23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

25. mál, almannatryggingar

Geir Gunnarsson:

Hæstv. forseti. Í sambandi við kjarasamninga á síðustu vetrarvertíð háðu sjómenn víða um land harða baráttu fyrir því, að þeim yrðu öllum tryggðar dánar- og slysabætur eigi lægri en 200 þús. kr. við fulla örorku eða dauða, auk 90 þús. kr. bóta frá almannatryggingunum, en þá nutu sjómenn á farmskipum og yfirmenn á fiskiskipum þeirra sérbóta. En stór hópur sjómanna, einmitt þeir sjómenn, sem í mestri slysahættunni voru við störf sín, á þilfari fiskiskipa, höfðu þá verið án allra sérbóta og miklum mun lægra tryggðir en stéttarbræður þeirra.

Ekki er hægt að segja annað en að heldur beri það vitni um vanmat þjóðarinnar á störfum sjómanna, að þeir, sem í hætturnar ganga fyrir landsmenn alla, skuli sjálfir hafa þurft að standa í baráttu fyrir því, að aðstandendur þeirra hlytu ekki einungis algerar smánarbætur, ef þeir misstu fyrirvinnu sína í hafið. En það var öðru nær en sú barátta svo mikið sem hlyti fullan og einlægan stuðning ráðamanna þjóðarinnar, sem í rauninni hefðu átt að vera búnir að sjá til þess, að sjómenn þyrftu ekki að standa sjálfir í þessari baráttu. Með tilliti til þess, sem síðan hefur gerzt hér á hv. Alþingi, tregðu og andspyrnu ríkisstjórnarflokkanna, sem fram hefur komið, þurfa menn ekki að undrast nú, hver var þá afstaða blaða og forustumanna ríkisstjórnarflokkanna til kröfu sjómanna. Þegar sjómönnum hér í Reykjavík og annars staðar við Faxaflóa voru boðnir kjarasamningar án þeirrar hækkunar dánarbóta til sjómanna, sem þeir gerðu kröfu um, þá mæltu stjórnarblöðin með því að sjómenn gengju að þeim samningum, þótt ákvæðið um dánarbæturnar vantaði. En sjómenn höfnuðu samningunum og hófu verkfall, sem ríkisstjórnarflokkarnir töldu óþurftarverk. Sjómenn áttu að semja, án þess að ákvæði væru í samningunum um dánarbætur. Eftir að verkfall hafði staðið nokkurn tíma, náðu sjómannafélögin fram kröfum sínum um dánarbætur og sömdu; en ýmis önnur sjómannafélög fengu síðar þessi ákvæði inn í samninga sína.

Strax á þessu stigi málsins kom fram hinn mjög svo takmarkaði áhugi stjórnarliðsins á því, að sjómenn nytu bóta, sem gætu ekki talizt algerar smánarbætur. Og áhugaleysi þessara aðila fyrir þessu réttlætismáli sjómannafjölskyldnanna átti eftir að koma betur í ljós, þegar fyrst var flutt á Alþingi það frv., sem nú er hér til 2. umr. En það var fyrst flutt í kjölfar samninga hinna einstöku sjómanna- og útgerðarmannafélaga í því skyni, að lögfest yrði 200 þús. kr. sértrygging til viðbótar bótum úr almannatryggingunum til allra sjómanna, svo að bundinn væri endir á það ástand, að sumir sjómenn væru aðeins tryggðir fyrir 90 þús. kr., þegar félagar þeirra, jafnvel á sama bátnum, hefðu þó náð fram 200 þús. kr. sérbótum með kjarasamningum, enda var flutningur frv. í samræmi við samkomulag, sem sjómannafélögin og útgerðarmannafélögin höfðu gert þess efnis, að háðir aðilar skyldu beita sér fyrir því, að sérbæturnar yrðu lögfestar. En þetta frv. fékkst ekki afgreitt á síðasta þingi. Það var aldrei afgreitt í nefnd. Og enn féllu sjómenn í valinn, án þess að fjölskyldur þeirra nytu sérbóta, svo að sumir þeirra, sem misstu fyrirvinnu sína í sjóinn, hlutu aðeins 90 þús. kr. dánarbætur, þegar aðrir hlutu þó 290 þús. kr. í bætur. Þá var óréttlætið svo augljóst, að jafnvel Alþýðublaðið lýsti því yfir í leiðara s.l. haust, að óhjákvæmilegt væri að binda endi á þetta ófremdarástand og tryggja yrði öllum sjómönnum bætur ekki lægri en 200 þús. kr. auk bóta almannatrygginganna.

