjúkrahús, og kváðu þeir það rétt vera, þar væri auðvitað landið allt vettvangur, starfssvið. Það hefði ekki verið athugað t.d. með Akureyrarkaupstað, Ísafjörð eða neina aðra kaupstaði, hvernig ætti að leysa varasjúkrahúsamál þeirra, ef til kæmi, og allt þetta yrði að bíða þess, að embættismenn almannavarnanna tækju þessi mál til skipulegrar meðferðar.

Sama er náttúrlega að segja um það, sem felst í 4. gr., ef kæmi til brottflutnings á mönnum úr bæjum eða kauptúnum hér á landi, að það er vitanlega hugsað að falla undir verksvið sjálfs almannavarnastjórans, forstöðumanns almannavarnanna, og þeirra leiðbeinenda, sem hann sérmenntaði til slíkra starfa. En allt það bendir líka mjög í allískyggilega kostnaðarátt.

En þó verður náttúrlega fyrst og fremst fyrir manni þessi spurning: Er líklegt, að íslenzka þjóðin geti nokkurn tíma lagt í svo mikinn kostnað í sambandi við þessi mál, að þjóðin væri að marki öruggari eftir? Það er spurningin. Það væri til mikils vinnandi í þessum efnum, ef hægt væri að fullyrða, að unnt væri að búa þjóðinni, þótt með ærnum kostnaði væri, eitthvert öryggi. En það fer ýmsum sögum um það, hvort það mundi vera hægt.

Auk forstjóra almannavarnanna á svo ráðh. að skipa almannavarnaráð, og skal það vera til ráðuneytis um alla framkvæmd þessara laga. Gert er ráð fyrir því, að auk forstöðumannsins, framkvæmdastjóra almannavarnanna, sem á að vera formaður almannavarnaráðs, sitji í því landlæknir, lögreglustjórinn í Reykjavík, póst- og símamálastjóri og vegamálastjóri. Vonandi væri bara, að landlæknir þyrfti ekki að verða svo upptekinn af þessum viðamiklu og víðtæku störfum og vegamálastjórinn og póst- og símamálastjórinn, að þeim gæfist ekki fullt tóm til þess að sinna sínum aðalembættisverkum. En svo mikið er víst, að ef þeir ættu að líta í öll þau horn, þar sem gert er ráð fyrir framkvæmdum samkv. þessu frv., þá þarf enginn um það að efast, að þessir embættismenn ríkisins, sem sæti tækju í almannavarnaráði, fengju ærið að starfa. Ef menn hins vegar segja: Þetta eru nú bara heimildir allt saman, og það verður lítið sem ekkert af þessu gert, þá er ekki eins mikil nauðsyn á að reka þetta mál í gegn nú á fáum dögum athuganalítið eins og látið er í veðri vaka, að nauðsynlegt sé.

Ég spurðist mjög fyrir um það, hvað væri fyrirhugað af aðkallandi aðgerðum að áliti lögreglustjórans í Reykjavík og borgarlæknisins í Reykjavík, og þeir gátu engin svör, svo að ég muni, gefið nefndinni um það. Þeir gátu engin svör gefið um, hvað væri aðkallandi að gera, t.d. á árinu 1962, sem nauðsynlegt væri að fá nú lagaheimildir fyrir. Um það vissu þeir ekkert. Þar yrði allt að koma frá dómsmrh., sögðu þeir, og þeim manni, sem skipaður yrði sem framkvæmdastjóri almannavarna. Um það vissu þeir ekkert, og fór ég þá að láta mér detta í hug, að málinu lægi ekki alveg eins mikið á og látið var í veðri vaka.

