07.11.1961
Neðri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2602)

56. mál, hafnarbótasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Með frv. þessu er lagt til að leggja nýjan skatt á allar nýbyggingar skipa í okkar landi. Gert er ráð fyrir því, að jafnt skip, sem smíðuð eru innanlands, og hin, sem smíðuð eru erlendis fyrir Íslendinga, verði samkv. frv. skattlögð til hafnarbótasjóðs um 2% af kostnaðarverði. Það er alveg augljóst af framsöguræðu þeirri, sem flm. frv. flutti fyrir þessu frv., að meginástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, er sú, að honum finnst, að seint hafi gengið að fá því til leiðar komið að koma upp þurrkví hér á Íslandi til þjónustu fyrir skipaflota landsmanna. Ég er flm. þessa frv. fullkomlega sammála um, að það hefur gengið allt of seint, og það er í rauninni skömm til þess að vita, að svo grátlega seint skuli hafa gengið að þoka því ágæta máli áleiðis að byggja hér þurrkví til þjónustu fyrir skipaflota okkar. En ég er hins vegar honum ekki sammála um þá leið, sem hann velur til þess að reyna að hrinda þessu máli áleiðis.

Það er alveg augljóst mál, að það, sem tafið hefur framkvæmdir í þessum efnum, er fádæma skilningsleysi þeirra, sem fara með málefni Reykjavíkurbæjar. Þeir hafa satt að segja ekki lakari aðstöðu til þess að hrinda þessu nauðsynjamáli áleiðis heldur en aðrir bæir á landinu hafa til þess að gera hliðstæðar framkvæmdir hjá sér, sem þeir eru að gera.

Það er greinilegt, að það er eðlilegast, að þurrkví verði byggð hér í Reykjavík. Það er mjög margt, sem mælir með því, að hér verði hún staðsett fremur en annars staðar. Að vísu hefðu getað komið til greina staðir hér í næsta nágrenni við aðaliðnaðarstöðvarnar í Reykjavík, en langt frá þeim er ekki hægt að fara með slíkt mannvirki sem þetta. En Reykjavíkurbæ hefur staðið til boða sama fyrirgreiðsla til þess að koma þessu mannvirki áleiðis og aðrir bæir hafa til skyldra fyrirtækja eða framkvæmda, eins og til þess að byggja þar dráttarbrautir og vélaverkstæði o.þ.h. Reykjavíkurbær hefur átt kost á því að fá úr ríkissjóði 2/5 hluta eða 40% af stofnkostnaði þessa mannvirkis, og fyrir hinum hlutunum, 60%, sem Reykjavíkurbær eða Reykjavíkurhöfn hefði átt að leggja fram, hefði hún getað fengið ríkisábyrgð samkv. gildandi lögum eins og aðrir. Það var og er vandalaust að útvega bæði erlendis og innanlands lán til þess að standa undir þessum 60% af stofnkostnaðinum. Og það er sú leið, sem átti að fara, og hún er hreint ekki meira átak fyrir Reykjavík en fyrir marga staði úti á landi, sem hafa verið að ráðast í milljónaframkvæmdir til þess að koma upp dráttarbrautum hjá sér. En svar það, sem hv. flm. las hér upp frá hafnarstjórninni í Reykjavík um afstöðu hennar til þessa máls, sýndi bezt þann skilning, sem þar er uppi á þessu mikla nauðsynjamáli, þar sem hafnarstjórnin í Reykjavík vill hér ekki að koma, nema ríkissjóður leggi fram 90% af kostnaði mannvirkisins eða miklu meira en til allra annarra hafnarframkvæmda í landinu, og samt sem áður átti Reykjavíkurbær að eiga mannvirkið á eftir. Þetta er auðvitað með sérstöku orðalagi hrein neitun á því að sinna þessu verkefni.

Þá leið, sem hv. flm. þessa frv. leggur til, að farin verði, að skattieggja allar nýbyggingar skipa í landinu til þess að hrinda þessu máli áleiðis, tel ég alveg fráleita. Sannleikurinn er sá, að það er búið að gera þær ráðstafanir, að það er mjög örðugt fyrir menn að ráðast í nýbyggingar fiskiskipa. Venjulegur vertíðarbátur kostar með því verðlagi, sem nú er orðið, á milli 5 og 6 millj. kr. Þó að takist að fá öll þau lán, sem heimilt er að veita úr stofnlánasjóðum hjá sjávarútveginum, þarf sá aðili, sem kaupir sér nýjan bát nú, samt sem áður að hafa handbært fé upp á um 2 millj. kr. til þess að geta keypt slíkan bát. Og það er ekki nóg með það, þó að þessar 2 millj. til þess að kaupa sér venjulegan fiskibát væru handbærar, heldur eru einnig sett þau sérstöku ákvæði í reglugerðir hjá bönkunum, að enginn getur keypt sér t.d. fiskibát erlendis frá nú, nema hann útvegi einnig 7 ára lán á hinum hlutanum af stofnverði bátsins, þeim sem aðilinn hefur ekki til í reiðufé. Stofnlánasjóðir sjávarútvegsins hér innanlands hafa skorazt undan því að veita þessi lán um alllangan tím,a, og það þarf því að, útvega allmikil erlend lán líka til þessara kaupa. Það er því raunverulega orðið svo, að það stappar nærri því, að búið sé að loka fyrir það, að hægt sé að kaupa ný fiskiskip til landsins, eins og nú háttar. Það er því sannarlega ekki á það bætandi með því að fara að fitja upp á nýjum sköttum til þess að gera byggingar t.d. fiskiskipa enn þá dýrari en þær eru nú, miðað við þær aðstæður, sem við eigum nú við að búa.