Frv., sem hér er til umræðu, var endurflutt þegar í þingbyrjun s.l. haust, og í framsögu lagði ég sérstaka áherzlu á, að afgreiðslu þess yrði hraðað og lokið fyrir vetrarvertíð, enda ætti það að vera auðvelt. Enn fremur lagði ég til, að ákvæðið um sérbætur yrði, ef unnt væri, látið ná til allra sjóslysa á árinu 1961. Þá lagði ég sérstaka áherzlu á, að það form, sem í frv. var lagt til að væri á sértryggingunni, væri ekkert aðalatriði, heldur skipti hitt mestu, að allir sjómenn nytu sömu tryggingar, eigi lægri en þeirrar, sem nokkur hluti þeirra hafði þegar tryggt sér, og allar endurbætur á frv. væru vitaskuld með þökkum þegnar. En fljótt kom í ljós hjá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna sama tregðan og í fyrravor, og áhugi þeirra hafði ekki aukizt, þótt skrif Alþýðublaðsins s.l. haust hefðu e.t.v. átt að gefa ástæðu til að ætla það.

Árið 1961 leið, án þess að málið fengist afgreitt, og enn féllu sjómenn svo til bótalaust í hinum hörmulegu sjóslysum, sem öllum eru í fersku minni. Eftir mikla eftirgangsmuni hefur málið loks fengizt afgreitt úr nefnd og á þann veg, að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, meiri hl. hv. heilbr.-og félmn., leggja til eftir árs umhugsunarfrest, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Þetta gera fulltrúar þeirra aðila, sem lögðu til á síðustu vetrarvertíð, að sjómenn semdu án þess að fá framgengt kröfum sínum um hærri dánarbætur en 90 þús. kr., og töldu sjómenn vinna þjóðfélaginu óþurftarverk með því að standa í verkfalli, sem einkum miðaði að því að ná fram hækkun á dánarbótum. Þetta gera þeir aðilar, sem fengust ekki til að afgreiða frv. um sérstakar, jafnháar dánarbætur til allra sjómanna á siðasta þingi. Þeir aðilar, sem hafa ekki fengizt fyrr en nú til þess að afgreiða till., sem lögð var fram s.l. haust, um að lögfesta sérstakar dánarbætur vegna sjómanna, telja nú loks, þegar um það bil ár er liðið, frá því að frv. var fyrst lagt fram, og fjöldi sjómanna hefur á því tímabili drukknað án mannsæmandi bóta, ekki lengur stætt á að halda málinu niðri, og afstaða þeirra er sú, að enn eigi að draga afgreiðslu á þessu réttindamáli sjómanna.

Nú eftir heilt ár er því borið við, að frv. ætti að orðast á annan veg, og var þó strax tekið fram af minni hálfu, að það form, sem í frv. er lagt til að viðhaft sé varðandi bæturnar, sé ekkert aðalatriði og endurbætur í því efni væru með þökkum þegnar. Aðfinnslur þeirra um formið eru því ekki annað en afsakanir einar, ag hefði ekki átt að þurfa eitt ár til að koma þeim fram. En það er einmitt nefndarinnar að bæta úr því, ef með þarf, til þess er málinu m.a. vísað til hennar. En það eru einskisnýtar afsakanir fyrir því að hafa ekki afgreitt mál, sem lagt var fram fyrir heilu ári, og sannar einungis viljaleysi meiri hl. til þess að tryggja sjómönnum og aðstandendum þeirra þann rétt, sem þeir siðferðilega eiga. Meiri hl. hefði ekki þurft heilt ár til þess að komast að niðurstöðu um orðalag frv., ef hann raunverulega hefði vilja til þess að verða við því, að öllum sjómönnum væru tryggðar sómasamlegar dánar- og slysabætur, enda sér meiri hluti nefndarinnar, að á því er ekki stætt, og segir því í nál. sínu, að þau formsatriði skipti ekki höfuðmáli um afstöðu hans til málsins, hitt sé aðalatriði, að fleiri þurfi að fá hærri dánarbætur en sjómenn. Afstaðan er sem sagt sú, að af því að fleiri þurfa að fá hækkaðar dánarbætur og meiri hl, nefndarinnar hafi á því heila ári, sem liðið er, síðan frv. var lagt fram, verið að koma þeirri skoðun sinni á framfæri við hæstv. félmrh. og hann hafi falið nefnd, sem endurskoðar tryggingalögin, að gera till. um hækkun almennra dánarbóta, þá megi enn um óákveðinn tíma haldast það ástand, sem ég tel algera þjóðarsmán, að við dauðaslys á sjó fái fjölskyldur sumra skipverja aðeins 90 þús. kr. dánarbætur, þegar aðrar fá þó 290 þús. í bætur.

