06.04.1962
Neðri deild: 85. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í C-deild Alþingistíðinda. (2567)

171. mál, almannavarnir

Frsm. 1. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það gleður mig að heyra, að hæstv. dómsmrh. hefur nú flutt rökstudda dagskrá, sem er á þá leið, að málinu verði vikið frá afgreiðslu á þessu þingi, en vitanlega kom mér það ekkert á óvart, sem hann tók fram, að hann mundi hyggja á flutning þessa máls í byrjun næsta þings, og einnig kom mér það ekki heldur á óvart, að hann játaði nú, að það væru til í lögum heimildir, loftvarnalögunum, sem nægja mundu, eins og sakir stæðu, og ef þær ekki dygðu, þá mundi hann afla sér víðtækari heimilda.

En með þessari rökstuddu dagskrá hans er á það fallizt að fresta afgreiðslu málsins á þessu þingi, og það var það, sem ég fór fram á í þeirri rökstuddu dagskrá, sem ég flutti í sambandi við upphaf þessarar umr. Ég rakti þá nokkuð ýtarlega efni frv. og skal nú vera stuttorður, þegar málið hefur nú komizt í þennan farveg mun ekki fjölyrða um það og skal því nú aðeins fara nokkrum orðum um þau gögn, sem frv. fylgdu, þ.e.a.s. umsagnir þeirra tveggja erlendu sérfræðinga, sem til voru kvaddir fyrir jólin í vetur til þess að fræða Íslendinga um þessi mál. Ég ætla aðeins að drepa á örfá atriði, þó að málið sé komið í þennan farveg, en hefði annars gert það ýtarlegar.

Hershöfðinginn norski, sem kvaddur var til, segir það vera það, sem nauðsynlegast sé að gera allra fyrst, að koma æðstu stjórnarvöldum landsins í öruggt byrgi. Önnur nauðsynlegasta ráðstöfunin, sem hann bendir á, er að undirbúa allsherjarflutning fólks frá a.m.k. 5 km2 svæði umhverfis Keflavíkurflugvöll. Þar með viðurkennir hann, að aðalhættustaðurinn á Íslandi sé þar.

Í greinargerð Toftemarks læknis hins danska, er margt að finna, sem ég á ákaflega erfitt með að fella mig við sem sérfræðilegar ráðleggingar og upplýsingar, og sumt af því nærri því ógeðslegt í raun og veru. Þar reiknar hann út í prósentum, hvernig fólkinu muni reiða af, ef hættuástand skapist. Hann telur, að búast megi við, að um 40% særist, en geti þó flokkazt undir það að vera lítt særðir, en fólk, sem verði að komast undir læknishendur þegar í stað, særist svo mikið, t.d. þurfi læknisaðstoð vegna stöðvunar blóðrásar og til þess að halda öndunarfærunum opnum, til meðferðar á taugaáfalli, hann gerir ráð fyrir, að það geti orðið 20% af fólkinu, og í þriðja lagi sært fólk með byrjandi einkenni taugaáfalls, sjúklingar, sem vegna líðunar sinnar geti beðið nokkurrar aðgerðar, geti orðið um 20%,— og svo kemur, og það finnst mér vera á mörkum þess að vera prenthæft, þó að það séu ekki illyrði eða fáryrði nein, en þar segir: Fólk, sem hefur slasazt svo mikið og alvarlega, að ekki megi vegna ríkjandi ástands sjá af hjúkrunarliði eða lyfjum handa því, það telur hann, að muni verða um 20%, og það á bara að láta það liggja, ef það hefur brunasár, sem þekja meira en 40% líkamans, eða hefur opin sár á brjósti og hviði, og enn fremur fólk, sem hefur hver um sig hlotið margs konar alvarleg meiðsli. Það á hvorki að eyða á það hjúkrunarliði né lyfjum, bara láta skrokkana liggja þar, sem þeir eru.

Eitt af því, sem mér þykir líka furðulegt í grg. þessa læknis, sem hingað var fenginn til lands fyrir jólin, er það, þegar hann er að lýsa hinum ýmsu byrgjum, sem eigi að búa til, og segir: „Sérstakt herbergi þarf að vera fyrir látið fólk“ — fyrir líkin — „og ef til vill annað fyrir geðtruflað fólk,“ en vel getur komið til mála að hafa hið geðtruflaða og líkin saman í herbergi, að því er virðist, og svo þarf að sjá fólkinu fyrir sálusorgara, það er næsta lína við, það er ekkert þarna á milli, næsta lína við: svo þarf að sjá fólkinu fyrir sálusorgara, — og svo er nauðsynlegt að hafa ráð á sendiboða, hlaupara. Sálusorgari og sendiboði og herbergi á að vera þarna, jafnvel sameiginlegt fyrir geðtruflað fólk og líkin. Það má mikið vera, ef þetta kemur ekki furðulega og undarlega fyrir sjónir Íslendingum. Þetta kann að vera bara hversdagslegt tal hjá stríðsþjóðunum, en mér finnst þetta vera furðulegt tal.