Lögreglustjórarnir úti um landið eiga að fara með stjórn almannavarna hver í sínu umdæmi. Ráðstafanir til almannavarna á að hefja undireins á þeim stað, sem ríkisstj. ákveður, í samráði þó við hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sýslunefnd, og er ráðh. heimilt að ákveða, að grannhéruð eða bæir hafi samstarf um almannavarnir og veiti gagnkvæma aðstoð. Af þessari grein skilst mér t.d., að ráðh. geti ákveðið, að grannhéruð Reykjavíkur, segjum Kópavogskaupstaður, Seltjarnarneshreppur, Garðahreppur og sveitarfélögin hér í grennd og Hafnarfjarðarkaupstaður, skuli öll hafa samstarf um almannavarnir og veita gagnkvæma aðstoð. Nú gæti að vísu verið mismunandi sterkur áhugi fyrir því að leggja fram fé úr almannasjóði til þessara hluta í hinum ýmsu sveitarfélögum, og væri þá þarna komið yfirvald yfir sveitarstjórnirnar, sem vafalaust skæri úr um það, að sveitarfélögin yrðu, hvort sem þau væru viljug eða nauðug, að leggja fram það fé, sem sameiginlega teldist þurfa að leggja á fólkið vegna þessara aðgerða. Það sýnir manni strax, að það er full ástæða til þess að skella ekki þessum lagabálki á, gera hann ekki að lögum, fyrr en sveitarstjórnirnar hafa verið spurðar, til þess að vita, hvort þær séu fúsar til að gangast undir þetta vald, sem svo getur gripið inn í þeirra fjárhagsmál.

Það er alveg bersýnilegt, að frv. er ekki aðeins ætlað að ná til kaupstaðanna, því að í því stendur: „Í kaupstöðum og annars staðar, þar sem ástæða þykir til, skipa sveitarstjórnir almannavarnanefndir“.

Ákvæði er um það, hvernig almannavarnanefnd Reykjavíkur eigi að vera skipuð. Í henni eiga að vera borgarstjórinn, lögreglustjórinn, borgarlæknirinn, borgarverkfræðingurinn, slökkviliðsstjórinn og tveir menn aðrir, sem borgarráð vetur. Þessir menn eiga að vera í almannavarnanefnd Reykjavíkur. En nokkrir þeirra eru einnig í almannavarnaráði Íslands, svo að þeirra embættisstörf verða nokkuð margþætt í samhandi við framkvæmd þessa frv. Þeir fá áreiðanlega nokkuð mikið af fundasetum, bæði í almannavarnanefnd Reykjavíkur og almannavarnaráði Íslands, þar sem þeir eiga hvoru tveggja hlutverkinu að gegna auk sinna embættisstarfa. Annars staðar á landinu skulu almannavarnanefndirnar vera skipaðar bæjarstjóranum eða oddvitanum, lögreglustjóra, héraðslækni, bæjarverkfræðingi, þar sem hann er, en annars byggingarfulltrúa, eftir ákvörðun sveitarstjórnarinnar, og slökkviliðsstjóra. Ef þessir nefndu embættismenn eru ekki heimilisfastir á þeim stað, þar sem ástæða þykir til almannavarna, skulu lögreglustjóri og héraðslæknir þess umdæmis ásamt bæjarstjóra eða oddvita á staðnum tilnefna í þeirra stað menn, sem sveitarstjórnin skipar til starfsins. Héraðslæknarnir eiða að vera þarna. Það er þá svo bezt, að það væri ekki í læknislausu héruðunum, sem eru þó nokkuð mörg stundum. En þar sem læknislaust er, þar kemur það sjálfsagt á oddvitann eða sveitarstjórnina að setja menn í þeirra stað, þó að það sæti sé vandfyllt, því að vitanlega eiga þessir menn að leggja til sérfræðilega þekkingu í sjúkrahúsa- og heilbrigðismálum, einmitt í sambandi við þessi alvarlegu mál.

Almannavarnanefndin í Reykjavík kemur til með að starfa undir forsæti borgarstjórans, en einnig á hún að hafa sérstakan framkvæmdastjóra, svo að þar verður eitt embættið og áreiðanlega nokkuð viðamikið, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar Reykjavíkurborgar. Í öðrum sveitarfélögum verða það bæjarstjórarnir eða oddvitarnir, sem verða formenn nefndarinnar, og verður náttúrlega undir atvikum komið, hvort starfið verður svo viðtækt, að þar þurfi einnig að skipa framkvæmdastjóra til þess að framkvæma verkefnið. En þó má búast við því á ýmsum stöðum, að þess þurfi, við skulum segja hjá hinum stærri bæjarfélögum.