Samkvæmt skoðun meiri hl. hv. heilbr.- og félmn, má ekki lagfæra þetta, fyrr en einhver fleiri viðtöl hafa farið fram milli einhverra aðila og nefnda, sem þurfa að velta vöngum enn um sinn yfir endurskoðun á lögum um almannatryggingar. Fyrst það hefur nú tekið meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. heilt ár að komast að þessari niðurstöðu og meðan hefur mikill fjöldi íslenzkra sjómanna fallið svo til óbættur vegna tregðu á afgreiðstu þessa frv., þá er hætt við, að endurskoðun einnar víðamestu löggjafar þjóðarinnar geti tekið allnokkurn tíma og enn verði menn eða a.m.k. sjómannafjölskyldur óþyrmilega minntar á það ófremdarástand og misrétti, sem ríkir um líftryggingar sjómanna.

Eins og ég hef margtekið fram, nýtur hluti sjómannastéttarinnar nú 290 þús. kr. líftryggingar, en sumir sjómenn ekki nema 90 þús. kr. tryggingar. En með frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að lögfest verði 290 þús. kr. líftrygging til allra sjómanna, þannig að allir sjómenn njóti jafnhárrar tryggingar og sum sjómannafélög hafa þegar náð fram.

Í hinni rökstuddu dagskrá, sem meiri hl. n. leggur til að samþykkt verði, er hins vegar engin bótaupphæð nefnd, heldur aðeins sagt, að í trausti þess, að örorkubætur vegna slysa og dánarbætur, sem almannatryggingar greiða, verði hækkaðar o.s.frv., taki deildin fyrir næsta mál á dagskrá. Ef menn á annað borð eru þeirrar skoðunar, að allir sjómenn eigi að vera jafnhátt tryggðir, þá held ég, að það væri a.m.k. til bóta, að í rökstuddu dagskránni hefði komið fram, hversu hárri upphæð hv. Alþingi telur að dánarbæturnar eigi að nema, þannig að orðalagið væri þá eitthvað á þessa leið: Í trausti þess, að örorkubætur vegna slysa og dánarbætur, sem almannatryggingarnar greiða, verði hækkaðar í a.m.k. 290 þús. kr. o.s.frv. Þá kæmi a.m.k. fram, að það væri einnig ætlun meiri hl. n., að bætur til þeirra sjómanna, sem nú njóta einungis 90 þús. kr. líftryggingar, væru ekki aðeins eitthvað hækkaðar, heldur hækkaðar til jafns við það, sem aðrir stéttarbræður þeirra hafa þegar náð fram. Og ég leyfi mér fyrir hönd okkar flm. þessa frv. þess vegna að flytja skriflega brtt. við till. meiri hl. n. um rökstudda dagskrá, svo hljóðandi:

Í till. bætist næst á eftir orðunum „verði hækkaðar“ orðin: í a.m.k. 290 þús. kr. — og til vara: a.m.k.. 200 þús. kr.

Meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. telur rétt, að örorkubætur vegna slysa og dánarbætur almannatrygginganna séu hinar sömu fyrir alla. Samþykkt þessa frv. í því formi, sem það er nú, eða öðru, er betra þætti, kemur á engan hátt í veg fyrir, að sú tilhögun yrði sérstaklega samþykkt, þegar lokið er þeirri endurskoðun á tryggingalöggjöfinni, sem minnzt er á í nál. meiri hl. En sjómenn og aðstandendur þeirra eiga ekki á nokkurn hátt að þurfa að gjalda þeirrar skoðunar meiri hl. n. á þann hátt, að hann noti þá yfirlýsingu sína sem skálkaskjól til þess að ýta frá sér kröfu um, að allir sjómenn séu bættir með jafnháum bótum. Þessa skoðun meiri hl. n. um, að allir landsmenn eigi að njóta jafnhárra slysa- og dánarbóta, á meiri hl. ekki að nota til þess að koma beinlínis í veg fyrir, að bundinn verði endir á það ófremdarástand, sem nú ríkir í liftryggingamálum sjómanna. Og það óréttlæti, sem sumar sjómannafjölskyldur eru beittar með lægri bótum en aðrar, er miklu meira óréttlæti en það, að sjómenn væru bættir með hærri bótum en aðrar stéttir landsmanna.