Síðar segir hann: „Enda þótt skipulagning greftrunar sé ekki hlutverk hjúkrunarliðsins, er þó mikilvægt, að á slysavarðstöðvunum séu upplýsingar um, hvernig þær geta losnað við látið fólk.“ Enn um líkin.

Að kostnaðarhliðinni víkur hann, og það er einkum hún, sem ég hélt mér við í minni framsöguræðu. Mér stóð stuggur af því, hvílíkar fjárhagslegar byrðar yrðu lagðar á sveitarfélögin og á ríkið, ef heimildir þessa frv. yrðu notaðar. Af skýrslu loftvarnanefndar Reykjavíkur kemur í ljós, að það, sem gert var á árunum 1951–56, sýnist hafa kostað 9 millj. kr. og er þó aðallega birgðir lyfja og niðursuðuvarnings og ábreiður og koddar og þess konar, en bara þessi viðbúnaður drakk til sín um 9 millj. kr. á örfáum árum. Danski læknirinn gefur hugmynd um, hvað Danirnir verja í þetta miklu fé, og hann segir það vera orðið 100 millj. danskra króna, þ.e.a.s. 660 millj. íslenzkra króna. Nú er danska þjóðin að vísu margfalt fjölmennari en sú íslenzka, en danskt land er ekki að stærð nema brothluti af Íslandi, aðeins 2/5 af stærð Íslands, og kostnaðurinn yrði því meiri hér sem við yrðum á okkar stóra landi að líta í mörg horn til þess að gera varnar- og varúðarráðstafanir.

Þegar hann kemur svo að endalokum sinnar ritgerðar þá segir hann að hann sé sannfærður um, að ef Íslendingar óski þess og vilji taka virkan þátt í framkvæmd almannavarnanna og ef ríkisstj. og Alþingi vilji styðja málið og veita nægilegt fé til framkvæmdanna, þá muni embættismenn landsins, læknar og annað hjúkrunarlið, geta skipulagt á næstu árum starfsemi, sem á ófriðartímum sé fær um að veita særðum og sjúkum aðhlynningu og þannig takmarka illar afleiðingar þeirrar styrjaldar, sem við öll vonum þó að aldrei komi, en okkur samt sem áður virðist vera skylt að vera viðbótin, segir hann. Höfuðatriðið er auðvitað þetta, að hægt sé að veita nægilega mikið fé til þess. Ef það er gert, segir hann, þá er nokkur von um, að þetta hafi komið að einhverju haldi. En nú er það þó einmitt það, sem menn greinir einna mest á um, þá sem þykjast hafa vit á þeim ógnum, sem geti vofað yfir mannkyninu í nútímastyrjöld, það er það, hvort yfirleitt séu nokkrar varnir, sem geti komið að haldi.

Ég hef hér fyrir framan mig þýðingu af greinarstúf úr brezku blaði. Það er Newsweek, sem talið er tiltölulega heiðarlegt blað. Sérfræðingurinn, sem þar ritar, virðist ekki vera alveg á þeirri skoðun, að það sé hægt með loftvarnabyrgjum, þó að þau hafi nægan styrkleika til þess að standast þann þrýsting, sem kemur af sprengju, að veita nokkra vörn í nútímastríði. Og hann kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki hægt, þó að borgarlæknirinn í Reykjavík fræddi okkur um það á fundi í heilbr.- og félmn., að það væri hægt að hafa handknúna loftdælu til þess að tryggja fólki óspillt andrúmsloft, þegar það væri saman komið í byrginu, því að það gerist annað, segja sérfræðingarnir. Ef atómsprengja hefur fallið, þá er hægt að verjast þrýstingnum af sprengingunni, en það er ekki hægt að tryggja sér andrúmsloft á víðáttumiklu svæði frá sprengingarstaðnum, af því að súrefni loftsins brennur upp, og þegar menn ætla í byrgjum sínum að fara að dæla inn til sín lofti, sem hefur ekki súrefni, þá stenzt ekki lífið lengur. Í Newsweek segir, með leyfi hæstv. forseta, þegar það vitnar í skýrslu opinberrar stjórnarnefndar:

