23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (2593)

25. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. til l. um breytingu á lögum um almannatryggingar, þess efnis, að sérhver skipverji, sem starfar á íslenzku skipi, sé tryggður gegn öllum slysum, hvort heldur þau verða um borð í skipinu eða í landi, fyrir 200 þús. kr., miðað við fulla örorku og dauða, og að upphæðin greiðist aðstandendum hlutaðeigandi skipverja, ef hann deyr, en honum sjálfum, ef hann verður óvinnufær að dómi læknis, var flutt af hv. 7. landsk. og mér á síðasta þingi. Þá tókst hv. heilbr.- og félmn. að liggja á málinu til þingloka, svo að ekki fékkst afgreiðsta á því í það sinn. Þess vegna var það, að við ákváðum í byrjun þessa þings að flytja þetta mál í sama formi á ný, og það gerðum við fyrstu daga þingsins. Ber þskj. það með sér. Þetta er 25. mál þingsins og þskj. 25, og hefur því málið legið fyrir öllu þessu þingi einnig.

Þegar málinu hafði verið visað til heilbr.- og félmn. í þingbyrjun, var ákveðið að senda þetta mál til umsagnar nokkrum aðilum: Tryggingastofnun ríkisins, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Ístands. Svo var málið auðvitað látið bíða í skauti nefndarinnar, þangað til þessar umsagnir bærust. Og þær bárust. Það komu umsagnir frá öllum þessum aðilum, og nefndin tók þá málið fyrir fljótlega og ræddi það og athugaði hin fram komnu ummæli þessara fyrirtækja og stofnana.

Við athugun á umsögnunum kom það í ljós, að Tryggingastofnun ríkisins lagði ekkert til um afgreiðslu málsins, kom með enga till. um það, að frv. væri samþ., en heldur enga till. um, að það yrði fellt eða því yrði vísað frá afgreiðslu. En eins og hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, voru nokkrar ábendingar í umsögn Tryggingastofnunarinnar um það, hvað hún teldi æskilegra um orðalagsbreytingar á frv., en alls ekki, að hún gerði neinar tillögur um breytingar þess eða teldi þær nauðsynlegar. Það er ekki svo djúpt tekið í árinni hjá Tryggingastofnuninni í hennar umsögn, að hún telji nauðsynlegar neinar breytingar á frv., enda er málið eins einfalt og verið getur. Í staðinn fyrir það ákvæði tryggingalaganna, sem nú gildir um dánarbætur, er hér tekið fram, að dánarbætur sjómanna skuli vera 200 þús. kr., og um það þarf engar vangaveltur og engar skýringar og engar útlistanir. Það verður aldrei gert skýrara í löggjöfinni en þetta, að dánarbætur sjómanna skuli vera 200 þús. kr. Það er svo meiningamunur, þegar Tryggingastofnunin fer inn á það að segja, að það væri æskilegra að ákveða það í frv., að þessi tryggingarupphæð, 200 þús. kr., næði aðeins til lögskráðra sjómanna. En það vakir alls ekki fyrir okkur flm. Það vakir fyrir okkur, að þeir menn, sem eru á smærri skipum en 12 smálestir, — en niður að þeirri stærð nær lögskráningin, — það vakir fyrir okkur, að þeir njóti einnig þessarar tryggingar. En með þeirri ábendingu, sem Tryggingastofnunin gerir um þetta, væri hún að fá okkur til að breyta frv. þannig, að það væri þrengra og næði ekki til hinna mörgu sjómanna sem róa til fiskjar á smærri skipum en 12 smálestir. Þetta er því ábending frá hendi Tryggingastofnunarinnar um að þrengja það svið, sem frv. á að ná til eftir meiningu okkar flm., ef þarna er ekki um beinan misskilning af hendi Tryggingastofnunarinnar að ræða. Það er ekkert vandaverk að sanna það, að menn hafi stundað sjómennsku, þó að þeir rói á smærri skipum en 12 smálestir, og mundi ekki verða nein skotaskuld úr því, ef maður færist af slíkum bát, að sanna það, að hann hefði verið á slíku skipi, þó að ekki sé heimtuð lögskráning, þegar menn ráðast í slíkt skipsrúm.