Það liggur í hlutarins eðli, að almannavarnanefndirnar eiga að sjá um skipulagningu og framkvæmd almannavarnanna, allt undir valdboði dómsmrh. og forstjóra almannavarna í landinu. Svo er gert ráð fyrir því, að upp verði byggt skipulagt hjálparkerfi, í fyrsta lagi svokallað viðvörunarkerfi. Ég er alls ófróður um, hversu víðtækt það á að vera. En í öðru lagi verður það verkefni almannavarnanefnda að annast skipulagningu hjálparstarfs og hjálparliða, þjálfun þeirra og búnað, og hjálparliðunum má skipta, stendur hér, í hverfisflokka, sem gegni störfum í ákveðnu hverfi þéttbýlis, og umdæmissveitir, sem koma til aðstoðar, ef tjón er svo umfangsmikið, að hverfisflokkur fær ekki við ráðið. Þetta virðist vera flókið starfskerfi, og er líklega ætlazt til þess, að almenningur sé skráður í slíkar hjálparsveitir og til hans verði kallað, hvernig sem á stendur. Betra er þá líklega, að það væru ekki menn úti á sjó hingað og þangað, sem væru í þessum sveitum, því að þá væru þeir ekki nærtækir alltaf hjá okkur. Flokkar umdæmissveita skulu vera þjálfaðir í einstökum greinum almannavarna, svo sem í eldvörnum, í björgun og sjúkraflutningum, ruðningsstarfi og hjálparstarfi vegna tjóns af völdum geislavirkni, sýkla eða eiturefna. Þeir skulu vera þjálfaðir í löggæzlu, fjarskiptaþjónustu, tækniþjónustu og félagslegu hjálparstarfi. Það er áreiðanlegt, að það verður margt námskeiðið að halda, þar til um það bit, að þetta er allt komið í framkvæmd. Það verður mikil kennsla og margvísleg, og það þarf margan sérfræðinginn þarna, og það er næsta ólíklegt, að allt þetta kennslustarf verði innt af hendi ókeypis. Þykir mér því allt benda til, að þessi upptalning, sem hér er í greininni, 9. gr., kosti allmikið fé. Ég get varla séð annað.

Almannavarnanefndirnar eiga svo að hafa eftirlit með einkavörnum í íbúðarhúsum og í atvinnufyrirtækjum og stofnunum og eiga að annast leiðbeiningar á því sviði. Þær eiga einnig, almannavarnanefndirnar, að sjá um byggingu og búnað og rekstur opinberra öryggisbyrgja samkv. áætlun, sem ráðh. samþykkir hverju sinni. hað á líka að koma upp stjórnstöðvum, fjarskiptakerfi, birgðageymslum og birgðavörzlu, og fram a að fara undirbúningur og aðstoð vegna brottflutnings og móttöku fólks af hættusvæði, og aðrar ráðstafanir, sem ráðherra kveður á um, að fengnum tillögum almannavarnaráðs, eiga að heyra undir sérhverja almannavarnanefnd.

Ég býst nú við, að það þurfi varla að rekja efni frv. miklu ýtarlegar en ég hef nú gert, til þess að sérhver hv. alþm. sjái, að verði heimildir frv. notaðar, þá leiðir af þessu margra tuga milljóna útgjöld, hjá því getur ekki farið, og þeim er ætlað að deilast á ríkissjóð og sveitarfélögin og alls konar kvaðir og skyldur auk þess á einstaklingana.

Í framhaldsköflum frv. er nánar útskýrt, hvað felist t.d. í orðinu „hjálparlið“. Þar segir, að það sé borgaraleg skylda allra þeirra, sem eru á aldrinum 18–65 ára, að gegna án endurgjalds starfi í þágu almannavarnanna í því umdæmi, sem þeir dveljast í, samkv. fyrirmælum, sem lögreglustjórinn gefur út, að fengnum tillögum almannavarnanefndar. Ákvörðun lögreglustjórans má skjóta til dómsmrh. Aðra undankomuleið eiga einstaklingarnir ekki, að ef þeir neita fyrirmælum lögreglustjórans, þá úrskurðar dómsmrh., hvort þessar kvaðir skuli lagðar á einstaklingana. Það er borgaraleg skylda allra á aldrinum frá 18 til 65 ára að gegna án endurgjalds starfi í þágu almannavarnanna í því umdæmi, þar sem þeir eiga heima. Þetta líkist mjög herskylduákvæðum, en að því leyti verra, að það er ekki bara herskyldutími 11/2 ár eða 2 ár eða 3 ár, það er á aldrinum frá 18–65 ára, sem menn eru undir þessari skyldu. Þá má kalla alla þá, sem eru á aldrinum frá 16 til 18 eða yfir 65 ára til starfs líka, ef þeir óska þess sjálfir, en það er ekki skylda, svo að yztu mörkin eru þau, að það megi einnig kalla unglinga yngri en 18 ára og gamalmenni eldri en 65 ára til starfa.

