24.03.1962
Neðri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (2581)

78. mál, almannatryggingar

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. á þskj. 100 er þess efnis, að inn í almannatryggingalögin komi ákvæði um það, að íþróttafólk, sem tekur þátt í íþróttaiðkunum, hvort heldur æfingum, sýningum eða keppni, og orðið er 16 ára, skuli njóta þar tryggingar. Þessari tryggingu er hugsað að koma þannig fyrir, að íþróttafélögin sjálf greiði 1/4 af iðgjöldunum fyrir íþróttafólkið, en ríkissjóður 3/4 iðgjaldanna.

Þetta frv. var tekið fyrir í n. á einum 2–3 fundum og sent til umsagnar Tryggingastofnunar ríkisins, Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands. Í umsögn Tryggingastofnunarinnar kemur fram, að hún viðurkennir fyllilega þörf þess, að allir íþróttamenn séu tryggðir, en lætur hins vegar í ljós, að alveg eins sé hægt að hugsa sér frjálsa tryggingu, að því er þessa starfsemi snerti. En um Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands er það að segja, að þau félagssamtök mæla hvor tveggja með því, að frv. verði samþykkt.

Það kom fram í umræðunt manna í heilbr.- og félmn., að allir nm. töldu vera þörf á því, að íþróttafólk væri tryggt, hvort heldur það starfaði við æfingar, sýningar eða keppni, og væri þannig ekki í þeirri áhættu, ef það verður fyrir slysum, að fá þar engar bætur á. Íþróttaiðkun í landinu er vissulega þjónusta við þjóðfélagið, menningarleg þjónusta og þjónusta við heilbrigðismál þjóðarinnar einnig, og mönnum mundi þykja mjög miður, ef unga fólkið legði af að stunda íþróttir. Margir íþróttamenn okkar hafa og veitt þjóð sinni heiður og sóma á erlendum vettvangi í íþróttakeppni á alþjóðasviði íþrótta, og er ekki óeðlilegt, að þjóðfélagið meti slíkar drýgðar dáðir ungra manna nokkurs.

Hins vegar er það svo, að það fellur ekki undir almannatryggingarnar að tryggja íþróttafólkið við æfingar og í keppni, og hefur margur frækinn íþróttamaður slasazt við íþróttaiðkanir, án þess að geta fengið bætur hjá tryggingunum vegna þess, en eins og allir vita, er allmikil slysahætta bundin við kappsamlega iðkaðar íþróttir. Nm. voru allir þeirrar skoðunar, að þessa væri þörf. Og það var vilji þeirra, að jákvætt væri tekið á þessu máli. Hins vegar fékkst þó ekki samkomulag um í nefndinni að mæla með frv., meiri hl. nm. fékkst ekki til þess, en hins vegar voru þeir fúsir til að standa að rökstuddri dagskrá, sem væri á þá leið, að nefndin treysti því, að félmrh. ritaði nefnd þeirri, sem nú vinnur að endurskoðun vissra þátta almannatryggingalaganna, og legði fyrir hana að taka einnig til athugunar tillögur um slysatryggingar íþróttafólks, og að í trausti þess, að hæstv. ráðh. vildi gera þetta, þá tæki deildin fyrir næsta mál á dagskrá. Þessi rökstudda dagskrá er efnislega mjög eindregin og jákvæð með málinu og fer sem sé fram á þetta, að hæstv. félmrh. mundi vilja leggja það fyrir þessa endurskoðunarnefnd tryggingalaganna, sem hefur að vísu samkv. sínu erindisbréfi ákveðna þætti til endurskoðunar, að taka einnig þennan þátt tryggingamálanna með til athugunar og þá væntanlega að fengnum jákvæðum meðmælum hæstv. ráðh. og þessarar þingnefndar um, að nokkrar tryggingar fengjust þá teknar inn í tryggingalöggjöfina að því er snertir íþróttafólk.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál, en um þetta fékkst nefndin til að vera sammála, og rökst. dagskráin túlkar vilja nefndarinnar, eins og hann kom fram í heilbr.- og félmn.