Þegar hv. frsm. meiri hl. hafði vikið að þessum ábendingum Tryggingastofnunarinnar, varð hann að viðurkenna, að það væri svo lítið hald í þessum ábendingum, að meiri hl. n. gæti ekki hengt hatt sinn á það um andstöðu við málið, og sagði, að þeir viðurkenndu, að þetta skipti ekki meginmáli um afstöðuna, og það taka þeir einnig fram í sínu nál. En það barst sannarlega í tal. Þegar menn mót vonum urðu þess varir, að í nefndinni voru menn, sem voru ákveðnir í að vilja fella þetta frv., þá voru þeir að því spurðir, hvort þeir vildu að þessum breytingum gerðum fylgja frv. Þá kváðu þeir nei við því. Það var ekki hægt að ná neinu samkomulagi með því að verða við þessum ábendingum, og þá voru þær tilgangslausar. Ef það hefðu fengizt svör frá þeim, sem meiri hl. skipa í heilbr.- og félmn., um, að ef þessar breytingar yrðu gerðar á frv., sem Tryggingastofnunin hafi bent á sem æskilegar, þá fengist samþykki á málinu, þá hefðum við hiklaust og undireins fallizt á þær breytingar. En það var bara ekki því að heilsa. Það var ekki um það að ræða að fá málið samþykkt, þó að orðið yrði við þessum ábendingum Tryggingastofnunarinnar.

Það, sem um efnislegan ágreining meiri hl. og minni hl. n. um þetta mál virðist vera hægt að festa hendur á, er þetta, að þeir í meiri hl. segjast vera þeirrar skoðunar, að það eigi að vera sömu dánarbætur fyrir alla, hvort sem þeir farast af slysförum á landi eða við sjósókn. Og það sjónarmið kemur fram í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins. En allt frá fyrsta degi, að Tryggingastofnun ríkisins tók til starfa, og fram á árið 1960 voru tryggingalögin þannig, að þeir voru bættir margfalt hærri bótum, sem fórust í sjó, heldur en hinir, sem fórust á landi, og fram að þeim tíma virðist Tryggingastofnun ríkisins a.m.k. hafa talið það réttmætt, því að á þessu byggði hún frá fyrsta degi sinnar starfsemi og fram á árið 1960. Og þá mælti Tryggingastofnun ríkisins á móti því, að tryggingarupphæðin yrði sú sama fyrir alla. En í dag, þegar á að færa það til hins fyrra horfs, sem hefur gilt meginhluta þess tíma, sem Tryggingastofnunin hefur starfað, þá segir hún aftur þveröfugt. Ég tek ekki mikið mark á svona umsögnum, það vil ég segja. Sjómenn voru tryggðir með 90 þús. kr. upphæð, en ég man ekki, hvort það var niður í 12–14 þús. kr., sem aðrir voru tryggðir fram undir 1960, og það þótti góður tryggingagrundvöllur fram að þeim tíma. Þetta sjónarmið byggist á því, eins og skýrt hefur komið fram hér í umr., að sá, sem skráir sig á skip, eða sá, sem tekst á hendur sjómennsku á Íslandi, er að gefa kost á sér í þjónustu höfuðatvinnuvegar þjóðarinnar, sem fylgir meiri áhætta en öðrum störfum, sem menn inna yfirleitt af hendi í landi. Hann og hans fjölskylda er því sett í meiri áhættu en aðrir menn, og til þess að menn fráfælist ekki þennan atvinnuveg, hefur þótt heppilegt fyrir þjóðarbúið, að þeir menn, ef þeir yrðu fyrir varanlegri örorku eða færust við starf, þá væru þeir bættir hærri bótum. Og menn vita það, hver einn einasti Íslendingur veit það, að fjölskyldurnar verða oft fyrir þyngri áföllum af sjóslysum en yfirleitt menn verða fyrir við slysfarir við atvinnu í landi. Það er ekkert sjaldgæft, að fyrirvinnan sé farin í sjóinn og jafnvel einn eða tveir aðrir úr fjölskyldunni líka, og það er þungt áfall, og þarf ekki að vekja frekar athygli á því.

