12.03.1962
Efri deild: 62. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (2625)

39. mál, kornrækt

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. hefur gert grein fyrir afstöðu meiri hl. n. um það að vísa þessu máli til ríkisstj. Hv. þm. færði fyrir þessu nokkur rök, m.a. það, að tollskrá væri nú í endurskoðun og þeirri endurskoðun yrði væntanlega lokið fyrir næsta haust, og þar mundi að öllum líkindum verða um lækkun að ræða á aðflutningsgjöldum til vélakaupa vegna landbúnaðarins. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. viti þetta betur en ég, og skal því ekki andmæla því neitt, að til þessa kunni að koma, og ber að sjálfsögðu því að fagna, ef svo verður, þótt mér finnist nú ýmislegt annað, sem hæstv. ríkisstj. kemur með í garð landbúnaðarins, bera merki annars en þess. Þá gat hv. þm. þess, að í frv. um hina nýju stofnlánadeild landbúnaðarins, sem nú liggur fyrir Alþingi, var lagt fram hér fyrir nokkrum dögum og að ötlum líkindum verður að tögum á þessu þingi, væri svo ráð fyrir gert, að veitt yrðu lán til vélakaupa. Á það vil ég benda, að slíkt er ekki neitt nýmæli í þeim lögum, það hefur gilt í ræktunarsjóðslögunum til þessa. Og það, sem hefur valdið því, að ekki hafa komið til stórfelld lán til vélakaupa, er fyrst og fremst fjármagnsskortur. Við nokkra yfirvegun þessa frv. sýnist mér það bera þess vitni, að það verði ekki lánað til alls, sem lagaheimild nær til þar, fremur nú á næstunni en verið hefur til þessa, þannig að ég hygg, að það bæti ekki mikið úr í þeim efnum fyrir kornræktarmenn eða aðra.

Þá gat hv. þm. þess, að þetta frv. hefði legið fyrir mörgum þingum. Það er alveg rétt. Það er langt síðan það var lagt fyrst fram á Alþingi, og við höfum afgreitt það tvívegis, eins og hv. þm. gat um, úr þessari hv. d. til Nd., þar sem það hefur sofnað. Og aðalástæðan hjá hv. meiri hl, n. skilst mér að sé sú, að ríkisstj. hafi þetta mál í athugun og þess vegna finnist þeim eðlilegast, að málinu sé vísað til hennar. En það er alllangt síðan þetta frv. var lagt fyrir Alþingi, og gat hv. 10, landsk. þm., formaður landbn., þess í haust, að ríkisstj. mundi leggja fram eitthvað þessu máli til stuðnings á þessu þingi, en fyrir nokkrum dögum var hann orðinn vonlaus um það. Og ég vona, að hann verði ekki jafnvonlaus með það eftir eitt eða tvö ár, þannig að þessi hæstv. stjórn, ef hún situr svo lengi, sinni þessu máli ekki neitt, þótt mér komi það hins vegar ekki mikið á óvart.

Ég tel þetta mát vera allþýðingarmikið, og við höfum, flm. þessa frv., bæði nú að þessu sinni sem og á öðrum þingum, þegar við höfum flutt þetta mál, lagt það fyrir þannig, að við teljum, að það sé ekki um verulegan bagga fyrir ríkissjóð að ræða og ekki meiri bagga en svo, að það mundi á margvíslegan annan hátt borga sig, eins og t.d. það, að það mundi sparast allverulegur gjaldeyrir til fóðurbætiskaupa, ef hægt væri að mun að efla kornræktina í landinu. Það mun láta nærri, að á s.l. sumri hafi verið uppskorið korn, sem svarar 6 þús. tunnum alls í landinu. Og tilraunastjórinn, Klemenz á Sámsstöðum, sem er manna fróðastur í þessum efnum, hefur haft tilraunir með kornyrkju í 39 ár og af þessum 39 árum telur hann 16 sumur vera ágæt, en aðeins 7 sumur slæm, á þessum 7 sumrum hafi kornstærðin ekki verið meiri en 2/3 af þyngd sáðkornsins. En þó að það hafi ekki verið þyngra en það, hefur kornið verið mjög vel nothæft. Og það mun láta nærri, að á þessum tæpum 40 árum, sem kornræktartilraunir hafa verið hér á landi, hafi verið reyndar nálægt 400 korntegundir, þótt hins vegar örfáar af þeim gefi tilefni til þess að halda áfram með þær sem nytjakorn hér á landi, — aðeins örfá afbrigði. En það, sem mestu skiptir, er, að við getum komizt að niðurstöðu um, hvaða korntegund gefst bezt, þ.e.a.s. þolir bæði vinda, rigningar og frost, því að veðrátta er hér misjöfn og við getum við öllu búizt. En vísindunum hefur fleygt allmikið fram í þessum efnum, þannig að tilefni gefst til að ætla, að kornyrkjan geti orðið hér í framtíðinni mun arðvænlegri en hún hefur verið til þessa, miðað við það veðurfar, sem ríkt hefur hér fjóra síðustu áratugina. Ég ætla því, að þeim peningum verði ekki á glæ kastað, sem til kornyrkjunnar fara, hvorki hjá einstaklingum né ríkisvaldinu. Og af þeim ástæðum höfum við flm. þessa frv. lagt til, að styrkur yrði veittur í fyrsta lagi til vélakaupa, og í öðru lagi, að greitt yrði framlag úr ríkissjóði til vinnslu landsins. Þetta hefur að sjálfsögðu sína þýðingu fyrir þá, sem kornyrkjuna stunda, en eigi að síður mikla þjóðhagslega þýðingu, ef kornyrkjan getur orðið nokkuð stór liður í búrekstri landsmanna, því að hún eykur fjölhæfni landbúnaðarins, jafnframt því sem hún sparar innflutning og sparar erlendan gjaldeyri.

Af þessum orsökum, sem ég hef hér getið, leggjum við til, flm. þessa frv. og minni hl. n., að frv. verði samþykkt í því formi, sem það er, og þess enn þá einu sinni freistað að vita, hvort ekki hafa orðið sinnaskipti í vetur í hv. Nd. og að þar muni nú að þessu sinni verða vilji fyrir því að afgreiða þetta mál, eins og verið hefur hér í hv. Ed. á undanförnum þingum.