14.12.1961
Neðri deild: 36. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

106. mál, lántaka hjá Alþjóðabankanum

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa fylgi mínu við þetta frv. Það er enginn vafi á því, að hitaveitan er ein hin merkasta framkvæmd, sem hugsanlegt er að ráðast í, og vitanlega hefur dregizt of lengi að hefja þar verulegar framkvæmdir til viðbótar þeim, sem fyrir eru.

Ég vildi svo aðeins í framhaldi af þessu rifja það upp, að þegar slitnaði upp úr viðskiptum Íslands við Alþjóðabankann, þá var það vegna þess, að Alþjóðabankinn neitaði að lána íslendingum í eina merkustu framkvæmd, sem hér hefur verið ráðizt í, sementsverksmiðjuna, vegna þess að hún væri ríkisfyrirtæki. Ekki fyrir það, að Íslandi væri vantreyst í bankanum, eða neinar aðrar ástæður en þær, að bankinn vildi ekki lána í ríkisfyrirtæki af þessu tagi. Og það átti að fá Íslendinga, ríkisstjórnina, sem þá var, til þess að breyta þessu. En stjórnin vildi það ekki, vildi heldur leysa málið á annan hátt og önnur lánamál í framhaldi af því um nokkurra ára skeið. — Þetta vil ég að komi hér greinilega fram, að það hefur aldrei neitt komið fram frá Alþjóðabankanum um, að bankinn væri Íslandi lokaður vegna þess, að Íslandi væri ekki treyst fjárhagslega.