En það lágu fyrir aðrar umsagnir, sem voru öllu ákveðnari en umsögn Tryggingastofnunar ríkisins, sem vænta mátti, því að hún gat varla verið mjög ákveðin í þetta sinn, þegar hún kom alveg úr þveröfugri átt við þær umsagnir, sem höfðu borizt 1960. Það var umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Og nú spyrja menn sjálfsagt: Gat Landssamband ísl. útvegsmanna fallizt á þetta frv.? Já, svo sannarlega. Umsögn L.Í.Ú. endar á þessari setningu, með leyfi hæstv. forseta:

„Samþykkt var að mæla með samþykkt frv. með þessum breyt.“ Og það eru smábreytingar, sem eru viðkomandi orðalagi, og mælt fyllilega með meginefni frv. Þeir óskuðu sem sé eftir því, að það yrði tekið nánar fram, að sjómenn skyldi bæta með 200 þús. kr., ef viðkomandi skipverji verður fyrir slysum í þjónustu útgerðarinnar, það var viðbótin: „í þjónustu útgerðarinnar.“ Og það er vissulega ætlunin með orðalagi frv. og ekkert annað. Þeir vildu, að orðalagið væri ákveðnara, en meiningin alveg hin sama, og mæla með frv. Þetta var afstaða Landssambands ísl. útvegsmanna.

Í þriðja lagi hafði Sjómannasamband Íslands verið spurt. Þess svar er ekki langt. Það er gefið 4. des. 1961 og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjómannasamband Íslands. — Við höfum meðtekið heiðrað bréf hv. heilbr.-og félmn. Nd. Alþingis, dagsett 23. nóv. s.1., þar sem beiðzt er umsagnar um einnig sent frv. til l. um breyt. á l. nr. 24 29. marz 1956, um almannatryggingar.

Varðandi frv. þetta viljum við minna á, að á s.l. vetri var reynt með samningum við útgerðarmenn báta að ná þeirri tryggingu, sem frv. fjallar um, en það náðist ekki samkomulag nema á einstaka stað, og það við helzt vitum, gildir þessi trygging aðeins í Reykjavík, Hafnarfirði, Keflavík, Akranesi og á Vestfjörðum. Þá má og á það minna, að sorgleg slys hafa átt sér stað á þessu ári, þar sem menn hafa farizt lítt tryggðir. Að sjálfsögðu verður mannslífið aldrei að fullu greitt og ástvinamissir aldrei fullbættur, en nokkur huggun í sorginni er það eftirlifandi ekkju, stundum með mörg börn á framfæri, að vera viss um að geta séð sér og börnum sinum farborða, þótt ástvinurinn sé horfinn og fyrirvinnan farin. Þótt samningar um bátakjörin séu nú fram undan, vitum við ekki, hvernig ganga muni að fá samninga um þetta mikilvæga atriði, og mælum því fastlega með, að nefnt frv. verði samþ., þar sem trygging yrði vissari á þann hátt, er frv. gerir ráð fyrir, og nær til miklu fleiri sjómanna en unnt mundi að ná með samningum. — Við teljum til lagfæringar, að við 1. málsl. 1. gr. bættust orðin: eða dauða.

Virðingarfyllst,

f. h. Sjómannasambands Íslands,

Jón Sigurðsson.

Til heilbrigðis- og félagsmálanefndar neðri deildar Alþingis:

Þarna er með sterkum orðum mælt með því, að frv. verði samþ., og það fært fram, að það er búið að reyna það í samningum hvað eftir annað að fá þessi réttindi sjómanna viðurkennd alls staðar. Það hefur tekizt á nokkrum stöðum, annars staðar ekki. Við þá samninga, sem fóru fram í haust og vitnað er þarna til að stæðu fyrir dyrum, fór þannig, að það náðust að vísu á nokkrum stöðum í viðbót samningar um 200 þús. kr. tryggingu, en á öðrum stöðum ekki. Það er því þannig enn, að sumir sjómenn eru bættir með um 90 þús. kr. almennt, en aðrir með 290 þús. kr. upphæð. Síðan hefur það svo komið í ljós, að jafnvel á þeim stöðum, þar sem tekizt hefur að fá 200 þús. kr. trygginguna inn í samninga við skráningu skipshafna, hefur svo hörmulega farið, að í mörgum tilfellum er þetta samningsákvæði einskis virði. þess vegna var það, að tveir hv. þm. eða þrír ruku upp á þessu þingi, eftir að það hafði komið í ljós, að samningsákvæðin dugðu ekki, og fluttu fram brtt. um, að það skyldi örugglega frá þessu gengið við skráningu. Það er öllum kunnugt, að það er miklu lakari regla á um framkvæmd skráningar á skip en vera ætti, og jafnvel þó að sú breyting á lögum yrði samþ. þá er engan veginn víst, að þessi trygging félli öllum til handa, sem þó væri um samið að hún ætti að gilda fyrir, því miður. Það er orðið öllum ljóst, að það er á engan hátt hægt að tryggja þetta almennt öllum sjómönnum nema með lagasetningu. Og þó hefur Alþ. látið sér sæma að þvælast fyrir þessu máli í tvö þing og ætlar svo að gera enn, að því er virðist.