Ef hætta vofir yfir eða tjón hefur orðið, má kveðja hvern fulltíða mann, sem tiltækur er, til tafarlausrar aðstoðar við störf í þágu almannavarnanna. Hann skal, hvernig sem á hans störfum stendur, hlýða kalli og hverfa frá sínu verki. Menn eru greinilega undir gífurlega ströngum aga.

Þeir, sem eiga að starfa í hjálparliðum, skulu taka þátt í námskeiðum og æfingum, sem þeir hafa verið kvaddir til, og þeim ber að hlýða fyrirmælum og fara eftir starfsreglum. Óheimilt er að hverfa úr starfi án leyfis. Og enn, ef hætta vofir yfir, — og það virðist vera að mati dómsmrh. eða þeirra embættismanna, sem fara með vald í hans umboði, — ef hætta vofir yfir, má starfsmaður ekki fara út úr lögsagnarumdæminu án samþykkis lögreglustjóra eða þess, sem hann tilnefnir. Hvað sem einstaklingi liggur á að fara sinna erinda út úr lögsagnarumdæminu, þá má hann ekki gera það nema með samþykki yfirvalds, ef litið er svo á, að hættutími sé yfirvofandi.

Það kemur í hlut dómsmrh. að setja reglur um starfsskyldu, og á að stefna að því, að starfskvöðin komi sem réttlátast niður á borgarana. Ráðh. getur ákveðið hámarkstíma fyrir skyldunám og æfingar í þágu almannavarna. Það lýtur alveg einræðisvaldi ráðh. að ákveða, hvað miklum tíma menn skuli verja í námskeið og þjálfun. Og engir varnaglar eru um það, að ráðh. verði að haga þessum fyrirmælum í samráði við viðkomandi mann eða taka tillit til hans starfa, hvernig þau eru. Hann gefur bara fyrirmælin, og einstaklingurinn verður að lúta því. Ég get ekki að því gert, að ég tel, að hér sé einstaklingsfrelsið skert meira en ég veit til að tekið hafi verið í mál í nokkurri annarri löggjöf, sem fyrir Alþingi Íslendinga hefur legið. Það er varla hægt að segja, að einstaklingurinn geti hrært sig frjálst án leyfis valdsmanns, ef metið er, að hættutími sé yfirvofandi.

Ég hafði ekki gert mér neina nákvæma grein fyrir því, hvað fælist í orðinu „einkavarnir“, sem eru oft nefndar í þessu frv. En það er í IV. kafla frv. útlistað allýtarlega, hvað það sé, sem falli undir einkavarnirnar. Þar segir fyrst, að fyrirtækjum, sem hafa yfir 100 manns við störf á sama stað, — þau eru nú ekki mörg hér á landi, þau fyrirtæki, sem betur fer að þessu leyti, — er skylt samkv. fyrirmælum almannavarnanefndar að gera öryggisráðstafanir á vinnustað í því skyni að draga úr afleiðingum tjóns vegna hernaðaraðgerða. Ráðh. getur leyst fyrirtæki undan skyldu til einkavarna, en hann getur einnig, ef sérstaklega stendur á, fyrirskipað einkavarnir á vinnustað, enda þótt færri starfi þar en 100 manns. Nákvæmar er nú ekki farið út í það, hve kostnaðarsamar aðgerðir geti þarna verið samkv. fyrirmælum ráðh. lagðar á fyrirtæki. En ef þetta á að vera t.d. útbúnaður sprengjuheldra öryggisbyrgja fyrir mannskapinn, þá getur það verið allkostnaðarsamt.

Í kaupstöðum og annars staðar, þar sem ástæða þykir til, getur almannavarnanefnd skipt svæðum í hverfi, líklega bæjunum í smáhverfi, og ber þá íbúum hvers hverfis að annast einkavarnir með gagnkvæmri hjálp í hverfinu og samkv. nánari reglum, sem ráðh. setur. Einstaklingarnir fá því allmiklar skyldur á herðar í sambandi við þetta frv., ekki síður en hinir opinberu starfsmenn, sem vissulega fá í mörg horn að líta. Sérhverjum húseiganda er skylt, hinu opinbera alveg að kostnaðarlausu, að hafa í húsum sínum nauðsynleg björgunar- og eldvarnartæki, eftir því sem almannavarnanefndin ákveður nánar. Hvort þessi tæki eru dýr, skal ég ekki segja, en húseigendur verða að kaupa þau tæki, sem almannavarnanefndin segir að séu þeim nauðsynleg. Ef mannvirki er þannig háttað, að eyðing þess eða skemmdir á því geta haft í för með sér verulega hættu fyrir umhverfið, þá getur ráðh. fyrirskipað eigandanum eða umráðamanni fyrirtækisins að gera viðeigandi öryggisráðstafanir, enda taki ríkissjóður þá þátt í kostnaðinum. Meginkostnaðinn á viðkomandi eigandi að bera.

