23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (2592)

25. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Meiri hl. heilbr.-og félmn. leggur til, að frv. á þskj. 25 verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, eins og fram kemur í nál. okkar á þskj. 429. Minni hl., þeir Hannibal Valdimarsson og Jón Skaftason, leggur hins vegar til, að frv. verði samþykkt, sbr. nál. þeirra.

Í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins um frv., sem birt er sem fskj. í með nál. minni hl. n., segir svo um ýmsa ágalla á frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Í sambandi við einstök atriði frv. má að öðru leyti benda á eftirfarandi:

1) Ákvæði um örorkubætur slysatrygginga eru í 37. gr., en ákvæði um dánarbætur í 38. gr. almannatryggingalaga. Með tilliti til efnisskipunar færi því betur á, að 1. gr. frv. væri skipt í tvennt, þ.e. viðbót við 37. gr. og viðbót við 38. gr.

2) Ef ákvæðin eru ekki bundin við lögskráða sjómenn, getur oft leikið vafi á, hvort um sjómann er að ræða eða annan launþega, sem starfar við bát eða skip.

3) Þörf virðist vera á skýrum ákvæðum um, hverjir skuli teljast aðstandendur.

4) Í frv. segir, að útgjöld þau, sem að viðbótartryggingunum leiðir, skuli greiðast að hálfu af almannatryggingum. Þar eð hér er um að ræða þrjár tryggingagreinar, lífeyris-, slysa- og sjúkratryggingar, þar sem hver grein fyrir sig hefur sérstakan fjárhag, er þörf skýrari ákvæða um þetta efni:

Allar þessar ábendingar Tryggingastofnunar ríkisins eru réttmætar, og þau atiði, sem um er fjallað, þurfa lagfæringar með frá því, sem er í frv. Tökum t.d. síðasta atriðið. Naumast getur það vakað fyrir hv. flm., að lífeyris-, slysa- og sjúkratryggingar almannatrygginga skuli bera kostnað af hinni nýju tryggingu samkv. frv., þó að orðalagið gefi þetta til kynna. Hitt mun sönnu nær, að fyrir hv. flm. vaki það, að sömu aðilar og nú greiða iðgjöld til almannatrygginga, þ.e.a.s. ríki og sveitarfélög og e.t.v. hinir tryggðu, skuli greiða iðgjöldin að hálfu á móti útgerðarmönnum. Þar með væri tekin upp ný regla um þetta atriði, því að atvinnurekendur hafa til þessa einir greitt iðgjöld vegna slysatrygginga. Þetta atriði í ábendingum Tryggingastofnunar ríkisins og aðrar gagnlegar aths. lætur hv. minni hl. heilbr.- og félmn. algerlega fram hjá sér fara og leggur einfaldlega til, að frv. verði samþ.

Þessir ágallar á frv. skipta þó ekki mestu máli varðandi afstöðu meiri hl. n. til frv., heldur hitt, að ef það verður að lögum, tryggir það einni stétt hærri slysa- og dánarbætur en öðrum stéttum. Það getur auðvitað verið mismunandi, hvað hinar ýmsu stéttir leggja mikið upp úr slíkum bótum eða hvað þær meta þær hátt til hlunninda í kjarasamningum sínum. Er ekkert nema gott um það að segja, að einstakar stéttir, sjómenn og aðrir, sjái hag sinum vel borgið hvað þetta snertir, og fyrir atvinnurekendur er sjálfsagt að tryggja starfsfólk sitt sem rækilegast og þar með sjálfa sig fyrir kröfum, sem á þá kunna að falla vegna slysa og dauðsfalla. Aftur á móti er það varla á færi Alþingis eða Tryggingastofnunar ríkisins að gera upp á milli hinna ýmsu stétta í þessu efni, þótt þær lágmarkskröfur, sem gilda skuli almennt, séu lögákveðnar, eins og nú er. Verður því alltaf að gera ráð fyrir, að frjálsar tryggingar taki að einhverju leyti við, þar sem almannatryggingum sleppir, varðandi upphæðir slysa- og dánarbóta. Því fráhvarfi, sem frv. gerir ráð fyrir frá þeim reglum, sem nú gilda, er greinilega varað við í áðurnefndri umsögn Tryggingastofnunar ríkisins, þar sem vitnað er í nál. endurskoðunarnefndar almannatryggingalaga, dags. 23. nóv. 1959. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki verður komið auga á skynsamlegar ástæður fyrir því, að t.d. kona, sem missir mann sinn at slysförum við vegavinnu, fái aðeins kr. 1914331 í dánarbætur, á sama tíma og kona. sem missir mann sinn, sem er sjómaður, fái kr. 8713081. Nefndin telur rétt, að dánarbætur verði hinar sömu fyrir alla.“

Till. n. um þessa meginreglu var staðfest með l. nr. 13 1960 ásamt mörgum mikilvægum breytingum, sem þá voru gerðar á lögunum um almannatryggingar. Samtímis voru dánarbætur hækkaðar í 90 þús. kr. fyrir alla. Var það minnst hækkun vegna sjómanna, sem áður voru í rúmlega 87 þús. kr., en höfðu nýlega fengið þá hækkun, en meiri hækkun vegna annarra, sem áður voru í rúmlega 19 þús. kr., eins og um var getið áðan. Rétt er að geta þess, að við slysa og dánarbæturnar bætist nú 13,8% hækkun. Einnig má á það benda, að dánarbætur geta orðið rúmlega 200 þús. kr., og eins, að þær geta verið minni en 90 þús. kr., allt eftir fjölskylduástæðum hinna látnu.

Enda þótt slysa- og dánarbætur væru samræmdar og hækkaðar 1960, er það skoðun okkar, sem skipum meiri hl. n., að bæturnar þurfi enn að hækka verulega með hliðsjón af síðari verðbreytingum. Enn fremur er það skoðun okkar, að ekki eigi að hverfa aftur frá þeirri reglu, að almannatryggingar greiði sömu bætur vegna allra tryggðra, hvar í stétt sem þeir eru. Þessi sjónarmið höfum við rætt við hæstv. félmrh. Hefur hann falið nefnd þeirri, sem nú starfar að endurskoðun almannatryggingalaganna, að láta málið til sín taka og semja tillögur um hækkun bótanna. Fleiri atriði þarf einnig að athuga í þessu sambandi, m.a. vegna þess, að talsverður munur er á slysa- og dánarbótum þeim, sem almannatryggingar greiða, og bótum þeim, sem greiddar eru, þegar um frjálsa tryggingu er að ræða. Munurinn er m.a. sá, að slysatrygging almannatrygginga greiðir í mörgum tilfellum lífeyri og barnalífeyri og tekur þá jafnframt tillit til framfærslubyrði við ákvörðun bóta, en að því er mér skilst, greiða frjálsu tryggingarnar aðeins bætur eitt skipti fyrir öll. Málið er þess vegna ekki svo einfalt, að nægilegt sé að ákveða upphæð dánarbótanna eingöngu. En meiri hl. heilbr.- og félmn. væntir þess, að endurskoðun laganna verði hraðað eftir föngum hvað umrædd atriði snertir, og í því trausti flytjum við dagskrártillöguna á þskj. 429. Mæli ég með því fyrir hönd meiri hl. heilbr.- og félmn., að sú till. verði samþykkt.