Ég hef nú lesið meðmæli Landssambands íslenzkra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands og kem þá að umsögn Alþýðusambands Íslands. Hún er örstutt, en það eru sem sé fá orð í fullri meiningu:

„Alþýðusamband Íslands mælir eindregið með því, að frv. verði samþ.” Sú umsögn er einnig gefin í byrjun desembermánaðar 1961.

Þá kemur í fimmta lagi umsögn Vinnuveitendasambands Íslands, og nú kynni ýmsum að finnast sem svo, að ef Vinnuveitendasamband Íslands mæli einnig með því ásamt Landssambandi íslenzkra útvegsmanna, þá virðast flestir hafa tekið jákvæða afstöðu til málsins, nema meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. Alþ., sem tekur afstöðu á móti málinu með þessar umsagnir fyrir framan sig. Niðurlagið á umsögn Vinnuveitendasambands Íslands, sem dags. er 11. des. 1961, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Samband vort, sem er samningsaðili við öll stéttarfélög farmanna, hefur þegar samið um a.m.k. svo háa tryggingu umfram gildandi lög fyrir farmenn, og sjáum vér ekkert því til fyrirstöðu, að þau samningsákvæði verði efnislega lögfest, eins og gert er ráð fyrir í frv. og grg. þess.

Virðingarfyllst,

Vinnuveitendasamband Íslands,

Björgvin Sigurðsson.

Það var líka svo, að þegar næstseinast var staðið upp frá samningaborði og sjómannasamtökin höfðu farið fram á það, að dánarbætur sjómanna yrðu umsamdar 200 þús. kr., þá var undirrituð af báðum aðilum, þó að ekki fengist þetta ákvæði tekið inn í samningana þá, yfirlýsing um það, að á samningstímabilinu skyldu hvorir tveggja aðilar beita sér fyrir því, að löggjöf yrði sett um þessi réttindi sjómanna. Og við það hefur bæði Landssamband íslenzkra útvegsmanna og einnig Vinnuveitendasamband Íslands staðið með sínum umsögnum og hafa þannig reynzt drengir góðir í þessu máli.

Meðan n. sat að störfum og fjallaði um þetta mál, barst einnig samþykkt frá fundi í Sjómannafélagi Hafnarfjarðar, og vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana, hún er örstutt, hún er svo hljóðandi: „Sjómannafélag Hafnarfjarðar. — Hafnarfirði, 31. okt. 1961. — Heilbr.- og félmn. Nd. Alþingis, Reykjavík. — Eftirfarandi samþykkt var gerð á fundi Sjómannafélags Hafnarfjarðar hinn 30. okt. s.1.: Fundur haldinn í Sjómannafélagi Hafnarfjarðar mánudaginn 30. okt. 1961 skorar eindregið á Alþ. samþ. fyrir næstu vetrarvertíð frv. Geirs Gunnarssonar og Hannibals Valdimarssonar um breytingar á lögum um almannatryggingar, þ.e. lögfestu sérstakrar 200 þús. kr. líftryggingar allra lögskráðra sjómanna.

Virðingarfyllst,

f. h. Sjómannafélags Hafnarfjarðar

Þorvaldur Ásmundsson.