Í frv. er einnig ákvæði um það, að trúnaðarmönnum almannavarnanna sé heimill aðgangur að sérhverjum fasteignum til eftirlits með ráðstöfunum til einkavarna. Ef þeir segjast vera komnir þeirra erinda að gera ráðstafanir til einkavarna, eiga þeir aðgang að sérhverju mannvirki.

Að því er snertir ráðstafanir vegna skipa, flugvéla og annarra samgöngutækja, segir bara, að ráðh. geti ákveðið, í hverju slíkar ráðstafanir til öryggis skuli vera fólgnar. Innan þessa ramma setur ráðh. svo í reglugerð nánari ákvæði um einkavarnirnar, þar sem m.a. verða ákveðnar hámarkskvaðir, sem leggja megi á atvinnufyrirtæki og húseigendur. Fyrr en sú reglugerð sér dagsins ljós, sér maður ekki til fulls, hversu viðtækar kvaðir verði lagðar á einstaklinga og fyrirtæki. Það eins og annað verður þannig ákveðið af dómsmrh.

Þá er hér kafli um flutning fólks af hættusvæðum, og sjá allir í hendi, að það getur verið ærið umfangsmikið fyrirtæki. Þar segir, að ef brýna nauðsyn beri til að flytja fólk af einhverju hættusvæði og koma því fyrir á öruggari stöðum, geti ríkisstjórnin ákveðið brottflutning. Og ráðh. á að setja reglur um áætlun um framkvæmd brottflutningsins. En hvar þeir öruggu staðir séu, sem fólk verði flutt til, það á maður erfitt með að sjá, eins og nútímahernaði er háttað. Hætturnar eru þá ekki eins bundnar við staði og áður var, heldur virðast þær geta verið alls staðar.

Enn er áréttað, að engum sé heimilt án sérstaks leyfis að flytja frá þeim stað, sem honum hefur verið vísað á. Þar verður hann að vera, þangað til hann fær fyrirmæli um að víkja af þeim stað.

Það mundi nú einhver segja, að hér væri, í þeim ákvæðum, sem ég nú skal greina frá, gengið allnærri ákvæðum stjórnarskrárinnar um eignarréttinn. En hvað er að fást um það? Ríkisstj. skal vera heimilt samkv. þessu frv. að taka eignarnámi eða leigunámi skip, vélknúin ökutæki og flugvélar í því skyni að greiða fyrir brottflutningi þess fólks, sem getur ekki séð sér sjálft fyrir farkosti, svo og lendur og hvers konar húsnæði má taka leigunámi, ef völ er á því, flóttafólki til öryggis, skjóls og aðhlynningar. Hvenær ástæða sé til þessa, það metur ráðh. einn, skilst mér. Á neyðarstundu er heimilt að gefa eiganda eða umráðamanni húsnæðis fyrirmæli um það að taka við fólki í hús sitt, ef það hefur verið flutt af hættusvæði, veita því húsaskjól og fæði, ef nauðsynlegt er.

Sveitarfélag, — hér kemur nokkuð um byrði, sem lögð er á sveitarfélag, — sveitarfélag, sem fólk er flutt frá, á að greiða kostnað vegna húsnæðis og fæðis, sem látið er í té samkv. þessari grein, en það á kröfu um endurheimt af þeim, sem fyrirgreiðslunnar hafa notið. Sveitarfélagið á að borga fyrir fólk, sem hefur verið flutt í burtu, en getur krafið einstaklingana um það á eftir. Það er hætt við, að einhver vanhöld kynnu að verða á slíkri innheimtu og að sveitarfélagið fengi að bera meginþungann af þeim byrðum, sem af þessu hlytust.

Ríkinu sjálfu og sveitarfélögunum er skylt að lána til almannavarna hús sín og tæki, eftir því sem við verður Komið, án þess að fá greiðslu fyrir.