Í umr., sem fram hafa farið um þetta mál, hefur verið gerð grein fyrir því, að ekki geti talizt óeðlilegt, að menn, sem að jafnaði eru í meiri lífshættu við störf sín en allir aðrir, séu hærra bættir en almennt gerist, enda er það alkunna, að menn mæta aukinni áhættu með hækkuðum líftryggingum, Krafan um, að sjómenn séu bættir með 290 þús. kr., er ekki sérstaklega krafa um, að sjómenn séu skilyrðislaust hærra tryggðir en aðrir landsmenn, heldur byggist hún á því, að hinar almennu bætur eru allt of lágar og ef nokkur stétt á rétt á því, að þjóðfélagið sjái henni fyrir sæmandi tryggingum, þá eru það sjómenn. Treysti þjóðfélagið sér hins vegar til þess að bæta alla landsmenn þeim bótum, sem hæstar eru nú, þá munu sjómenn áreiðanlega sízt hafa á móti því. Krafan um 290 þús. kr. sérbætur til sjómanna hefur ekki verið borin sérstaklega fram til þess, að þeir fengju hærri bætur en aðrir, heldur ekki sízt til þess, að þeir séu innbyrðis bættir sömu bótum. Lagt er til, að allir sjómenn njóti 200 þús. kr. líftryggingar auk venjulegra bóta almannatrygginganna, vegna þess að nú þegar nýtur verulegur hluti stéttarinnar þeirra bóta með kjarasamningum, en alls ekki allir sjómenn. Og útilokað er, að allir sjómenn geti notið trygginga samkv. kjarasamningum, þar sem engir kjarasamningar taka til minnstu bátanna, þar sem slysahættan er hvað mest.

Það fyrirkomulag, sem nú viðgengst, er algerlega óviðunandi og hrein þjóðarsmán. Frá því verður ekki hlaupizt með loðnum yfirlýsingum um, að landsmenn allir ættu að vera hærra bættir en nú. Út af fyrir sig geta allir fallizt á það.

Meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. hefur gripið til þess eins og hálmstrás, að ekki megi nú þegar tryggja það, að allir sjámenn njóti sömu bóta, vegna þess að þar með yrði því slegið föstu, að það mætti viðgangast, að ein stétt nyti hærri trygginga en önnur. Og þetta hálmstrá var notað, eftir að ár var liðið, síðan málið var fyrst lagt fram. En það er engu líkara en meiri hl. n. hafi ekki treyst sér til þess að bera það við að fleyta sér á þessu hálmstrái, á meðan hv. 1. þm. Vestf. var enn í n., heldur hafi orðið að bíða eftir, að varamaður hans kæmi inn, vegna þess að vitað er, að honum hefði sjálfum orðið erfitt að fleyta sér á þessu atriði, þegar höfð eru í huga þau orð, sem hann viðhafói árið 1960, þegar samþykktar voru 90 þús. kr. dánarbætur vegna slysa jafnt til allra landsmanna, en þá sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:

„Hitt er aftur á móti efnislegt atriði, sem ég vildi ræða um. Það er samkv. 17. gr. Þar stendur, eins og hæstv. ráðh. lýsti, að ekkja skuli fá 90 þús. kr. sem dánarbætur, hvort heldur viðkomandi aðili, hennar maki, ferst af slysi á sjó eða landi. Ég tel þetta algerlega rangt. Ég tel, að sú ekkja, sem missir mann sinn í sjó, eigi kröfu á að fá miklu hærri bætur en sú, sem missir hann af slysi í vegavinnu. Og hv. þm. hélt áfram: „Mér er alveg ókunnugt um það, að konur yfirleitt eigi margar andvökunætur um það, hvort menn þeirra slasist við vegavinnu, á bíl eða traktor, en hinar eru ekki fáar, sem eiga andvökunætur í vondum veðrum um það, hvort þær fái manninn sinn heim vestan frá Grænlandi eða ekki. Og ég tel, að það sé mjög misráðið hér og það sé einn þátturinn í því að draga fólkið frá hættustörfum á sjó, að dánarbætur fyrir eftirlifendur þeirra séu miklu lægri eða jafnar og þær eru í landi.”