Þegar við vorum að ræða þetta mál nú á þessu þingi, starfaði nefndin lengst af undir forustu hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) sem formanns n. Hann lét í það skína, að hann væri þeirrar skoðunar, að það bæri að tryggja sjómenn hærra en aðra vegna þeirrar miklu og stöðugu áhættu, sem þeir gæfu kost á að leggja sig í fyrir þjóðina. En um það er lauk og afstaðan fór að skýrast, þá varð þó ekki á honum skilið annað en hann ætlaði að víkja frá sinni innstu hjartans sannfæringu, eins og hann kallaði það, og hlýða einhverjum utanaðkomandi vilja um það að mæla ekki með málinn til samþykktar, kom a.m.k., áður en hann fór á fund Norðurlandaráðs, með þau boð, að þingflokkur sinn vildi ekki samþ. frv. Ég skal ekki hafa hann fyrir þeirri sök, því að hann er ekki hér á þingi nú, að hann snerist á móti málinu, en hann bar þessi boð til n. frá sínum þingfl., það stendur fast. En hins vegar bera þingskjöl það með sér, að á þinginu 1960, þegar verið var að breyta þeirri reglu, sem hafði gilt, eins og ég áðan sagði, frá því að Tryggingastofnun ríkisins tók til starfa, að sjómenn væru tryggðir hærra en aðrir, þá fór hv. 1. þm. Vestf. mjög sterkum orðum um það, hversu ranglátt væri að breyta þessu. Og hann var þá mjög ákveðinn talsmaður þess, að það væru almenn ákvæði um dánarog slysabætur og sérstök ákvæði um miklu hærri bætur til handa sjómönnum. Það verður hægt að draga fram í þessum umr. ummæli hv. þm. um þetta frá þinginu 1960. Ef hann verður hér á þingi, þegar þetta mál verður afgreitt, þá verður því þó ekki trúað fyrr en í síðustu lög, að hann verði ekki enn sömu skoðunar og hann var 1960 um, að það eigi að bæta sjómenn, sem farast við starf sitt, með hærri bótaupphæð en í öðrum slysatilfellum við aðrar atvinnugreinar.

Núverandi form, heilbr.- og félmn., sem kom í stað hv. 1. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason, hefur nú skrifað undir rökstudda dagskrá, þar sem lagt er til, að málinu verði á vissum forsendum vísað frá, og skipar þannig meiri hl., sem vill ekki fallast á að samþ. frv.

Á s.l. hausti, áður en þing kom saman, varð hryggilegt sjóslys hér við land. Bátur fórst frá Hornafirði. Og menn spurðu: Voru mennirnir tryggðir? Nutu þeir 200 þús. kr. aukatryggingarinnar, þ.e.a.s. voru þeir tryggðir fyrir 290 þús., eða voru þeir bara tryggðir fyrir 90 þús.? Það kom í ljós, að þeir nutu bara hinnar lögákveðnu tryggingar. Þá ruku ýmsir menn upp til handa og fóta og sögðu: Þetta er alveg óskaplegt, það verður að ráða bót á þessu, næsta Alþ. verður að lögleiða tryggingu um hærri bætur handa sjómönnum. —- Það voru sett í gang samskot víðs vegar um land til þess að reyna að bæta úr þessu í þessu eina tilfelli. En ég held því fram, að það er ekki viðunandi ástand að rjúka upp, þegar sjóslysin verða, og setja í gang samskot. Það er löggjöf, sem á að veita sjómönnum þann rétt, sem sé ekki hægt að sniðganga á nokkurn hátt.

Það var einmitt um þessar mundir, þegar báturinn fórst frá Hornafirði, að gott hjartalag Alþýðublaðsmanna sagði til sín í þessu máli, og þá var skrifuð forustugrein í blaðið um þessi mál. Þá var afstaða Alþfl. skýr í málinu, á milli þinga, nokkrum vikum áður en Alþ. settist að störfum. Þá segir ritstjóri Alþýðublaðsins í sinni forustugrein, með leyfi hæstv. forseta, — leiðarinn heitir: „Líftryggingar sjómanna“ — hann er ekkert langur, ég held ég lesi pistilinn allan, með leyfi forsetans:

„Líftryggingar sjómanna. — Undanfarnar vikur hafa orðið mörg og hörmuleg sjóslys. Þessi slys beina athygli manna að líftryggingum sjómanna, sem framar öðrum tryggingum ættu að vera viðunandi í þjóðfélagi okkar. En svo er þó því miður ekki. Þær eru ekki viðunandi. Stutt er síðan ríkisvaldið fyrir frumkvæði jafnaðarmanna“ — það var nú reyndar að tilhlutan opinberrar endurskoðunarnefndar — „hækkaði opinbera liftryggingu sjómanna upp í minnst 90 þús. kr., enda var hún til skammar fyrir þá breytingu. Nú hafa sjómannasamtökin á mörgum stöðum í landinu fengið inn í samninga 200 þús. kr. líftryggingu að auki, og er hún mikils virði, en ekki mjög dýr fyrir útgerðina, þegar tryggður er stór hópur manna í einu. Þessa tryggingu hafa ekki öll verkalýðs- og sjómannafélög fengið enn inn í samninga sína. Þess vegna er sú hryggilega staðreynd, að ekkjur sumra þeirra sjómanna, sem farizt hafa undanfarið, fá aðeins ríkistrygginguna, minnst 90 þús. kr., en ekki 200 þús. kr. trygginguna, sem sjómenn einstakra félaga höfðu samið um. Sumir hinna látnu sjómanna eru bættir með 90 þús. kr., en aðrir með 290 þús. kr. Þetta misræmi verður að leiðrétta, og er það eitt þeirra mála, sem sjómannasamtökin ætla að koma fram í samningum um kjör, sem fram undan eru.”

Hér virðist gott hjarta slá undir treyju þeirra, sem ráða skrifum í Alþýðublaði. En það hrekkur skammt, þegar kemur inn fyrir veggi Alþingis. Þá skal vísa slíku máli frá, eftir að búið er að þrautreyna þá samninga, sem hér er talað um, og þeir hafa aðeins fengið samningsréttinn færðan á nokkra staði í viðbót við það, sem áður var, en mikill þorri íslenzkra sjómanna er aðeins bættur með þeirri smánartryggingu, sem hér er talað um og nefnd slíku nafni, 90 þús. kr., þar með allir síldarsjómenn, og nú eru menn farnir að stunda síldveiðar allt árið.

Þessi forustugrein var rituð í Alþýðublaðið hinn 6. okt. í haust. Nokkrum dögum síðar, eða hinn 10. okt., er aftur vikið að þessu máli, einnig í forustugrein Alþýðublaðsins, og á sama hátt skýrt og skorinort sagt, að tryggingar sjómanna, sem séu nú í lögum, séu óviðunandi og úr því verði að bæta. Í þessari forustugrein segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþýðublaðið benti fyrir helgina á þann höfuðgalla, sem enn er á líftryggingarkerfi íslenzkra sjómanna. Sumir þeirra, sem farizt hafa undanfarið, eru bættir með 90 þús. kr., aðrir með um 290 þús. Þetta stafar af því, að sum sjómannafélög hafa fengið 200 þús. kr. líftryggingu inn í samninga, en önnur ekki.“

Gat maður nú ætlað annað en þarna væri túlkuð stefna Alþfl. í forustugrein eftir forustugrein í aðalmálgagni flokksins, nokkrum dögum áður en Alþ. kom saman?

Svo kemur málið til n., sem Alþfl.- menn eiga fulltrúa í, og þeir láta ekki á sér standa, þegar þeir hafa fengið málinu frestað nokkrum sinnum til að setja sig inn í málið og hafa fengið jákvæðar umsagnir frá atvinnurekendasamtökunum í landinu auk verkalýðssamtakanna, þá eru þeir reiðubúnir eftir allt saman til að lýsa því yfir: „Ég legg til, að málið sé fellt.“ Það gerðu þeir í nefndinni, þó að nú hafi að lokum farið svo, að þeir leggi til, að því sé vísað frá. Svona var afstaðan til málsins milli þinga. En hún er um frávísun nú á Alþingi Íslendinga.

Nú fyrir skemmstu hafa orðið sjóslys hjá okkur á vertíðinni, og þá er rokið aftur upp eins og í haust, víðtæk samskot sett í gang og auglýst bingó í hverju samkomuhúsinu eftir annað til þess að bæta eftirlifandi ekkjum og aðstandendum sjómanna. Bingó skal bjarga því og samskot, en ekki löggjöf, bara ekki löggjöf. Það má ekki. — Ég held, að svona afstaða til máls eins og þessa sé engum til sóma, það verð ég að segja, engum til sóma og sízt af öllu fulltrúum flokka, sem kenna sig við alþýðu manna og verkalýðinn og þykjast vera umboðsmenn þeirra. Ég get ekki að því gert, ég áleit, að það mætti vænta meira af þeim en af vinnuveitendasamtökunum í landinu, en það hefur reynzt öfugt. Vinnuveitendasamtökin mæla með því, að sjómenn fái lögfestan rétt til 290 þús. kr. dánar- og örorkubóta, en fulltrúar Alþfl. og Sjálfstfl. á þingi undirstrika það, að slíkum réttarbótum liggi ekkert á inn í löggjöf landsins, slíku máli megi vísa frá á öðru þinginu, sem málið er til meðferðar á Alþingi.