Þá getur ráðh. líka krafizt þess, að ríki og sveitarfélagi verði fengnir til afnota eða umráða lausafjármunir og fasteignir eða hluti af þeim, sem brýn þörf er á til almannavarna, enda komi sanngjarnt verð fyrir eftir samkomulagi eða mati dómkvaddra manna. Það er og heimilt að gera þær breytingar á eignum, sem þörf er á, — það má breyta húsum, — til þess að þær komi að tilætluðum notum. En um framkvæmd þessarar greinar skal farið eftir ákvæðum laga nr. 61 frá 14. nóv. 1917, eftir því sem þau lög eiga við. En í þessari grein sjá menn m.a., að það er heimilað að breyta eignum manna miðað við þetta bráðabirgðahlutverk, sem þær eiga að gegna, þegar ríkisvaldið eða sveitarstjórn hefur tekið húsnæðið af eigendunum. Viðvíkjandi húsum, sem byggð verða, eftir að þessi lög taka gildi, má gera það að skyldu, að í þeim skuli vera öryggisbyrgi fyrir þá, sem í húsinu búa eða starfa. Húseigandi greiðir kostnað vegna byrgisins, og skal það fullnægja þeim lágmarkskröfum um öryggi, sem reglugerðin kveður á um. Þarna er lögð kvöð á þá, sem byggja hús hér eftir, og verður eigandi að lúta því, um járnbindingu og annað, að sá hluti hússins sé byggður, ekki eftir venjulegum tæknifræðilegum kröfum um húsbyggingar, heldur eftir því, sem sérfræðingar almannavarnanna segja að þurfi til þess að fullnægja kröfunum um almannavarnir.

Nokkuð er frá því greint, hvernig kostnaði sé ætlað að skiptast. Ríkissjóður á að borga kostnað samkv. 5. gr., það er viðvíkjandi heilbrigðismálaráðstöfununum, en hlutaðeigandi sveitarstjórnum ber að endurgreiða þriðjung kostnaðarins viðvíkjandi aðgerðum í heilbrigðismálum og byggingu varasjúkrahúsa og þess konar. 2/3 eiga þá að borgast af ríkinu, en 1/3 af sveitarfélögunum. Ef sveitarstjórn hefur eftir gildistöku þessara laga aflað sjúkrahúsagagna til almannavarna, getur sveitarfélagið greitt sinn hluta kostnaðarins með þessum vörum. Kostnaður af öðrum ráðstöfunum til almannavarna en um getur í 1. og 2. mgr. 25. gr. á að greiðast úr hlutaðeigandi sveitarsjóði, en endurgreiða skal úr ríkissjóði 2/3 hluta kostnaðarins af opinberum öryggisbyrgjum, en helming alls annars kostnaðar. Ríkið á að borga 2/3 af kostnaði við opinber öryggisbyrgi, en vegna annarra aðgerða á ríkið að borga helming og sveitarfélög, að því er mér skilst, helming.

Þegar kemur að álitsgerðum hinna erlendu sérfræðinga, sem hingað voru kallaðir, hins norska hershöfðingja og hins danska læknis, bera þeirra upplýsingar fyrst og fremst merki aðstæðnanna í þeirra eigin löndum, og er á þeim allframandlegur blær að ýmsu leyti, eins og ekki þarf að fara í grafgötur um. Ég skal t.d. vekja athygli á smákafla, sem heitir „Öryggi fyrir ríkisstjórnina.” Sá kafli eða sú grein er örstutt, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Reynslan sýnir, hve mikilvægt það er fyrir mótstöðuafl almennings, að örugglega sé séð fyrir því, að ábyrg ríkisstjórn geti starfað áfram og viðhaldið sambandinu við íbúana. Öryggisbyrgi, sem byggð eru og innréttuð nægilega snemma og í hæfilegri fjarlægð frá hugsanlegum skotmörkum, þar sem hægt er að hafa samband við útvarp, blöð og aðra fréttaþjónustu, eru bráðnauðsynleg. Í þeim þarf að vera unnt að hýsa þjóðhöfðingjann, ríkisstjórnina og a.m.k. einhverja fulltrúa á þingi.” Skítt með hina ! „Þaðan þarf einnig að vera auðvelt að hafa samband við önnur æðstu stjórnvöld, fyrst og fremst almannavarnastjórann. Almannavarnastjórinn verður vegna viðvörunar og af öðrum ástæðum,“ — ég skil nú ekki þetta, — „vegna viðvörunar og af öðrum ástæðum að hafa beint samband við heryfirvöld bandamanna.“