Sú túlkun hjá hv. flm. þessa frv., að þar sem nokkur hluti af þessu gjaldi eigi að ganga til uppbyggingar hafna í landinu og annar hluti til þess að koma upp þurrkví, þá muni slíkt bæta svo aðstöðu fiskiskipaflotans í framtíðinni, að það muni einnig spara honum útgjöld, ég geri ekki mikið úr þessu a.m.k. fyrstu árin. Ég veit, að það tekur langan tíma. Og í þeim efnum vil ég aðeins minna á þá einkennilegu staðreynd, að eina höfnin í landinu, sem talin er fullkomin og góð, Reykjavíkurhöfn, er samkvæmt opinberum skýrslum hjá þeim, sem fara með vátryggingarmál bátaflotans í landinu, talin hættulegasti staðurinn við allt Ísland eða þar sem mest tjón gerist.

Nei, tjónin hverfa ekki að fullu og öllu, jafnvel þó að okkur takist að bæta okkar hafnir. Þar grípur margt fleira inn í. Og það er alveg áreiðanlegt, að jafnvel þó að það mætti takast að ýta nokkuð áfram þeim hafnarframkvæmdum í landinu, sem unnið er að, nú á næsta áratug, og það yrði vissulega öllum skipaeigendum til góðs, — það skal ég játa, — þá þýðir vitanlega ekkert annað en horfast í augu við það, að þau gjöld, sem lagt er til að leggja á nýsmíði skipa samkv, þessu frv., mundu þýða það, að erfiðara reyndist fyrir menn að kaupa ný skip, eins og ástatt er nú, og að rekstrarkostnaðurinn yrði meiri a.m.k. í nálægri framtið.

Ég met alveg fyllilega þann vilja, sem fram kemur í þessu frv. hjá hv. flm. fyrir því að koma upp þurrkví. Ég veit, að hann er áhugamaður í þeim efnum og hann skilur flestum mönnum betur, að það er mikil þörf á því fyrir skipaflota landsmanna að komið verði upp bættri aðstöðu til skipaviðgerða og skipaviðhalds í okkar landi, og við þurfum að fá þurrkví. En hinu held ég að bæði hann og aðrir verði að gera sér grein fyrir, að það verður varla komizt hjá því að ætlast til þess, að þeir, sem ráða málefnum Reykjavíkur, sýni skilning á þessu máli, þegar á að byggja slíka stöð hér í Reykjavík. Þeir geta ekki skotið sér lengur en þeir eru búnir að gera undan þessu verkefni. Og þetta verkefni er ekkert erfiðara fyrir þá en hliðstæð verkefni eru fyrir marga aðra staði á landinu, þar sem þeir eru nú að ráðast í sínar hafparframkvæmdir eða ráðast í byggingu dráttarbrauta, sem eru mjög kostnaðarsamar hjá þeim mörgum. Ég er ekki heldur svo svartsýnn, að ég álíti það ekki kleift fyrir Reykjavíkurbæ að fá hartnær 60% af stofnkostnaði þurrkvíar með sæmilega hagstæðu láni erlendis og hérlendis, ef reynt væri að fá slíkt lán. Ég álít, að þetta sé fyllilega fært. Ef málið er hins vegar svo erfitt viðureignar, að forustumenn Reykjavíkur skilja það ekki og vilja ekki leysa verkefnið, er auðvitað næsta atriðið það, að ríkið leysi þennan vanda, að það verði ríkisjóður, sem byggir þurrkví og rekur hana, og þá verður ríkið að útvega lán í þessu skyni og leggja ákveðinn hluta á hverjum fjárlögum fram til þess að koma upp slíku mannvirki sem þessu.

Í þessum efnum vil ég líka minna á, að það er að verða sérkennilegt hér í okkar landi, að þegar um nauðsynjamál fyrir t.d. okkar sjávarútveg er að ræða, þá er alltaf lagt til, að skattleggja skuli sjávarútveginn sérstaklega í því skyni. Þegar þarf að afla hér fjár til stofnlána sjávarútvegsins, svo að hægt sé að halda uppi eðlilegum lánum til þess að endurnýja fiskiskipaflota landsmanna, eru lögð sérstök gjöld á sjávarútveginn í því skyni. Ef þarf að byggja þurrkví, hugsa menn sér að leggja sérstakan skatt á sjávarútveginn. En þessu er ekki svona varið með marga aðra atvinnuvegi í landinu. Þeir geta fengið sitt stofnfé að láni úr hinu almenna bankakerfi landsins. Og það er þjóðarinnar allrar að standa undir slíku. Ég veitti því athygli, að erlendur sérfræðingur, sem leit hér á þessi mál nú fyrir stuttu og hefur skrifað langa ritgerð um þau, benti einmitt strax á þetta, hvaða ástæða væri til þess að vera alltaf að skattleggja sjávarútveginn sérstaklega í sambandi við eðlileg stofnlán, eins og það ætti ekki að vera þjóðarinnar í heild að taka þátt í því að leggja fram fé í því skyni. Ég vil því fyrir mitt leyti vara við þeirri stefnu, sem kemur fram í þessu frv., sem miðar að því að leggja hér nýjan skatt á sjávarútveginn. Ég álít, að þar sé verið á rangri leið. Hitt tek ég undir, sem frv. fjallar um, að reyna að þoka áfram því mikla nauðsynjamáli að byggja hér þurrkví. Það er nauðsynjamál, og það er sjálfsagt að reyna að leita að einhverjum ráðum til þess að ýta því máli áfram. En sú leið, sem lögð er til í þessu frv., er mjög a annan veg en ég hefði kosið.

Þetta vildi ég láta koma fram hér strax við 1. umr. þessa máls og vænti, að sú nefnd, sem nú fær þetta mál til meðferðar, hugleiði þessi orð mín.