„Í þessari skýrslu eru lesendur varaðir við ósönnum auglýsingum um gagnslausar tilfæringar og dýr byrgi, sem aðeins væru líkleg til að verða grafir íbúanna. Aðrir sérfræðingar benda á,” segir þar, „að byrgin mundu aðeins verja menn gegn geislavirku úrfalli,“ — það er viðurkennt, — „þar sem raunin yrði sú hins vegar, að menn mundu bíða bana af þrýstingi og þó fremur öllu af élstorminum, sem mundi eyða öllu súrefni yfir þeim svæðum, þar sem gert er ráð fyrir að fólk mundi lifa þægilegu og skemmtilegu lífi í byrgjum sínum. Einn af meðlimum vísindamannanefndarinnar, sem fjallar um geislavirkni, er sagður hafa lýst yfir því, að allir, sem lenda í élstorminum, muni farast. Maður, sem er í aðstöðu til að þekkja nákvæmlega skoðanir vísindamanna, segir mér, að hið algenga álit um fullkomna eyðingu á 16 km svæði í allar áttir út frá sprengjustaðnum sé hlægileg bjartsýni, vegna þess að sprengja, sem eyðir öllu á því svæði með þrýstingi, komi af stað élstormi í loftinu, sem eyði hverju tangri og tötri í hring með 320 km radíus. Hugleiðið þetta eitt andartak, og þér munuð sennilega komast að raun um, að áróðurinn, sem hafður er í frammi til þess að telja Ameríkumönnum og öðrum trú um, að aðeins lítill hluti þeirra mundi deyja í atómstyrjöld, er svo samvizkulaus, að hvorugu megin við járntjaldið hefur samvizkulausari áróðri nokkru sinni verið beitt.”

Hér er því haldið fram, að atómsprengja brenni upp súrefnið í loftinu um 300 km vegalengd í allar áttir. Ísland er 500 km frá Bjargtöngum til Gerpis. Það er 250 km radíus. En þarna er sagt, að eldstormurinn eyði súrefninu í 320 km radíus, þ.e.a.s. langt austur í haf og langt vestur í haf, ef sprengja félli á mitt Ísland, og þar sem það er aðeins 300 km frá Dyrhólaey til nyrzta odda landsins, mundi élstormurinn eyða súrefni langt suður í haf og langt norður í haf, út yfir allt Ísland, ef Ísland væri gert að skotmarki á annað borð, og þannig væru menn litlu bættari, þótt þeir hefðu hlaðið múrblokkum fyrir glugga sína og þó að þeir hefðu látið járnbinda rammsterk, skotheld, sprengjuheld virki og byrgi fyrir sig. Allt kæmi þetta fyrir ekki, þegar súrefni væri ekki til staðar í loftinu til þess að anda að sér.

Ef þessar kenningar eru réttar, — og þær eru hafðar eftir vísindamönnum, — þá sýnir það mönnum dável, hversu lítið það stoðar að rjúka upp til handa og fóta og ætla að verja tugum milljóna í hitt og þetta fálm, sem mönnum er talin trú um, að eigi að vera þeim til varnar. Ég hefði haldið a.m.k., að íslenzkt þjóðfélag hefði nóg með nokkra milljónatugi að gera til annars fremur en að fara út í slíkar aðgerðir, sem enginn veit hvort hefðu nokkra minnstu þýðingu til þess að bjarga mannslífum. Ég er því í sjálfu sér mjög dauftrúaður á gagnsemina, notin, sem gætu orðið af ýmiss konar fálmkenndum vörnum, sem kostuðu of fjár, þótt sjálfsagt sé auðvitað að ætla okkar líknarstofnunum að vera til taks, ef slík ógæfa henti Ístand. En embættabákn á embættabákn ofan, öll þau ráð, sem hér eru nefnd, þau eru mörg, það eru mörg ráðin nýju, sem ég hef aldrei heyrt nefnd á íslenzku máli fyrr, sem gert er ráð fyrir í frv., og allt það embættabákn, það eitt mundi soga til sín stórkostlegar fjárhæðir. Ég álít því, að það sé gott, að hæstv. dómsmrh. hefur fallizt á það, að afgreiðslu þessa máls sé frestað, fólk fái að hugsa sig um, alþingismenn fái að kynna sér þetta mál í ró og næði, — og svo, ef menn eru sama sinnis að hausti, að öllu athuguðu, ríkissjóður og sveitarfélögin reiðubúin til að taka á sig þær fjárhagslegu byrðar, sem af þessu leiðir, þá tekur Alþingi náttúrlega við málinu á ný, og ber það þá að með miklu eðlilegri hætti en nú, því að nú bar það að með mjög skjótum hætti og algerlega ófullnægjandi aðstaða var til þess að kynna sér málið og fylgigögn þess.

Ég skal nú láta máli mínu lokið. Ég hef litla trú, — ég verð að segja það, — á því, að miklar varnir séu gegn atómstyrjöld. Það er allt annað en þegar menn börðust í höggorustu, og það veitir ekkert af því, að menn fái að hugleiða það gaumgæfilega, hvort þeir vilja veita stjórnarvöldum landsins heimildir — kannske til tugmilljóna útgjalda í slíkar ímyndaðar varnir. En ef menn taka þá ákvörðun, þá er bezt, að hún sé gerð að vel yfirveguðu ráði.