Ég lýsi því hreinskilnislega yfir, að ég hef hálfgert ógeð á samskota- og bingóleiðinni í sambandi við þetta mál, og vakir þó sjálfsagt gott eitt fyrir þeim mönnum, sem hafa beitt sér fyrir þessu, á meðan Alþingi —þvælir og þæfir málið.

Það var orðið ljóst í heilbr.- og félmn. í febrúarmánuði, að nefndin mundi klofna, meiri hl. n. fengist ekki til að mæla með samþykkt frv., hvorki með hreytingum né án breytinga. Og því var n. auðvitað klofin og minni hl. gaf út, eins og vera bar, sitt nál. Nefndin klofnaði þann 27. febr. og nál. er dags. 28. febr. Nú hefðu menn vænzt þess, að nál. kæmi frá hv. meiri hl. n. næstu daga, en svo varð ekki. Það liðu dagar og það liðu vikur, og nú var tekin upp sú bardagaaðferð gegn málinu, sem er algerlega óþingleg og ódrengileg í alla staði, að draga að gefa út nál. meiri hl., svo að málið gæti ekki komið til umr. á Alþ. viku eftir viku. Og það var að mínu áliti að bolast illa í glímunni að beita svo ódrengilegum vinnubrögðum gegn þessu máli ofan á allt annað. Nál. meiri hl. kemur loks, eftir að tvívegis er búið að snúa sér til hæstv. forseta til þess að biðja hann að hafa áhrif á það, að meiri hl. n. geri skyldu sína og skili nál. Þá er það dagsett, þegar það kemur, 17. marz, en um leið og var verið að útbýta plagginu, ritaði ég á það, að það var 20. marz, sem áliti meiri hl. var hér útbýtt, 20. marz, áliti um mál, sem hafði fengið afgreiðslu í nefnd í lok febrúarmánaðar. Það er sýnilegt af þessu, að það hefur verið erfið fæðing. Það hefur verið erfitt að koma því á pappír og láta það sjást svart á hvítu, að alþm. í tveimur stjórnmálaflokkum legðu það til, að ákvæði um 200 þús. kr. aukatryggingu sjómönnum til handa skyldi ekki samþykkja, því skyldi vísað frá, af því, eins og stendur í þessu nál. hv. meiri hl., að þeir hafi talað við hæstv. félmrh. og hann hafi tekið málinu mjög vinsamlega og falið þeirri nefnd, sem nú vinnur að endurskoðun laga um almannatryggingar, að gera tillögur um hækkun bóta. Og þetta er hv. meiri hl. nóg. Hér stendur ekkert um það, hvað hæstv. ráðh. hafi lofað að hækka bæturnar mikið. Nei, það er forðazt. Hann hafði góð orð um þetta, tók því vinsamlega og lofaði að leggja það fyrir endurskoðunarnefnd, sem vinnur að breytingum á almannatryggingalögunum, að gera tillögur um hækkun bóta, einhverja hækkun. Ef það hefði nú verið þannig, eins og gefið var þó í skyn í nefndinni, að hæstv. félmrh. mundi e.t.v. og ríkisstj. leggja fram frv, á Alþingi um, að bæturnar yrðu hækkaðar hjá öllum upp í 200 þús. kr., — ef sá boðskapur hefði sézt svart á hvítu í áliti meiri hl., þá hefði ég sagt: það var tilvinnandi að bíða eftir þessu plaggi í þrjár vikur. En því miður, það stendur ekki i þessu plaggi. En um það var þá rætt, þegar þessi boðskapur var fluttur í nefndinni, að e.t.v. mundi hæstv. ríkisstj. bera fram frv. á þessu þingi um að hækka dánarbætur allra upp í 200 þús. kr. Þá var spurt um það, hvort meiri hl, hv. nefndar vildi ekki standa að brtt. við frv. í þá átt. En þeir sögðust ekki vera reiðubúnir til þess að sinni. Eftir því sem stendur í þessu nál., virðist viðtalið við, hæstv. félmrh. aðeins hafa verið nokkuð lauslegt. og undirtektir hans enn þá óákveðnari og lauslegri og þess vegna engar tölur hægt að tilgreina í aðdragandanum að hinni rökstuddu dagskrá.

