27.03.1962
Efri deild: 71. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

136. mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. hefur nú flutt framsöguræðu sína fyrir meiri hluta samgmn. Hann hefur ítrekað það, sem stendur í nál. meiri hlutans, að ekki beri að samþykkja þetta frv. nú, og nefnir hann til þess tvær ástæður, annars vegar að verið sé að endurskoða vegalög, hins vegar að þörfin sé um allt land fyrir auknar framkvæmdir í vegamálum og það mundi því ekki leysa vandann, þó að þessi tvö héruð yrðu tekin út úr. Í nál. meiri hl. segir, að hann viðurkenni, að þörf sé á auknum framkvæmdum í vegagerð á Austfjörðum og Vestfjörðum, en „slik þörf er fyrir hendi um allt land,” segir í nál. Það er ekki hægt að skilja þessi orð á annan veg en þann, að þörfin sé alls staðar svipuð, þar sem segir: „en slík þörf er fyrir hendi um allt land.“ Ef þetta væri svo, að þörfin væri álíka mikil alls staðar, hefðum við aldrei flutt frv. Þá var frv. með öllu ástæðulaust. Hv. frsm. hefur líka talað í málinu á nokkurn annan veg, því að nú segir hann í framsögu, að það muni ekki vera vafi á því, að meiri þörf sé þó fyrir átak í vegamálum þessara tveggja héraða en annars staðar, en þetta hefði verið réttara að segja þá hreinlega í nái., svo að álitunum bæri saman.

Við 1. umr. þessa máls var gerð nokkur grein fyrir því, hversu mjög hallar á þessa tvo landshluta í samanburði við aðra. Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau dæmi nú, en þó er fullt tilefni til þess að minna á þessa hluti, þar sem nál. meiri hl. er á þennan veg, að þessi þörf sé álíka mikil, hvar sem er á landinu. Ég skal nefna sem dæmi, að tæpur fjórði hlutinn af öllum þjóðvegum á Vestfjörðum eru ógerðir með hillu, þar er veglaust, en í öðrum héruðum er þetta 1/20 til 1/50, sem er ógert. Svona er munurinn á héruðunum. Ógerðir þjóðvegir eru t.d. hér um bil heimingi lengri á Vestfjörðum og Austurlandi til samans en í öllum hinum landshlutunum fimm, Bráðabirgðavegir, þ.e. ruddir vegir, eru í þessum tveimur landshlutum það miklir, þessir lélegu vegir, sem fólkið verður þó að sætta sig við, að þeir eru mun lengri en í öltum hinum fimm kjördæmunum til samans. Aftur á móti eru fullgerðir þjóðvegir í þessum tveimur kjördæmum 37–40% af öllum vegunum þar, þegar þeir eru 67–83% annars staðar. Ég held, að þetta hljóti að duga til að sýna fram á þá fjarstæðu, sem borin er fram í nál. meiri hl., að það sé svona svipað ástandið í vegamálunum í öllum landshlutum. En það er að sjálfsögðu virðingarvert, að hv. frsm. hefur bætt nokkuð úr þessari rangfærslu með framsöguræðu sinni, þar sem hann segir, að ekki sé að efast um, að þörfin sé meiri þarna.

Það er í sjálfu sér með öllu áþarft að vera að nefna fleira af þessu tagi, þó að það væri auðvelt. Ég get svo sem nefnt örfáar sýslur sem sýnishorn. Ógerðir þjóðvegir eru 38.2% af vegunum í Norður-Ísafjarðarsýslu, hér um bil 2/5 hlutar af vegakerfinu er með öllu óhreyft, þegar í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru þeir 5.7% og þegar þeir eru 1.1% í Suður-Þingeyjarsýslu, sýslu hv. frsm. meiri hl., þar er 1.1 % af vegunum ógert, þegar það er 38.2% í Norður-Ísafjarðarsýslu. Ég mun ekki að svo komnu rekja fleiri dæmi um þessa hluti, því að það er með öllu óþarft.

Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, lét vegagerð ríkisins gera ýtarlega skýrslu um ástand veganna fyrir nokkrum árum, og nær sú skýrsla til ársloka 1958. Þetta er eina yfirlitið, sem við höfum, sem er nákvæmt og ýtarlegt og við getum byggt á álit okkar, hvernig eitt hérað stendur að vígi samanborið við annað. Upp úr þessari skýrstu eru þessar tölur teknar, sem ég hef nefnt. Þessi tvö héruð eru því óneitanlega svo langt fyrir neðan önnur héruð hvað vegagerð snertir, að það er með öllu óviðunandi að þola þetta lengur.