Hér er okkur sagt það, að eitt af því allra nauðsynlegasta, sem verði að gerast, sé að búa út öryggisbyrgi, sem sé innréttað nægilega snemma og í hæfilegri fjarlægð frá hugsanlegum skotmörkum. Hver getur nú vitað, hvar skotmörkin eru, og mælt svo frá þeim hæfilega fjarlægð? Hvers konar endemis della er þetta? Þetta er að vísu frá erlendum sérfræðingi, en jafnvitlaust er það samt. Það getur enginn sagt, hvar skotmörkin eru, og það getur enginn mælt hæfilega fjarlægð frá þeim að því skotvarnabyrgi, þar sem ríkisstj. á að kúra. Þetta byrgi á að vera ágætavel útbúið, eins og vænta má. Þaðan á að vera hægt að hafa samband við útvarp og blöð. Það á að vera í tengslum við Morgunblaðshöllina og aðrar miðstöðvar blaðanna, það þarf að vera í sambandi við fréttaþjónustu. Þessi byrgi eru bráðnauðsynleg. Í þeim þarf að vera unnt að hýsa þjóðhöfðingjann, — þangað á hæstv. forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, að fara, — og ríkisstjórnina og a.m.k. einhverja fulltrúa á þingi. Það er sjálfsagt Sjálfstfl., og einhverju þarf að bjarga af Alþfl., það er alveg nauðsynlegt, það gefur að skilja, en það þarf ekki að vera allur þingheimur.

Ég segi: Þetta er hlægilegt. Þetta er alveg furðulegt, að það skuli vera prentuð svona endemis della í þskj. og lögð fyrir hv. Alþingi Íslendinga. Og það á einhver eftir að brosa að þessu, skýlinu, sem á að vera fyrir þjóðhöfðingjann og ríkisstj. og hafa samband við blöð og fréttaþjónustu og á að hýsa auk þess einhverja fulltrúa á þingi. Ég veit ekkert um það, hvar þetta byrgi á að vera, það á sjálfsagt að vera hernaðarleyndarmál. En sérfræðingarnir okkar, sem mættu á fundi heilbr.- og félmn., sögðu, að það hefði verið gerð áætlun um eitt stórkostlegt byrgi, ekki þó mjög langt hér frá, heldur í Arnarhóli, hola hann innan, og þar skilst mér, að hæstv. ráðh. Ingólfur Jónsson eigi að vera hæfilega djúpt niðri undir Ingólfi Arnarsyni, ef það er þetta byrgi, sem ríkisstj. á að kúra í, þegar til kemur. En það var það eina byrgi, sem við fengum einhverjar upplýsingar um að hefðu verið gerðar áætlanir um að búa til, það væri byrgi í Arnarhóli, ætti að vera djúpt þar niðri og skothelt, og þeir játuðu það, sérfræðingarnir, að slík byrgi væru mjög dýr. Þess vegna hefur stærðin verið takmörkuð við það, að þar væri ekki rúm nema fyrir einhverja fulltrúa á þingi, ekki fyrir þessa 60 manna samkomu, sem hér er, það er of dýrt, enda ekki þörf á stjórnarandstöðuflokkunum, — kannske ekki einu sinni þörf á öllum Alþfl.

Ég er alveg viss um það, að ef við lesum vel frá orði til orðs álitsgerð Toftemarks læknis hins danska og sérfræðiritgerð Holtermanns hershöfðingja, þá er það ekki bara þessi klausa, sem verkar hlægilega á okkur Íslendinga, heldur mýmargt fleira, sem ekkert á hér við og væri a.m.k. á engu viti byggt hér á Íslandi, þó að það kunni að vera kannske góð og gild latína í hernaðarlöndunum. En þetta er borið á borð fyrir okkur, og málið á að hespa í gegn. Því liggur mikið á. Það eru sjálfsagt hættutímar. Og það er ekki hlustað á það, þegar óskað er eftir því, að tóm gefist til, að málið sé sent sveitarfélögunum til umsagnar, sem eiga að bera í sumum tilfellum þriðja part og í öðrum tilfellum helming kostnaðar af öllu þessu bákni og umstangi.