Minni hl. heilbr.- og félmn. leggur til, að frv. verði samþykkt, hefur hins vegar gefið kost á að fylgja breytingum á frv., eftir því sem nm. vildu gera breytingar á því, ef aðalatriði frv., 200 þús. kr. aukabætur sjómönnum til handa, sem er meginefni frv., fengist samþykkt. Ég vil því vænta þess, að meiri hl. Alþingis beri gæfu til þess að samþykkja þetta frv., þannig að það verði, áður en þessu þingi lýkur, orðið lögákveðið, að sjómenn, sem farast við íslenzkar fiskveiðar, verði bættir með eigi lægri upphæð en 290 þús. kr. og þurfi hvorki að treysta á samningaákvæði, sem hafa ekki haldið í mörgum tilfellum til þessa, né séu algerlega réttlausir, einungis bættir með þeim upphæðum, sem sjálft Alþýðublaðið hefur kallað „ósæmilegar og óviðunandi tryggingar sjómönnum til handa.” Hv. meiri hl. n. leggur hins vegar til, að málinu verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að örorkubætur vegna slysa og dánarbætur, sem almannatryggingar greiða, verði hækkaðar í framhaldi af þeirri endurskoðun, sem nú fer fram á almannatryggingalögunum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í nál., í texta þess, er ekki nefnd nein upphæð. En þessi rökstudda dagskrá væri þá nokkru skárri, ef í henni stæði t.d.: í trausti þess, að örorkubætur vegna slysa og dánarbætur, sem almannatryggingar greiða, verði hækkaðar a.m.k. í 290 þús. kr. við þá endurskoðun, sem fram fer á almannatryggingalögunum. Þá væri dagskráin þó í skaplegra formi. En engan veginn gæfi hún samt tryggingu fyrir því, að þetta kæmi út úr endurskoðuninni. Þess vegna er það þannig, að þó að slík breyting fengist á rökstuddu dagskránni, og er sjálfsagt auðvitað að bera fram brtt. við hana, þá er málið í fullri óvissu eftir sem áður.

Það eina, sem fært er að gera, ef þingheimur vill leysa málið á þann veg, að sjómenn séu tryggðir samkv. íslenzkum lögum fyrir 290 þús. kr., ef þeir farast við sitt starf, sjómennskuna, eða verða fyrir varanlegri örorku við sín störf, er að samþykkja þetta frv., sem hefur legið nú fyrir tveimur þingum og hver einasti almennilegur maður í landinu viðurkennir að þurfi að lögfesta, til þess að það ósamræmi ríki ekki áfram, sem nú ríkir, að sumir sjómenn séu bættir með 290 þús. kr., aðrir með 90 þús.kr. Og að menn telja það óviðunandi upphæð, sést bezt á þeim samskotafjársöfnunum og bingófjársöfnunum, sem settar hafa verið í gang vegna hinna mörgu sjómanna, sem farizt hafa og í ljós hefur komið að njóta aðeins hinnar lægri tryggingar.

Ég vil skírskota til drengskapar alþm. um það að fella ekki þetta frv. og láta ekki heldur vísa því frá, heldur ganga frá þessu máli á þann hátt, sem einn er sæmilegur, að sjómönnum verði tryggð að lögum á ötlum íslenzka fiskiflotanum 290 þús. kr. trygging. Það hefði átt að gerast í fyrra. En úr því að það var ekki gert í fyrra, hefði það þurft að gerast í byrjun þeirrar vetrarvertíðar, sem nú stendur yfir. Þá hefði verið komið í veg fyrir, að menn féllu tugum saman svo lítt bættir sem þeir hafa nú fallið á þessari vertíð, og hefði þá málið komið að gagni sem sé á þeirri vertið, sem nú er langt komin. En þó að hafi nú verið þvælzt svona fyrir afgreiðslu þessa góða máls, sem vinnuveitendasamtökin mæla með, þá er þó öllum fyrir beztu, að málið sé ekki dregið lengur. Það er öllum til vansæmdar að draga þetta lengur, og þetta mál á því að afgreiða á þann hátt, að bætur sjómanna allra, sem á íslenzkum fiskiskipum starfa, verði lögákveðnar eigi minni en 290 þús. kr.