Þá segir í nál. meiri hl. samgmn.: „Þar sem vegalög eru nú í endurskoðun á breiðum grundvelli hjá stjórnskipaðri nefnd, sem mun skila áliti og tillögum á næsta hausti, telur meiri hl. n. ekki tímabært að samþ. þetta frv.“

Að hvaða leyti þarf að bíða eftir endurskoðun vegalaga til að bæta úr þessu misrétti á milli landshluta, eins og frv. fer fram á? Þarf að biða eftir vitneskjunni um það, hvort ástandið er verra í þessum 2 landshlutum en annars staðar? Nei, það þarf ekki að biða eftir þeirri vitneskju, því að hún liggur skjallega fyrir, og meira að segja hv. frsm. meiri hl. neitar því ekki, að þarna sé þörfin mikil. Eftir hverju þarf þá að biða? Ef hv. þm. vita þetta og vita það út í æsar, hvernig tvö héruð þessa lands eru sett móts við önnur héruð, þá þarf ekki að biða eftir neinni endurskoðun til að fá þá vitneskju. Eftir hverju á þá að bíða?

En í tilefni af því, að meiri hl. n. telur samt ástæðu til þess að biða og þess vegna eigi að fella þetta frv. með þeim hætti að vísa því til ríkisstj., hvers vegna var þá verið að taka 10 millj. kr. lán á s.l. ári til þess að leggja fyrir veg í einu kjördæmi? Hvernig var hægt að taka þetta lán, en biða ekki eftir endurskoðuninni? Er það einhver nauðsyn að bíða eftir endurskoðun vegalaga með lántöku handa þeim héruðum, sem verst eru sett í landinu? Hvers vegna var þá hægt að taka lán handa Reykjanesi, í nýjan steinsteyptan veg þar, við hliðina á öðrum vegi, sem liggur sömu leið, án þess að bíða eftir endurskoðuninni? Ég fer alvarlega fram á það við hv, frsm. meiri hl., að hann skýri frá því, hvernig þessu víkur við. Hefur þéttbýlið á Reykjanesi einhver þau forréttindi að dómi hv. frsm., að þar þurfi ekki að hlíta neinni endurskoðun á lögum eða reglum, sem önnur héruð landsins skulu þó hlíta? Og ég vil nefna enn eitt. Er hv. frsm. kunnugt um það, að þetta lán, 10 millj. kr. lán til vegagerðar á Reykjanesi, var tekið í heimildarleysi, án þess að hæstv. ríkisstj. hefði neina heimild til þeirrar lántöku, en samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar þarf heimild Alþingis til þess að taka lán? Ég geri ráð fyrir, að hv. þm., þeir sem skipa meiri hl., hafi kynnt sér þessi mál út í æsar. Þó verð ég að segja, að eitthvað skortir þar á, því að ég tók eftir því í ræðu hv. frsm. hér áðan, að hann sagði, að með þessu frv. leggi flm. til, að tekið sé 10 millj, kr. lán á ári í 10 ár. Hvar stendur þetta í frv.? Ég veit ekki til, að það sé neins staðar í frv. að taka 10 millj. kr. lán á ári í 10 ár, heldur í 5 ár. Og það er vægast sagt það minnsta, sem maður verður að gera kröfu til, að frsm. máls viti, hvað stendur í plagginu, sem hann er að tala fyrir eða tala um.

Báðar þær ástæður, sem greindar eru í nál. meiri hl. samgmn. og reyndar komu fram líka í ræðu frsm., eru tylliástæður. Það rekst ekkert á endurskoðun vegalaga að samþ. þetta frv., og það er fyllilega fordæmi til þess að gera þessa ráðstöfun, því að hæstv. ríkisstj, er búin að brjóta ísinn og hefja vegagerð í landinu með lánsfé. Að mínum dómi er ekki nema ein ástæða fyrir þessari afstöðu stjórnarsinna í samgmn. Hún er sú, að það sé réttmætt að leggja áherzlu á vegagerð í þéttbýli, jafnvel taka til þess lán, þó að skorti heimildir til lántöku, en það megi ekki og skuli ekki tekið lán til að bæta úr samgöngum þeirra héraða, sem verst eru sett. Þetta er stefnan. Þetta er að mínum dómi stefna stjórnarfl. í því máli, sem lengi hefur verið talað um og kallað jafnvægi í byggð landsins. Afleiðingar af stefnunni hljóta að segja til sín og hafa reyndar sagt til sín. Fólkinu fækkar eðlilega þar, sem ekki fást vegir lagðir, og framleiðslan minnkar. En fjölgunin verður þar, sem betur er búið að fólkinu, m.a. með því að taka lán til að leggja steinsteypta vegi, þegar fólk annars staðar fær engan veg. Þetta er afleiðingin. Ég vil þó segja það um hv. meiri hl. samgmn., sem að þessu sinni er: afgreiðsla þessi er hreinskilnari og betri en á tveimur undanförnum þingum. Þá var þetta mál svæft, nú er gengið hreint til verks og lagt til af hálfu stuðningsmanna ríkisstj., að það skuli fellt. Þetta eru miklu betri vinnubrögð, og ég kann þeim betur, þó jafnvel að þau séu á þessa leið. Menn sjá þá, hvað þeir vilja. Þá sjá menn, hver stefnan er, og um hana verður ekki deilt hér eftir.