Það var margtekið fram af sérfræðingunum, sem mættu hjá heilbr.- og félmn., að það dygði ekki að hugsa eingöngu um Reykjavík, það yrði að hugsa um alla aðra kaupstaði landsins og einnig um sveitirnar. Og þá gefur að skilja, að þjóðin mundi ekki sætta sig við, að það væri búið til eitt skothelt byrgi fyrir þjóðhöfðingjann og ríkisstj. og nokkra þm. Það yrði að byggja mörg slík byrgi víðs vegar um land, í hverjum kaupstað og kannske fleiri en eitt, og þau byrgi verður að búa út með drykkjarvatni og fæðuföngum og náttúrlega miklu af rúmum og dýnum og þess konar. Hér er sagt, að Ameríkumenn, sem eru náttúrlega allra manna lærðastir í þessum efnum, hafi þegar ráðgert mikið af skotheldum byrgjum og alveg sérstaklega byrgjum fyrir úrvalsfólk þjóðarinnar, og þar sé aðallega hugsað um þessa flokkun á úrvalsfólki og svo lélegra fólki upp á stofninn, sem lifi á eftir, þarna verði lagður grundvöllurinn að honum. Og úrvalsfólkið á sérstaklega að vernda.

Ég fæ nú vafalaust vitneskju um það, hvar fyrirhugað sé þetta bráðnauðsynlega byrgi fyrir þjóðhöfðingja Íslands og ríkisstj. og suma af þm. og hvað það muni kosta, því að það hlýtur að vera búið að undirbúa þetta. Þetta hlýtur að vera eitt af því fyrsta, sem gert verður, hlýtur að vera fyrirhugað að gera það á árinu 1962, úr því að það liggur svona geysilega mikið á því að fá frv. samþykkt. En ef ekki fást upplýsingar um það, þá vænti ég þess, að það verði tregt um að fá ýmsar aðrar upplýsingar um þá hluti, sem líklega liggja fjær í framkvæmdaáætluninni.

Annars er auðvitað nauðsynlegt að fá miklu ýtarlegri vitneskju frá þeim mönnum, sem hafa undirbúið þetta frv. og bera það hér fram á hv. Alþingi sem mikið nauðsynjamál, sem verði að ná fljótt staðfestingu laga, — vitneskju um einstök atriði málsins, til þess að menn geti myndað sér skoðanir um, hvaða byrðar verða lagðar á landslýðinn í sambandi við framkvæmd þess. Væntanlega geta menn ekki ímyndað sér það, að Íslendingar fari að lifa eingöngu á æfingum og þeirri mennt að búa sig undir svona varnir, eitthvað verði menn að fá að vinna í friði á sjó og landi til lífsviðurværis, þó að mikil nauðsyn sé nú á að sinna þessum málum líka.

Ég hef lagt til, að þetta mál verði afgr. með rökstuddri dagskrá á þá lund, sem nú skal greina:

„Með því að lagðar yrðu miklar fjárupphæðir á herðar sveitarfélögunum, ef frv. yrði samþykkt og heimildir þess notaðar, telur deildin rétt, að málið verði nú sent sveitarstjórnunum til athugunar og umsagnar og afgreiðslu þess frestað til næsta þings, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.”

Hins vegar hefur hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. lagt til, að málið verði afgreitt nú óhreytt. Svona liggur þetta mál nú fyrir, og væri þó ástæða til að ræða það miklu ýtarlegar en ég hef nú gert. En nokkra hugmynd ættu þó hv. þm. að hafa fengið af því, hvað í þessu frv. felst, við fyrsta yfirlestur og hvaða ráðstafanir virðist vera þarna fyrst fyrirhugað að framkvæma, þótt um það liggi allt of óljósar upplýsingar fyrir. Ég vil eindregið óska þess, að við fáum sem nánastar upplýsingar um það, hvaða aðgerðir það eru í einstökum atriðum, sem fyrirhugaðar eru á árinu 1962, sem gera það að verkum, að ekki má gefa það svigrúm, að frv. sé sent til umsagnar sveitarstjórnunum og ætti að geta komið þaðan á næsta hausti og Alþingi að geta fengið umsagnir sveitarstjórnanna í byrjun næsta þings. Það hljóta að vera einhverjar ákveðnar, mjög nauðsynlegar aðgerðir, sem nú þegar eru fyrirhugaðar af þeim, sem að frv. standa, ef ekki á að vera hægt að skaðlausu að fresta málinu og fá frekari vitneskju um það.