Þetta sagði hv. þm. fyrir tveimur árum. Og ég tel allvafasamt, að það meirihlutaálit, sem hér liggur fyrir, hefði verið lagt fram, ef ekki hefði viljail svo til, að hv. 1. þm. Vestf. hefði orðið að bregða sér af þingi, og sú andstaða annarra í meiri hl. n., sem fyrir hendi er gegn málinu, þá fremur komið fram á sama hátt og í fyrra, þ.e.a.s. komið fram í því, að málið hefði dagað uppi.

Ég lít svo á, að lagfæring á líftryggingum sjómanna eigi ekki að bíða vegna bollalegginga um það, hvort allar stéttir eigi að njóta sömu líftrygginga, enda gætu þær úrbætur á málum sjómanna á engan hátt dregið úr því eða komið í veg fyrir það, að líftryggingar og slysatryggingar annarra yrðu hækkaðar, heldur miklu fremur stuðlað að því. Bollaleggingar um það, hvað er réttlátt gagnvart öðrum stéttum, eiga fullan rétt á sér, en þær eiga ekki að valda því, að enn þurfi þjóðin um óákveðinn tíma að horfa upp á þá forsmán, að sjómenn á sama skipi falli frá, þannig að aðstandendur sumra þeirra fái ekki þriðjung af þeim bótum, sem öðrum eru tryggðar. Það væri eins hægt að bollaleggja um það í heitt ár, hvort það sé nokkurt meira réttlæti að greiða bætur vegna dauða af völdum slysa en sjúkdóma. Og ég sé t.d. ekki í fljótu bragði, að kona, sem missir mann sinn af hjartaslagi, sé í rauninni betur sett en kona, sem missir mann sinn í bílslysi, þótt almannatryggingarnar geri þar mun á. Ef svo skyldi t.d. henda, að það sannaðist, að maður, sem talið væri að hefði dáið vegna bílslyss, hefði reyndar fengið hjartaslag og þess vegna fallið fyrir bílinn, þá fengi ekkjan ekki bætur úr almannatryggingunum. Hafi maðurinn hins vegar dáið af völdum bílsins, þá fengi hún 90 þús. kr. Það getur verið erfitt að henda reiður á réttlætinu, ef út í það er farið, og sjálfsagt mætti lengi stöðva lagfæringar á tryggingalöggjöfinni, ef þess ætti að bíða, að það væri með fullri vissu og endanlega höndlað.

Þegar ákvæðin um 90 þús. kr. bætur úr almannatryggingum vegna dauðaslysa voru sett, datt mér vitanlega engum í hug að standa í vegi fyrir þeirri ákvörðun með því að leggja til, að málinu yrði frestað, þar til sýnt væri með vissu, hvort réttlætinu væri ekki betur fullnægt með því að bæta öll dauðsföll. Ef vilji er fyrir hendi til þess að hamla gegn máli, jafnvel þótt réttlætismál sé, þá sýnist jafnan vera unnt að finna einhvern fyrirslátt til þess að nota gegn því. Það hefur meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. rækilega sýnt varðandi dánarbætur sjómanna. En ég held, að hv. Alþingi ætti ekki að láta viðgangast degi lengur það óheyrilega misrétti, sem nú ríkir varðandi bætur til aðstandenda þeirra sjómanna, sem farast við störf sín, og nú þegar ætti að firra sjómannaekkjur, föðurleysingja og þjóðina alla þeim óskemmtilega eftirleik hinna hörmulegu sjóslysa, sem auglýsir athafnaleysi þingsins og vanmat þess á sjómönnum með sérstökum fjársöfnunum meðal landsmanna til þess að auka við fjárbætur vegna þeirra sjómanna, sem hv. Alþingi hefur látið viðgangast að féllu svo, að bættir eru minna en hálfum manngjöldum. Það er ekki eftir neinu að bíða með úrbætur í þessum efnum, hvorki eftir endurskoðun á almannatryggingalögum né nokkru öðru.